Styrkir til rannsókna á sviði Evrópufræða afhentir

 

 

Styrkir til lokaverkefna meistaranema í Evrópufræðum voru afhentir í húsakynnum Samtaka iðnaðarins í gær. Tvær ungar konur hlutu styrk að þessu sinni; Dagbjört Hákonardóttir fyrir verkefni sitt um hvaða úrræði aðildarríki innan Evrópusambandsins njóta vegna sérstakra aðstæðna og Jóhanna A. Logadóttir fyrir verkefni sitt um áhrif reglugerða Evrópusambandsins á íslensk sveitarfélög.

Markmið verkefnisins er að gefa nemendum á meistarastigi tækifæri til að vinna að rannsóknum sem í senn standast ýtrustu fræðilegu kröfur og beina sjónum að hagnýtum og knýjandi spurningum sem íslenskt atvinnulíf og samfélag varðar um.

Styrkupphæðin miðast við úthlutun Nýsköpunarsjóðs námsmanna til þriggja mánaða, en það eru um það bil 390 þúsund krónur. Einungis nemendur sem eru að hefja vinnu við lokaverkefni á meistarastigi koma til greina sem styrkþegar enda sé rannsóknarefnið í raun lokaverkefni nemenda, að hluta til eða í heild sinni. Við úthlutun styrksins er horft til fræðilegs og hagnýts gildis verkefnisins, skýrleika rannsóknaráætlunarinnar og greinargerð um það hvernig verkefnið muni nýtast íslensku atvinnulífi og samfélagi. Styrkirnir veita þannig nemendum tækifæri til að tengja rannsóknarverkefni sín atvinnulífinu þannig að báðir aðilar hagnist.