Styrkir til rannsókna á sviði öryggis- og varnarmála

Varnarmálastofnun Íslands í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands auglýsir námsstyrki í boði til lokaverkefna meistaranema við Háskóla Íslands á sviði öryggis- og varnarmála. Nemendur eiga að verja þriggja mánaða vinnu til verksins eða sem samsvarar 30 ECTS eininga rannsóknarvinnu. Heildarupphæð styrks er 425.000 krónur. Að auki mun Varnarmálastofnun veita meistaranemum vinnuaðstöðu og aðgang að viðeigandi rannsóknargögnum. Nánari lýsing á mögulegum verkefnum er hér fyrir neðan en þess skal getið að nemendur geta líka lagt fram eigin tillögur að lokaverkefnum. Vísindalegar kröfur munu í einu og öllu fara eftir reglum Háskóla Íslands. Umsóknarfrestur fyrir fyrstu úthlutun var til 15. mars 2009.

Verkefni 1 – Kína

Greining á stjórnmálalegri, efnahagslegri og hernaðarlegri þróun í Kína síðustu 10 ár með tilliti til sóknar Kína á alþjóðlega markaði og ásælni eftir pólitískum og hernaðarlegum ítökum í öðrum löndum. Horfa skal sérstaklega á hvernig Kínverjar hafa byggt upp her sinn, einkum flotann og reyna að spá fyrir um hvernig þeir muni beita honum utan heimahafa næstu árin. Sérstaklega skal horfa til möguleika þess að Kínverjar ætli sér þátttöku í kapphlaupi um auðlindir norðurpólssvæðanna samfara opnun NA siglingaleiðarinnar (séð frá Evrópu) og hvernig kínverskur útflutningsiðnaður muni hugsanlega nýta sér slíka opnun. Þá skal líta til samskipta Kína og Rússlands, þróun mála við landamærahéruðin, þ.e hernaðaruppbyggingu og búsetu- og atvinnuþróun handan landamæra og spá fyrir um líkur á átökum þjóðanna á millum.

Verkefni 2 – Afríka

Greining á stjórnmálalegri, efnahagslegri og hernaðarlegri þróun í þeim ríkjum Afríku sem Ísland á í þróunarsamstarfi við, þ.e. Malaví, Mósambik, Úganda og Namibíu. Leitast skal við að greina og spá fyrir um hugsanlega stöðu mála á næstu 5-10 árum. Skoða skal sérstaklega hugsanlegar ógnanir og hættur sem stafa kunna að starfsemi vestrænna hjálparsamtaka þ.m.t. þróunarsamvinnu Íslands í viðkomandi ríkjum, s.s. skipulagðri glæpastarfsemi og starfsemi hryðjuverkahópa. Skoða skal áhrif átaka í nágrannaríkjum á starfsemi vestrænna hjálparsamtaka í viðkomandi löndum.

Verkefni 3 – Norðurslóðir

Þróun öryggismála á norðurslóðum. Greina skal afleiðingar náttúrufarsbreytinga á norðurslóðum, bráðnun íss og opnu siglingaleiða. Hvaða áhrif hafa þær breytingar og opnun aðgangs að nýjum auðlindum á þróun öryggismála? Hver eru pólitísk og hernaðarleg viðbrögð ríkja við pólsvæðin við þessum nýja veruleika? Hvað áhrif hefur það á viðbrögð ríkja fjarri pólssvæðum við vestanvert Kyrrahaf, Kína, Formósa, Japan og Kóreu að ný siglingaleið opnist til Evrópu og austurstrandar Norður Ameríku? Hvaða áhrif hefur þessi þróun á öryggisstöðu Íslands? Leitast skal við að sjá fyrir sér þróunina næstu 10-20 ár.