Ný bók: Inni eða úti? Aðildarviðræður við ESB

Boðað hefur verið að ný ríkisstjórn muni stíga það sögulega skref að sækja fyrir Íslands hönd um aðild að Evrópusambandinu. Bók um það hvernig aðildarviðræður við Evrópusambandið fara fram kemur út mánudaginn 11. maí, í ritröð Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Rannsóknaseturs um smáríki. Bókin verður kynnt á málfundi sem fer fram í Odda 101 í hádeginu á mánudag. Þar mun Magnús Árni Magnússon, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, flytja erindi þar sem hann leggur út frá efni bókarinnar. Höfundurinn, Auðunn Arnórsson, mun segja nokkur orð. Umræðum stýrir Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins.

Titill bókarinnar er: Inni eða úti? Aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í bókinni eru teknar saman upplýsingar um það ferli sem fer í gang er ríki sækir um aðild að Evrópusambandinu og um lærdóma sem draga má af fyrri stækkunarlotum sambandsins. Tilgangurinn er að gera íslenskum lesendum kleift að glöggva sig á þessu með aðgengilegum hætti, en einmitt vegna þess hve mörg lönd hafa samið um inngöngu í sambandið á síðustu árum liggur ferli aðildarviðræðna mjög skýrt fyrir. Ísland er síðan mátað inn í þetta ferli; fljótt er farið yfir sögu á þeim sviðum þar sem Ísland telst þegar hafa tekið að mestu eða fullu upp löggjöf ESB, en þetta á við um u.þ.b. tvo þriðju af lagasafni ESB. Ítarlegar er farið í þá málefnakafla ESB-samstarfsins sem Ísland hefur sem EES-ríki staðið utan við og vænta má að snúnast yrði að semja um. Þar vega þyngst sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, Efnahags- og myntbandalagið og byggða- og þróunarsjóðakerfi ESB. Samningsstaða Íslands og væntanleg samningsmarkmið eru kortlögð í bókinni, meðal annars með tilliti til þess sem önnur ríki hafa náð fram í aðildarviðræðum.

Höfundurinn, Auðunn Arnórsson, hefur bæði sem stjórnmálafræðingur og blaðamaður sérhæft sig í Evrópumálum og miðlun þekkingar um þau.

Útgefandi er Háskólaútgáfan í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Bókin er 140 bls.