Viðburðir vorönn 2008


20. ágúst 2008: Reynsla Noregs af friðarumleitunum

Noregur hefur langa reynslu af friðarumleitunum, samningaviðræðum og friðaruppbyggingu, allt frá því að aðstoða önnur ríki við að ná saman í milliríkjasamskiptum, til alþjóðlegrar friðargæslu og mannúðar- og þróunaraðstoðar. Raymond Johansen hefur tekið þátt í fjölda friðarferla í starfi sínu sem aðstoðarutanríkisráðherra undanfarin tvö ár en hann hefur stýrt starfsemi Noregs á sviði friðar- og sáttaumleitana. Í fyrirlestrinum ræddi hann um sína reynslu á þessu sviði í Miðausturlöndum, Afríku og Kólumbíu, og varpaði ljósi á þær áskoranir sem Noregur hefur mætt í verkefnum sínum við að finna friðsamlegar lausnir á deilumálum.

Fyrirlesturinn var haldinn í samstarfi við norska sendiráðið á Íslandi og utanríkisráðuneyti Íslands.

 


11. ágúst 2008: Bandarísku forsetakosningarnar og utanríkismálMánudaginn 30. júní hélt dr. Philip H. Gordon erindi í Háskóla Íslands um bandarísku forsetakosningarnar og áhrif þeirra á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Í erindi sínu fjallaði hann um stefnu frambjóðenda repúblikana og demókrata í utanríkismálum, og ræddi hvaða áhrif nýr forseti í Hvíta húsinu mun hafa á bandarísk utanríkismál og alþjóðamál í víðara samhengi.

Dr. Gordon er fræðimaður hjá Brookings Institution í Washington D.C. og og einn af ráðgjöfum Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrataflokksins, í utanríkismálum. Hann var áður yfirmaður Evrópuskrifstofu í Þjóðaöryggisráði Bandaríkjanna í forsetatíð Bill Clinton, fræðimaður hjá International Institute for Strategic Studies í London, og prófessor við School of Advanced International Studies við Johns Hopkins University í Washington D.C. Hann er höfundur fjölmargra greina og bóka um alþjóðamál, og ber nýjasta bók hans titilinn: Winning the Right War: The Path to Security for America and the World.

Erindið var haldið í samstarfi við utanríkisráðuneytið.

 


Mánudaginn 16. júní 2008: Small States – Emerging Power? The Larger Role of Smaller States in the 21st CenturyRáðstefnan var tvískipt. Um morgunin voru fluttir fyrirlestrar fræðimanna og umræður fóru fram í pallborði um erindi og ávinningi Íslands af alþjóðastarfi. Rektorar háskólana tóku virkan þátt í pallborðsumræðum þar sem farið var yfir ávinning háskólafundaraðarinnar og hvaða lærdóm megi draga af slíku samstarfi. Að lokum fjölluðu formenn eða fulltrúar stjórnmálaflokka landsins um sína sýn á hlutverk og erindi Íslands á alþjóðavettvangi. Seinni hluti ráðstefnunnar eftir hádegi fór fram á ensku.

 


 

12. júní 2008: Stefna Frakklands í alþjóðlegum öryggismálumÁ síðustu árum hefur mikil gerjun orðið í öryggis- og varnarmálum Evrópu. Evrópusambandið hefur í auknum mæli gert sig gildandi í þeim málaflokki með samþykkt og framkvæmd evrópsku öryggis- og varnarmálastefnunnar. Lissabon-samningurinn endurspeglar glögglega ásetning Evrópusambandsins um að vera virkari þátttakandi í alþjóðlegum öryggismálum.

Frakkland er eitt þeirra ríkja sem haft hefur forystu um að auka hlut Evrópusambandsins um leið og ríkið hefur tekið virkan þátt í aðgerðum Atlantshafsbandalagsins. Til marks um aukin metnað Frakka er nú til skoðunar að þeir taki á nýjan leik sæti í herstjórn NATO en Frakkland hefur staðið utan þess starfs síðan í lok sjöunda áratugarins. Í sumar taka Frakkar við formennsku í ráðherraráði ESB og á næstunni er væntanleg hvítbók franskra stjórnvalda um öryggis- og varnarmál. Í henni verður lögð fram sýn Frakklands á þær ógnir og hættur sem kunna að steðja að Evrópu og hvernig brugðist skuli við þeim.

Í erindi sínu ræddi Prófessor Heisbourg ræða stefnu Frakklands í öryggis- og varnarmálum og fjallaði um spurningar á borð við hvaða ógnir steðja að Evrópuríkjum í upphafi 21. aldar? Hver er sýn Frakklands á framtíðarhlutverk NATO? Hvert á samstarf ESB og NATO að vera í öryggis- og varnarmálum? Hvernig má styrkja samstarf Evrópu og Bandaríkjanna? Hver er sýn Frakka á framtíðarþróun á norðurslóðum?

Prófessor Heisbourg hefur víðtæka reynslu á sviði öryggismála og tekið virkan þátt í mótun franskrar örygisstefnu síðasta aldarfjórðung. Hann hefur m.a. kennt við Sciences-Po í París og veitt forstöðu rannsóknastofnun um öryggismál í Frakklandi. Hann hefur verið formaður Geneva Centre for Security Policy frá því 1998 og formaður ráðs IISS frá því 2001.

Erindið var haldið í samstarfi við utanríkisráðuneytið.

 


26. maí 2008: Kyn og þróun í Miðausturlöndum og Norður-AfríkuNadereh Chamlou, ráðgjafi um málefni Mið-Austurlanda og Norður-Afríku hjá Alþjóðabankanum, hélt erindi um kyn og þróun í Miðausturlöndum.

Chamlou er fædd og uppalin í Íran og er með menntun frá Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur starfað fyrir Alþjóðabankann í 27 ár og á þeim tíma hefur hún sinnt stjórnunarstöðum í ýmsum deildum bankans sem meðal annars fást við stjórn efnahagsmála, þróun rekstrar innan einkageira, þróun fjármálamarkaða, auðlindamálefni (olía og gas), fjarskiptamál, skipulagsmál, umhverfismál, bókhald og endurskoðun, stjórnarhætti fyrirtækja og þekkingarsamfélagið. Nú starfar hún sem aðalráðgjafi fyrir málefni Mið-Austurlanda og Norður-Afríku þar sem hún leiðir stefnu Alþjóðabankans í málefnum kynja á þessum heimssvæðum ásamt því að veita bankanum ráðgjöf við innri stefnumótun. Chamlou er aðalhöfundur að þremur skýrslum sem bankinn hefur gefið út og nefnast „Stjórnarhættir fyrirtækja: Rammareglur um innleiðingu“, „Kyn og þróun: Konur í opinbera geiranum“ og „Frumkvöðlaumhverfi gagnvart konum í Mið-Austulöndum og Norður-Afríku“.

 


22. maí 2008: Uppskeruhátíð MA-náms í alþjóðasamskiptum
Fimmtudaginn 22. maí kynntu þeir nemendur sem hafa skilað inn
meistararitgerð í alþjóðasamskiptum efni sinna ritgerða. Höfundar
héldu stutta kynningu á ritgerðarefnum sínum, og eftir það gafst tími
til spurninga og umræðna.

Málþingið var haldið í Lögbergi stofu 101, milli kl. 15 og 17 og að því loknu var haldin sameiginleg móttaka með nemum úr MPA námi stjórnmálafræðiskorar.

Dagskrá

Fundarstjóri: Ólafur Þ. Harðarson

– Þróunarsamvinna
o Ólöf Kristjánsdóttir: Einkageirinn á Íslandi og þátttaka hans í þróunarsamvinnu
o Hrefna Sigurjónsdóttir: Smáþjóð í stórræðum: Trúarbrögð og íslensk þróunarsamvinna

– Ísland og alþjóðasamskipti
o Gunnar Þór Bjarnason: Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót? Brottför Bandaríkjahers frá Íslandi: Aðdragandi og viðbrögð.
o (Svava Ólafsdóttir: Norðurlandasamstarfið, fortíð, nútíð og framtíð)
o Brynja Baldursdóttir: Evrópuvitund utanríkisráðherra Íslands frá 2003 til 2007
o Lára Sigurþórsdóttir: Er hægt að loka veginum frá ESB? Möguleikar íslenskra hagsmunaaðila til áhrifa á ESB-gerðir

– Evrópusambandið
o Auður Birna Stefánsdóttir: Knúið á lokaðar dyr? Sameiginleg hælisstefna Evrópusambandsins

– Ísland og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna
o Christian Rebhan: Campaigning for a non-permanent seat in the UN Security Council: Which factors will make the difference for Iceland
o Pia Elizabeth Hansson: Against all odds: small states candidature and membership of the United Nations Security Council

– Kyn eða stjarna – skiptir staða máli?
o Halla Gunnarsdóttir: Kynfast kerfi; rými kvenna í írönsku samfélagi
o Hildur Björk Pálsdóttir: Velgjörðasendiherrar: hlutverk þeirra á alþjóðavettvangi.


 

9. maí 2008: Öryggismál í Evrópu: Er Ísland með? 
Málstofa í tilefni Schuman-dagsins, þar sem fjallað var um tengsl Íslands við Evrópu og öryggis- og varnarstarf þar. Erindi héldu Árni Páll Árnason, þingmaður og Alyson Bailes, gestakennari við stjórnmálafræðiskor HÍ. Pallborðsumræður að erindum loknum, með þátttöku Oliviers Mauvisseau, sendiherra Frakklands á Íslandi, og Lilju Alfreðsdóttur, stjórnmálahagfræðings.Fundarstjóri var Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri 24ra stunda.

 


30. apríl 2008: Þróun stjórnmála í Suður Afríku: Umbrotatímar í ungu lýðveldiSigríður Dúna Kristmundsdóttir, sendiherra Íslands í Suður Afríku, hélt erindi um stjórnmálaþróunina í Suður-Afríku og áhrif hennar á þróun mála í nágrannaríkjunum. Ýmis lýðræðisleg umbrot eiga sér nú stað í Suður-Afríku , m.a. innan Afrísku þjóðarfylkingarinnar, sem hefur setið við stjórnvölinn í Suður-Afríku frá því að aðskilnaðarstjórn hvítra leið undir lok árið 1994.

Eftir fyrirlesturinn gafst fundarmönnum tækifæri til að spyrja Sigríði Dúnu nánar út í efni hans og málefni ríkja í sunnanverðri Afríku.

 


21. apríl 2008: Hernaður í hnattvæddum heimiChristopher Coker, prófessor við London School of Economics hélt erindi sem nefndist: „Risk and Globalization“.

At the height of the Kosovo war (1999) Tony Blair gave his most important foreign policy address in which he claimed that globalisation had a security dimension, and that the use of force should be tailored to securing the world from the dark side of globalization. In recent years a number of sociologists including Ulrich Beck, Zygmunt Bauman and Anthony Giddens have re-defined globalisation in terms of risk. All three writers have talked of the rise of the risk society; others of a (new) risk age. These insights have been applied only recently to international security. In the risk age war has become risk management in all but name. The lecture will discuss two risk management campaigns: Iraq and Afghanistan.cite Clausewitz illustrate how the character of war has changed once again, and with important implications for the rest of us.

 


17. apríl 2008: Breytt ESB án Íslands?Fimmtudaginn 17. apríl hélt Diana Wallis, þingmaður Evrópuþingsins, opinn fyrirlestur um tengsl Íslands og Evrópusambandsins á morgunverðarfundi. Þar ræddi hún hvaða áhrif það hefur á Ísland að standa utan ESB í ljósi nýgerðs sáttmála sambandsins og nýrrar stefnu á sviði Norðurskautsmála. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stendur fyrir fyrirlestrinum.
Diana Wallis hefur setið á Evrópuþinginu frá því árið 1999 og verið varaforseti þingsins frá því í desember 2006. Wallis hefur lengi haft mikinn áhuga á málefnum Norðurlandanna og var kosin forseti fastanefndar Evrópuþingsins gagnvart Íslandi, Noregi og Sviss í september 2004. Þá var hún einnig kosin forseti sameiginlegu EES þingnefndarinnar í september 2004 og þeirri stöðu gegndi hún í þrjú ár.

Wallis skrifaði bókina ,,Forgotten Enlargement: Future EU Relations with Iceland, Switzerland and Norway“ ásamt Stewart Arnold and Ben Idris Jones. Bókin seldist mjög vel og var endurútgefin í október 2004.

Wallis hefur verið fulltrúi Evrópuþingsins á fundum Norðurlandaráðsins, þingmannaráðs landa við eystrasalt (the Baltic Sea Parliamentarians Conference), og fastanefnd þingmanna í Norðurskautslöndum.

 


9. apríl 2008: Stefnur og straumar í vörnum NorðurlandannaLars Wedin frá sænska Varnarmálaskólanum hélt opinn fyrirlestur um stefnur og strauma í vörnum Norðurlandanna. Wedin ræddi meðal annars um öryggis- og varnarstefnu Evrópusambandsins, hlutverk ESB og NATO, samskipti þeirra á milli og afleiðingar fyrir Norðurlöndin.

Lars Wedin þjónaði í sænska sjóhernum (navy commissioner) frá 1969 til ársloka 2004. Frá árinu 1990 hefur hann aðallega starfað við stjórnmál og hernaðarmálefni, meðal annars í sænska utanríkisráðuneytinu og innan Evrópusambandsins. Árin 2003-2005 var hann forstöðumaður hernaðarsögusviðs og prófessor í hernaðarkænsku við sænska Varnarmálaskólann og í dag starfar hann við rannsóknir á sviði hernaðarkænsku við skólann.

Wedin er meðal annars meðlimur International Institute for Strategic Studies, Royal United Services Institute for Defense and Security Studies, Institut de Stratégie Comparée, Royal Swedish Academy of War Sciences, og Royal Swedish Society of Naval Sciences. Þá hefur hann skrifað bækur um hernaðarkænsku og öryggis- og varnarmálastefnu ESB, bæði einn og í samstarfi við aðra fræðimenn, sem hafa verið gefnar út í Svíþjóð, Bretlandi og Frakklandi.


 

18. mars 2008: Þjóðaratkvæðagreiðsla um fríverslunarsamninga á Kosta RíkaAna Cecilia Allen, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans á Kosta Ríka, hélt fyrirlestur um fyrstu þjóðaratkvæðagreiðsluna sem haldin var þar í landi um aðild Kosta Ríka að Fríverslunarsamtökum Mið-Ameríku. Fyrirlesturinn var haldinn í samstarfi við spænskuskor.

 


14. mars 2008: Áhrif minnihlutahópa í bandarískum kosningumAnnar fyrirlesturinn í fyrirlestraröð Alþjóðamálastofnunar og bandaríska sendiráðsins um forsetakosningarnar. Dr. David Lublin frá American University í Washington D.C. hélt fyrirlestur um áhrif minnihlutahópa í bandarískum kosningum. Dr. Lublin hefur unnið að fjölbreyttum rannsóknum á kosningum í Bandaríkjunum, t.d. með áherslur á kyn og minnihlutahópa, endurmótun kjördæma og breytingar á fylgi stóru flokkanna tveggja.

 


12. mars 2008: Norræna víddin í Evrópusambandinu – í nútíð og framtíðMiðvikudaginn 12.mars hélt þróunarmálaráðherra Svíþjóðar, Gunilla Carlsson, fyrirlestur um samvinnu Norðurlandanna innan stofnana Evrópusambandsins, bæði framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins. Einnig fjallaði hún um mikilvægi samstarfs landa og landssvæða til að ná fram markmiðum sínum. Fyrirlesturinn fv fram í stofu 104 á Háskólatorgi og var haldinn á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Evrópusamtakanna. Fundarstjórn var í höndum Alyson Bailes, stjórnarkonu Alþjóðamálastofnunar.

Gunilla Carlsson hefur mikla reynslu af starfi Evrópusambandsins. Hún sat á Evrópuþinginu árin 1995-2002, þar sem hún var meðal annars formaður þingflokks Moderat-flokksins frá árinu 1999. Á árunum 2004-2006 starfaði hún sem varaformaður European People´s Party í Evrópuþinginu. Frá árinu 2002 sat hún jafnframt á sænska þinginu og var þar meðal annars í nefndum um Evrópumál, utanríkismál og menntun. Árið 2006 tók hún við starfi þróunarmálaráðherra Svíþjóðar og hefur gegnt þeirri stöðu síðan.

 


29. febrúar 2008: Noregur og Rússland – nágrannar í norðriKjetil Skogrand frá Varnamálastofnun Noregs hélt fyrirlestur um tvíhliða samskipti Noregs og Rússlands í stofu 201 í Árnagarði. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir fyrirlestrinum í samstarfi við utanríkisráðuneytið.

Rússland hefur undanfarið reynt að festa sig í sessi sem stórveldi í hinum margpóla heimi og telur Norðurslóðir mikilvægar í því tilliti. Mikið magn olíu og gasauðlinda á svæðinu er að öllum líkindum innan lögsögu Rússlands, sem notar svæðið sem sönnun fyrir endurnýjuðu hernaðarvaldi sínu. Í samsvari við stefnu sitjandi ríkisstjórnar um Norðurslóðir hefur Noregur reynt að virkja Rússland á jákvæðan hátt á sem flestum sviðum. Sú vinna hefur leitt til þess að samskipti milli þessara tveggja nágranna eru betri en nokkru sinni. Þó eru ýmis mál óleyst. Skogrand spyr hvort Noregi takist að viðhalda þeim jákvæðu samskiptum sem nú eru til staðar á sama tíma og samskipti Rússlands og annarra vestrænna ríkja eru sífellt að verða stirðari?

Kjetil Skogrand er deildarstjóri öryggisstefnusviðs Varnarmálastofnunar Noregs. Hann lauk doktorsprófi í sögu frá Oslóar-háskóla, starfaði að rannsóknum hjá Alþjóðamálastofnun Noregs 1994-1995 og sem aðstoðarprófessor við sagnfræðideild Oslóar-háskóla árið 1995. Því næst tók hann við stöðu framkvæmdastjóra World Congress of Historical Sciences í tvö ár áður en hann hóf störf við Varnarmálastofnun Noregs árið 1997. Árin 2005-2006 var hann ráðuneytisstjóri í norska utanríkisráðuneytinu. Skogrand hefur skrifað fjölda greina um norska utanríkis- og varnarmálastefnu, NATO, afvopnun og nútímasögu. Nýjasta verk hans er Norsk forsvarshistorie, bind 4, Alliert I krig og fred, 1940-1970 [The History of Norwegian Defence, vol. 4, Allied in War and Peace, 1940-1970].

 


21. febrúar 2008: Dagur ungra fræðimanna í Evrópumálum II

Alþjóðamálastofnun stóð í annað sinn fyrir Degi ungra fræðimanna í Evrópumálum, þar sem ungum og/eða nýútskrifuðum fræðimönnum gefst tækifæri til að kynna rannsóknarverkefni sín á sviði Evrópufræða. Í ár var bryddað upp á þeirri nýjung að hafa vinnustofu fyrr um daginn, þar sem kynntir voru rannsóknasjóðir og atvinnumöguleikar á evrópskum vettvangi.

Dagskráin var svohljóðandi:

10:00-10:30 Capacent
Gerð ferilskráa og atvinnuumsókna
Sigurður Jónas Eysteinsson, ráðgjafi

10:30-11 Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins
Námsmöguleikar í Evrópu
Ásta María Sverrisdóttir, verkefnisstjóri

11-11:30 Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís)
Rannsóknastarf í Evrópu
Elísabet M. Andrésdóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs

– Milli 11:30 og 12:00 munu ráðstefnugestir geta leitað ráða og/ eða fengið svör við fyrirspurnum hjá fyrirlesurum vinnustofunnar.

12:00-13:00 Boðið upp á hádegisverð

Eftir hádegi – Ungir fræðimenn kynna rannsóknarverkefni sín á sviði Evrópufræða

13:00-13:30 Jóhanna Jónsdóttir – Getur ESB tryggt að stefnumál þess séu framkvæmd á Íslandi? Í fyrirlestrinum var aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að löggjöf ESB skoðuð og greint frá þáttum sem hafa áhrif á viðbrögð íslenskra stjórnvalda við kröfum ESB. Skoðað var hvort ESB geti knúið fram skilyrðislausa hlýðni íslenskra stjórnvalda, jafnvel þegar slíkt gengi gegn vilja þeirra. Gert er ráð fyrir því að ESB geti í flestum tilfellum tryggt innleiðingu löggjafar sinnar en aftur á móti eru aðferðir til að stuðla að réttri framkvæmd mun veikari.

13:30-14:00 Lára Sigurþórsdóttir – Veruleiki íslenskra hagsmunaaðila gagnvart ESB-gerðum. Hagsmunaaðilar hafa verið að gera sér betur ljóst á síðustu árum nauðsyn þess að fylgjast með samningu reglugerða og tilskipana frá ESB, vegna áhrifa þeirra á íslenskt laga og reglugerða umhverfi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um styrkleika og veikleika í lobbyisma íslenskra hagsmunaaðila gagnvart ESB-gerðum og íslensku stjórnsýslunni.

14:00-14:30 Brynja Baldursdóttir – Evrópuvitund utanríkisráðherra Íslands frá 2003 til 2007 Í fyrirlestrinum var fjallað um Evrópuvitund utanríkisráðherra Íslands frá 2003 til 2007. Á tímabilinu hafa fimm utanríkisráðherrar gegnt embættinu og koma þeir jafnframt úr þremur stjórnmálaflokkum. Meðal þess sem fjallað verður um er hvað felst í hugtakinu Evrópuvitund og hvort Evrópuvitund ráðherranna tengist aðallega þeim stjórnmálastefnum sem þeir aðhyllast eða hvort telja megi að Evrópuvitund þeirra sé óháð stjórnmálastefnum og því einstaklingsbundin.

14:30-15:00 Magnús Árni Magnússon – Eyjar á jaðrinum: Ísland og Malta í Evrópusamstarfi. Í fyrirlestrinum var fjallað um nálgun Möltu að Evrópusamrunanum og aðdraganda þess að landið gekk í Evrópusambandið. Það verður síðan borið saman við atburðarrásina í þessum efnum hér á Íslandi og að lokum velt upp þeim kostum sem Íslendingar standa frammi fyrir í þessum efnum.

15:00 Móttaka

 


6. febrúar 2008: Ógnanir og tækifæri í hánorðri – sýn frá NoregiGeir Westgård úr norska utanríkisráðuneytinu hélt fyrirlestur á vegum Alþjóðamálastofnunar og norska sendiráðsins á Íslandi.

Geir Westgaard er sérlegur ráðgjafi og yfirmaður „High North“ verkefnisins í utanríkisráðuneyti Noregs. Hann leiddi samstarf ýmissa stofnana sem leiddi til mótunar stefnu Noregs í hánorðri og lögð var fram 2006. Hann sér um stefnumótun og samhæfingu á þessu sviði. Westgård hefur starfað í sendiráðum Noregs í Rússlandi, Eistlandi og Bandaríkjunum, og sem alþjóðamálaráðgjafi á skrifstofu forsætisráðherra.
Westgård hefur starfað sem aðstoðarforstjóri Statoil ASA og Business for Social Responsibility í San Francisco. Hann er með BA-gráðu frá Háskólanum Osló og MA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Columbia-háskólanum í New York. Hann sinnti einnig rannsóknum við Weatherhead Center for International Affairs árið 1997-1998.

Glærur frá fyrirlestri Geirs Westgårds.


29. janúar 2008: Leiðin í Hvíta húsið: Innsýn í baráttuna um forsetaembætti BandaríkjannaÞriðjudaginn 29. janúar opnaði sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Carol Van Voorst, fyrirlestraröð um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir fyrirlestraröðinni í samstarfi við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Fyrsta fyrirlesturinn hélt Dr. James A. Thurber prófessor og forstöðumaður Center for Congressional and Presidential Studies við American University í Washington, DC. Dr. Thurber fjallaði um baráttu frambjóðenda um tilnefningu og afleiðingar niðurstöðunnar á stefnu og stjórn Bandaríkjanna. Kosningabaráttan 2008 hófst snemma, var mjög kostnaðarsöm, fjöldi frambjóðenda fleiri en nokkru sinni fyrr og baráttan harðari en í yfir 50 ár.

Dr. Thurber lagði áherslu á nokkur af þeim atriðum sem deilt er um í kosningabaráttunni. Hverjar eru nýju reglurnar sem settar hafa verið fram varðandi útnefningu á frambjóðendum? Hverjir eru frambjóðendurnir? Hverjar eru áherslur þeirra og aðferðir? Hverjir hafa kosið og hvaða stjórnmálalegu og félagslegu öfl hafa haft áhrif á kosningabaráttuna og niðurstöður? Hvað vísbendingar gefa þær niðurstöður sem komnar eru? Hvaða viðhorf hafa kjósendur til frambjóðenda repúblikanaflokksins annars vegar og demókrataflokksins hins vegar? Hvaða vægi hafa efnahagsmál, stríðið í Írak, heilbrigðismál og önnur mál í kosningabaráttunni? Hvað er mikilvægt þegar kemur að samkeppninni um útnefningu? Hvaða áhrif mun kosningabaráttan hafa á stefnu og stjórnun næsta forseta Bandaríkjanna?

 


22. janúar 2008: Heim á leið: Aðskilnaður filippínskra farandkvenna í tíma og rúmiRhacel Parrenas, prófessor við University of California í Davis, hélt erindi undir yfirskriftinni: „Homeward Bound: The Temporal and Spatial Segregation of Migrant Filipina Hostesses“ í Odda 101 þriðjudaginn 22. janúar. Dr. Parrenas er einn fremsti fræðimaður heims á sviði hnattvæðingar, farandverkafólks og kyns. Í erindinu fjallaði Parrenas sérstaklega um filippínskar konur sem starfa á skemmtistöðum í Tókíó, en hún vann vettvangsrannsókn þar árið 2007.

Alþjóðamálastofnun, Rannsóknasetur um Innflytjendur og fjölmenningu, og Mannfræðistofnun Háskóla Íslands stóðu saman að fyrirlestrinum.

 


17. janúar 2008: Drepsóttir og samfélagsöryggi. Málfundur á vegum Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands

Fólk í dag þarf ekki einungis að búast við stríði og átökum, heldur einnig fjölbreytilegum ógnum við líf og heilsu. Þar á meðal eru margar far- og drepsóttir, auk mengunar af völdum ýmissa lífefna. Á þessum málfundi var kynnt hvaðan þessar ógnir steðja að, bæði af náttúrunnar hendi, af slysni, eða meðvituðum aðgerðum hryðjuverka- og glæpamanna. Ýmsar lausnir voru ræddar með tilliti til reynslu Íslands og viðbúnaðar á þessum mikilvæga vettvangi.

Á dagskrá voru m.a.:

– Dr Peter Clevestig, Stockholm International Peace Research Institute (SIPRI): ‘Biosecurity and Biosafety’ (kynnir m.a. verkefni sem SIPRI vinnur nú fyrir SEMA, Swedish emergency management authorities)

– Viðbrögð íslenskra sérfræðinga í pallborði
Brynjólfur Mogensen, dósent við læknadeild HÍ
Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar
Haraldur Briem, dósent við læknadeild HÍ og sóttvarnalæknir
Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu

– Dr Haraldur Briem (sóttvarnalæknir Landlæknisembættisins): Viðbúnaður Íslands vegna heimsfaraldurs inflúensu

Fundarstjóri var Alyson JK Bailes, gestakennari við stjórnmálafræðiskor.