Styrkir til rannsókna á sviði Evrópufræða – frestur framlengdur til 15. febrúar

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Samtök iðnaðarins veita saman styrk vegna rannsókna meistaranema í Evrópufræðum. Styrkupphæð miðast við úthlutun Nýsköpunarsjóðs námsmanna til þriggja mánaða (u.þ.b. 390 þúsund). Einungis nemendur sem eru að hefja vinnu við lokaverkefni á meistarastigi koma til greina sem styrkþegar enda sé rannsóknarefnið í raun lokaverkefni nemenda, að hluta til eða í heild sinni. Við úthlutun styrksins er horft til fræðilegs og hagnýts gildis verkefnisins, skýrleika rannsóknaráætlunarinnar og greinagerðar um það hvernig verkefnið muni nýtast íslensku atvinnulífi og samfélagi.

Veittir verða allt að þrír styrkir en styrkveitendur áskilja sér rétt til að veita færri styrki.Umsóknarfrestur fyrir árið 2010 er til 15. febrúar 2010.

Umsóknareyðublað um styrk vegna rannsóknaverkefnis í Evrópufræðum

Úthlutunarreglur verkefnabanka í Evrópufræðum

 

Möguleg rannsóknarverkefni

Hugmyndin að baki styrknum er að byggja upp sérstakan verkefnabanka í Evrópufræðum. Með það að markmiði vilja Alþjóðamálastofnun og Samtök iðnaðarins benda nemendum á eftirfarandi sex rannsóknarsvið. Lögð er áhersla á að nemendur þurfa ekki að einskorða sig við þessi rannsóknasvið og eru hvattir til að leggja fram sínar eigin verkefnahugmyndir. Allar umsóknir eru teknar til greina.

1. Hvað ræður afstöðu íslensku þjóðarinnar til evrunnar
Kannanir sýna að meirihluti Íslendinga telur að það hafi jákvæð áhrif á eigin efnahag, atvinnurekstur og efnahag þjóðarinnar að taka upp evru í stað íslensku krónunnar. Þrátt fyrir það er meirihluti þjóðarinnar á móti því að gera það. Hvað annað en efnahagsleg rök ráða þessari afstöðu. Samanburður við aðrar þjóðir, t.d. Danmörku, þar sem þjóðin hafnaði Evru en dönsk stjórnvöld sömdu um að danska krónan fylgdi evrunni. Hvaða rök lágu þar að baki?

2. Aðildarsamningur Möltu við ESB
Hvað fékk Malta í gegn í sínum aðildarviðræðum við ESB og með hvaða rökum? Malta náði í gegn í samningum sínum ýmsum sérákvæðum og undanþágum sem gengur þvert á fullyrðingar margra embættismanna og sérfræðinga um að allir þyrftu að sitja við sama borð.

3. Evra eða ekki evra
Ýmis konar fræðingar, hagfræðingar og stjórnmálamenn fullyrða sitt á hvað um það hvort hægt sé eða ekki að taka upp evruna án aðildar að ESB. Hvaða þarf til? Hvaða pólitíska velvilja þarf til þess að Ísland gæti tekið upp evru?

4. Samrunaferli íslenska hagkerfisins við hið evrópska
Áður en evran var formlega tekin upp í Evrópu átti sér stað mikið aðlögunarferli í efnahagslífi Evrópu. Þetta ferli var formlegt eins og kveðið var á um í Maastricht-sáttmálanum en einnig fóru ýmis önnur atriði að „renna saman“. Verðlag tók að renna saman og verða líkara í þessum löndum sem og vextir. Nú er svo komið að hægt er að tala um einn markað á mörgum sviðum efnahagsmála. Hvernig yrði þessu ferli háttað ef Ísland myndi ákveða að ganga í EMU og/eða ESB?

5. Fórnarkostnaður sjálfstæðrar peningamálastefnu
Upptaka evru hefur í för með sér framsal á peningamálastefnu. Seðlabankinn myndi ekki lengur hafa vald til að ákvarða vexti og hafa þannig áhrif á efnahagslífið. Þetta þýddi að auknar byrðar væru lagðar á ríkisfjármálastefnu. Beiting ríkisfjármála væri í raun eina hagstjórnartækið sem væri á okkar valdi. Hver væri fórnarkostnaður sjálfstæðrar peningamálastefnu á Íslandi?

6. Sveigjanleiki á vinnumarkaði
Ein af forsendum þess að hagkvæmt sé að nota sömu mynt á tveimur svæðum er að vinnumarkaðurinn sé sveigjanlegur og að nafnlaun geti lækkað þegar kreppir að í efnhagslífinu. Rannsóknir benda til að íslenski vinnumarkaðurinn sé einn sá sveigjanlegasti í Evrópu. Samt hafa fyrri rannsóknir bent til þess að hann sé ekki nógu sveigjanlegur til að það henti okkur að vera í myntbandalagi. Hvaða sveigjanleika þarf á íslenska vinnumarkaðnum til myntbandalag sé heppilegur kostur?

Athugið að hér er ekki um tæmandi talningu að ræða, öll verkefni sem tengjast Evrópufræðum verða metin en áhersla er lögð á tengingu við atvinnulífið, í víðum skilningi.