Viðburðir vorönn 2007

27. ágúst 2007: Írönsk stjórnmál á dögum Ahmadinejads

Í þessum fyrirlestri fjallaði Houchang Chehabi, prófessor í alþjóðasamskiptum og sögu við Boston-háskóla, um stjórnarfar í Íslamska lýðveldinu Íran. Hann ræddi um hvort kjör Mahmouds Ahmadinejads í embætti forseta hafi haft einhver áhrif á stefnu íranska ríkisins. Að auki snerti hann stuttlega á kjarnorkuprógrammi Írans.
Houchang Chehabi er prófessor í alþjóðasamskiptum og sögu við Boston-háskóla. Prófessor Chehabi hann hefur einnig kennt við Harvard, Oxford og UCLA, auk þess að vera handhafi bæði Alexander von Humboldt og Woodrow Wilson styrkja. Hann hefur gefið út bækurnar Iranian Politics and Religious Modernism: The Liberation Movement of Iran under the Shah and Khomeini (1990) og Distant Relations: Iran and Lebanon in the Last 500 Years (2006) og hefur skrifað fjölda greina.


Miðvikudaginn 4. júlí 2007: Sri Lanka: Áhrif aðskilnaðarátaka í smáríki á alþjóðlegt og svæðisbundið öryggi

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknasetur um smáríki stóðu fyrir opnum fyrirlestri Shyams Tekwamis um áhrif átaka milli aðskilnaðarsinna og ríkisstjórnarinnar á Sri Lanka á svæðisbundið og alþjóðlegt öryggi. Shyam Tekwami er lektor í blaða- og fréttamennsku við Nanyang-tækniháskólann í Singapore. Hann hefur gefið út fjölda greina og bóka, m.a. um fjölmiðla og internetið í stjórnmálum á Sri Lanka og Indlandi.

Fyrirlestur Tekwamis fjallaði um möguleg áhrif átakanna á Sri Lanka á umheiminn, en hann telur líkur á því að átök í smáríki geti valdið óstöðugleika á svæðinu allt um kring. Tekwami hefur fylgst náið með átökunum frá upphafi, fyrst sem blaðamaður en nú í gegnum starf sitt sem háskólakennari. Hann skoðaði sérstaklega hvernig Tamílarnir hafa notað nýja tækni til að vinna að málstað sínum og hefur tekið viðtöl við marga helstu leiðtoga þeirra.


18. maí 2007: Bretland og Evrópa – tilfinningahalli hjá eyþjóð

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélag Íslands og breska sendiráðið á Íslandi buðu til fyrirlestrar um afstöðu Breta til Evrópusamrunans. Fyrirlesari voru Peter Hennessy, prófessor í samtímasögu við Queen Mary, University of London, en hann er meðal virtustu fræðimanna Breta á sínu sviði. Hann er höfundur fjölmargra bóka um breska sögu og samtíð og var áður vinsæll blaðamaður og sjónvarpsfréttamaður.

Í erindinu, sem Hennessy kallar: Britain and Europe: The Emotional Deficit, rakti hann afstöðu Breta til Evrópusamrunans og velti vöngum yfir því hvers vegna eyþjóðin líti hann öðrum augum en meginlandsþjóðirnar. Vel má vera að niðurstaða þeirra bollalegginga eigi skýrt erindi við Íslendinga.


30. apríl 2007: Forsetakosningar í Frakklandi – pallborðsumræður um lokaumferðina í kosningunum í Frakklandi

Kosningaþátttaka í fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi var betri en gerst hefur lengi og allt stefnir í spennandi síðari umferð. Þátttakendur í pallborðinu hafa allir fylgst með frönskum stjórnmálum og samfélagi um árabil og ræddu stöðuna eins og hún lítur út viku fyrir síðari umferð. Einnig voru teknar spurningar úr sal.

Þátttakendur voru:
Gérard Lemarquis, frönskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð
Torfi H. Tulinius, prófessor í frönsku við Háskóla Íslands
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu


20. apríl 2007: Þjóði, ríki og trúarbrögð í múslimaríkjum í dag

Dr. Adeeb Khalid flutti erindi um íslamskar hreyfingar í Mið-Asíuríkjum á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Íslömsk samfélög eiga sér ólíka sögu og bera hvert um sig byrðar fortíðar. Hugmyndir um sjálfsmynd, þjóðerni og ríkisborgararétt hafa mótað stjórnmálaumhverfi þessara ríkja. Íslamskar hreyfingar nútímans hafa mótast af þeim samfélögum sem þau spretta úr. Dr. Khalid ræddi ólíka þróun múslimaríkjanna sem komu út úr Sovétríkjunum og hélt því fram að almennar yfirlýsingar um þá ógn sem stafi af íslam feli meira en þær sýna þar sem íslamskar hreyfingar starfi á mismunandi vegu og hafi ólík markmið.

Adeeb Khalid er prófessor í sagnfræði við Carleton College í Minnesota. Hann rannsakar stjórnmálaumhverfi menningarumbóta í múslimaríkjum, einkum í Mið-Asíu á árdögum Sovétríkjanna. Hann er höfundur bókarinnar: ‘The Politics of Muslim Cultural Reform: Jadidism in Central Asia’ og hinnar nýútkomnu: ‘Islam After Communism: Religion and Politics in Central Asia’ (University of California Press: 2007). Prófessor Khalid hefur gefið út fjölda bóka og greina um sögu Mið-Asíu og íslam í rússneska keisaraveldinu og Sovétríkjunum.


11. apríl 2007: Indland nútímans í kastljósinu: Fólksfjöldi, samfélag og háskólamenntun

Mirja Juntunen, forstöðumaður Nordic Centre in India, hélt erindi sem hún kallaði „Contemporary India in Focus: Populations, Society and Higher Education.“ Erindið var á vegum Asíuvers og Alþjóðamálastofnunar og eins og titillinn gefur til kynna fjallaði erindið um helstu einkenni og brýnustu úrlausnarefni indversks samtímasamfélags með sérstöku tilliti til æðri menntunar.

Mirja kynnti starfsemi Nordic Centre in India, sem er samnorrænn vettvangur fyrir rannsóknir á Indlandi og tengsl norrænna og indverskra háskólastofnana. Geir Sigurðsson, forstöðumaður Asíuvers Íslands og lektor við Háskólann á Akureyri stýrði fundinum.


29. mars 2007: Konur í utanríkisþjónustu – Pallborðsumræður

Yfirbragð alþjóðamála hefur breyst töluvert á síðustu áratugum. Það sem áður var harður heimur hernaðar og gereyðingarvopna snýst nú sífellt meira um mýkri mál, eins og flóttafólk, hungur, fátækt, læsi og faraldra. Mikil áhersla hefur m.a. verið lögð á það á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að tryggja hag kvenna, þar sem sýnt þykir að heilsa þeirra og læsi hafi úrslitaáhrif á heilsu og hag þjóða. Á sama tíma og þessar breytingar hafa orðið er konum farið að fjölga í utanríkisþjónustu og nú eru fjórar konur sendiherrar erlendra ríkja á Íslandi. Þrjár þeirra ræddu um stöðu kvenna í utanríkisþjónustu ríkja sinna, framgang, áhrif og aðstæður í pallborðsumræðum á vegum Alþjóðamálastofnunar. Einnig tók þátt fyrsta íslenska konan til að gegna starfi sendiherra.

ÞÁTTTAKENDUR:
Fr. Carol Van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi
Fr. Madeleine Ströje-Wilkens, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi
Fr. Anna Blauveldt, sendiherra Kanada á Íslandi
Fr. Sigríður Snævarr, sendiherra Íslands

Silja Bára Ómarsdóttir, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar stýrði umræðunum.

 


23. mars 2007: Eftirlit með vændi í kínverska alþýðulýðveldinu

Síðastliðið haust varð mikið fjölmiðlafár í kringum opinbera sýningu á fólki sem hafði brotið lög um vændi í borginni Shenzhen í Kína. Umræðunni hefur verið hampað sem sögulegri fyrir að fela í sér margvísleg viðhorf sem ögrað hafi „rödd alræðisins“ í kínverska lögreglu-/flokksríkinu.

Í erindi sínu á vegum Asíuvers og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, föstudaginn 23. mars, fjallaði Elaine Jeffreys um vændi og viðbrögð við því í Kína og umræðu um aðgerðir yfirvalda. Því hefur verið haldið fram að áðurnefnd sýning hafi hrint af stað andspyrnu gegn lögreglunni og þar með flokksræðinu þar sem kínverskur almenningur hafi í raun gagnrýnt þær hömlur sem kínverska stjórnin hefur sett á vændi. Á móti hefur verið bent á að löggæslueftirlit með vændi njóti almenns stuðnings og að stefnan gagnvart vændi í Kína hafi að auki verið tekin til gagngerar endurskoðunar. Elaine fjallaði um ýmislegt sem bendir til þess að hugmyndir á Vesturlöndum um ofurstýringu Kínverska ríkisins á samfélagslegri umræðu eigi ekki við rök að styðjast.
Dr. Elaine Jeffreys er Kínafræðingur við University of Technology í Sydney, Ástralíu.

 


22. mars 2007: From people´s paradise to a poor country in the real world: North Korea´s unexpected reality check and beyond

 

Á liðnum árum hefur Norður-Kórea verið í heimsfréttunum með nokkuð jöfnu millibili. Stjórnvöld hafa, eftir því sem fréttir herma, unnið að gerð kjarnorkusprengju á meðan öll alþýða manna sveltir heilu hungri. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, taldi Norður-Kóreu til „öxulvelda hins illa“ og hætti allri matvælaaðstoð við þessa eftirlegukind ríkissósíalismans um tíma. Í erindi á vegum Asíuvers Íslands og Alþjóðamálastofnunar ræddi Geir Helgesen um þróunina í Norður-Kóreu undir ríkjandi harðstjórn. Einnig fjallaði hann um stöðuna í samningaviðræðum stórveldanna við stjórnvöld í Norður-Kóreu, svokallaðar sexhliða viðræður.

Dr. Geir Helgesen er fræðimaður við Norrænu Asíustofnunina (NIAS). Hann er sérfræðingur í málefnum Kóreu-ríkjanna og Kína.

 


12. mars 2007: Business and the New (In)Security

Alyson Bailes hélt fyrirlestur um nýjar aðstæður í öryggismálum ríkja og það sérstaka hlutverk sem fyrirtæki hafa í þessum nýju kringumstæðum. Hún benti á það að í kjölfar hryðjuverkahótana á Bretlandseyjum í ágúst sl. hafi hertar öryggisaðgerðir og tafir kostað flugfélög víða um heim allt að 250 milljónir punda. Í framhaldi af þessu fjallaði Bailes um hver muni veita samfélagslegt öryggi og bera kostnaðinn af því, og enn fremur hverjum sé greitt fyrir öryggisþjónustu. Þessi áhugaverði fyrirlestur tengdi saman hápólitískar og efnahagslegar spurningar, þar sem Bailes dró líkingu á milli borgaralegs frelsis og mannréttinda annars vegar og viðskiptafrelsis og efnahagslegra réttinda hins vegar.

Alyson Bailes, sem er heimsþekktur fræðimaður á sviði öryggis- og varnarmála, er fráfarandi forstöðumaður SIPRI, Stockholm Peace Reasearch Institute, í Svíþjóð, sem er leiðandi stofnun á sviði rannsókna um stríð og frið í heiminum. Hún situr í stjórn Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki við Háskóla Íslands. Bailes starfaði m.a. í bresku utanríkisþjónustunni og varnarmálaráðuneytinu um langa hríð. Hún hefur einnig starfað hjá virtum óháðum rannsóknastofnunum svo sem Chatham House í London og EastWest Institute í New York. Bailes hefur skrifað fjölda fræðigreina um öryggis- og varnarmál í Evrópu, samstarf Evrópu við Bandaríkin, framtíð NATO og afvopnunarmál svo fátt eitt sé nefnt.


9. mars 2007: Ísraelar og Palestínumenn: Valkostir Ísraels

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands býður upp á áhugaverðan fyrirlestur um Ísrael og Palestínu. Fyrirlesturinn verður haldinn í Árnagarði 201 kl. 12 á föstudag, 9. mars og er fluttur á ensku. Í erindi sínu mun Dr. Heller fjalla um þá valkosti sem Ísrael er nú að skoða til að leysa úr deilum sínum við Palestínumenn. Þetta er fyrirlestur sem enginn áhugamaður um deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs ætti að láta fram hjá sér fara.

Mark A. Heller er yfirmaður rannsókna við Öryggismálastofnun Tel Aviv háskóla í Ísrael. Hann er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Harvard-háskóla, meistaragráðu í mið-austurlandafræðum frá sama háskóla og BA í stjórnmála- og hagfræði frá Toronto-háskóla. Dr. Heller hefur skrifað fjölda bóka og greina um miðausturlensk stjórn- og öryggismál auk þess að kenna miðausturlensk stjórnmál og alþjóðasamskipti. Hann ritstýrði bókinni: „Israel and the Palestinians: Israeli Policy Options“ (2005) með Rosemary Hollis og hefur m.a. skoðað tengsl Ísraels og Evrópusambandsins og ólík átök Ísraela við Hamas og Hizbollah.


8. mars 2007: Palestínskir flóttamenn – raunveruleiki og valmöguleikar

Erindi framkvæmdastjóra Flóttamannaaðstoðar SÞ fyrir Palestínumenn (UNRWA)

Karen Koning AbuZayd er framkvæmdastjóri UNRWA (United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees ). Frú AbuZayd býr í Gazaborg en höfuðstöðvar UNRWA eru þar og í Amman í Jórdaníu. UNRWA var stofnað með ályktun Allsherjarþings SÞ nr. 302 (IV) 8. desember 1949 til að aðstoða Palestínaflóttamenn. Stofnunin starfar á Gaza, Vesturbakkanum, Líbanon, Jórdaníu og Sýrlandi þar sem hún aðstoðar Palestínaflóttamenn og sér þeim fyrir menntun, heilbrigðisþjónustu, og félagslegri aðstoð. Stofnunin veitir einnig neyðaraðstoð þegar aðstæður krefjast.

Palestínuflóttamenn sem eiga rétt á aðstoð UNRWA eru alls 4,3 milljónir en hjá stofnuninni starfa alls 27 þúsund starfsmenn sem flestir eru sjálfir Palestínuflóttamenn. Stofnunin fjármagnar starfsemi sína með frjálsum framlögum frá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Íslandi.

Karen Koning AbuZayd var skipuð framkvæmdastjóri UNRWA í júní 2005 af þáverandi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan. Fram að þeim tíma hafði hún starfað sem vara-framkvæmdastjóri UNRWA frá árinu 2000. Áður starfaði hún hjá UNHCR eda Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna í 19 ár, meðal annars í Súdan, Namibíu og Síerra Leóne.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa saman að fyrirlestrinum.

Nánari upplysingar um UNRWA er að finna á slóðinni: www.unrwa.org.

Hér má lesa erindi Karenar

 


28. febrúar 2007: Dagur ungra fræðimanna

Alþjóðamálastofnun og Samtök iðnaðarins stóðu fyrir Degi ungra
fræðimanna, þar sem ungu og/eða nýútskrifuðu fólki gefst færi til að
kynna rannsóknir sínar tengdar Evrópumálum.

Þjóðarstolt eða samrunaþrá? Almenningsálit á Íslandi og Evrópusambandsaðild
– Meike Stommer, doktorsnemi, MA í stjórnmálafræði frá Greifswald-háskóla í Þýskalandi

Undirliggjandi hugmyndir í íslenskum hafréttarmálum og neikvæðri afstöðu ráðamanna til sjávarútvegsstefnu Evrópubandalagsins
– Bjarni Már Magnússon, LL.M. nemi í hafrétti, cand.jur., M.A. í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands

Norræna víddin í Evrópusamstarfinu
– María Þorgeirsdóttir, umsjónarmaður meistaranáms Háskólans á Bifröst, MA í hagnýtum hagvísindum frá Bifröst

Um Evrópu-rétt og Evrópu-rangt: Hvernig hægt er að klúðra innleiðingu evrópskra tilskipana í íslenskan rétt
– Guðrún Rögnvaldardóttir, framkvæmdastjóri, MPA frá Háskóla Íslands

Uppbygging Evrópuvitundar innan ESB
– Einar Þorvaldur Eyjólfsson, starfsnemi hjá EFTA í Sviss, MA í hagnýtum hagvísindum frá Háskólanum á Bifröst

Evrópskur samningaréttur – firra eða framtíðin?


Matthías G. Pálsson, lögfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu, cand.jur.
frá Háskóla Íslands, Ph.D. European University Institute, Flórens á
Ítalíu

 


23. febrúar 2007: Er stjórnarskráin úrelt? Málþing um stjórnarskrárbreytingar og alþjóðavæðingu

 

Kalla alþjóðaskuldbindingar á stjórnarskrárbreytingar?
– Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands

Stjórnarskráin og þátttaka Íslands í samvinnu Evrópuríkja
– Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu

Þátttaka í alþjóðasamtökum og endurskoðun stjórnarskrárinnar
– Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og varaformaður Stjórnarskrárnefndar

Stjórnarskrárfesta þolir ekki bið
– Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur


26. janúar 2007: Nýir Íslendingar: Fræðilegt sjónarhorn á málefni innflytjenda

Alþjóðasamfélagið – félag meistaranema í alþjóðasamskiptum, stóð í samvinnu við Alþjóðamálstofnun fyrir málþinginu Nýir Íslendingar: Fræðilegt sjónarhorn á málefni innflytjanda.

Dagskrá málþingsins:

Björg Kjartansdóttir fulltrúi innflytjendaráðs fjallar um störf innflytjendaráðs og verkefnin framundan. Glærur Bjargar

Berglind Ásgeirsdóttir
sendiherra ber stöðu innflytjendamála á Íslandi saman við það sem
gerist í öðrum OECD ríkjum. Berglind hafði umsjón með starfi að þessum
málaflokki í OECD. Glærur Berglindar

Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði við HÍ fjallar um muninn á orðræðu og reynd í innflytjendamálum. Glærur Guðmundar

Unnur Dís Skaptadóttir dósent í mannfræði við HÍ segir frá rannsókn sinni á upplifun innflytjenda á Íslandi.

Salmann Tamimi formaður Félags múslima á Íslandi fjallar um reynslu sína og annarra af því að flytjast til Íslands

Ahn-Dao Tran menntunarráðgjafi og verkefnisstjóri Framtíðar í nýju landi, fjallar um reynslu sína og annarra af því að flytjast til Íslands.


17. – 20. janúar 2007: Heimsókn ráðuneytisstjóra Eistlands

Rannsóknasetur
um smáríki við Háskóla Íslands tók á móti hóp ráðuneytisstjóra frá
Eistlandi dagana 17.-20. janúar. Hópurinn var hér í fræðsluferð og sat fyrirlestra hjá tveimur prófessorum í stjórnmálafræði, annars
vegar um íslenska stjórnkerfið og hins vegar um stöðu smáríkja í
Evrópu. Auk þess heimsótti hópurinn Alþingi og ýmis ráðuneyti.

Heimsóknin var hluti af fræðslustarfsemi Rannsóknaseturs um smáríki og
gott dæmi um þann árangur sem náðst hefur af starfsemi þess á fáum
árum. Rannsóknasetrið stendur fyrir árvissum sumarskóla í
smáríkjafræðum og gefur út ritröð um efnið. Þá hefur setrið náð að
skapa sér sess sem ein aðal miðstöð smáríkjarannsókna í heiminum. Megin
markmið setursins er að auka rannsóknir og fræðslu í smáríkjafræðum.