Vefútgáfa: Nýtt norrænt samstarf

Þann 27. maí sl. stóð Alþjóðamálastofnun fyrir opnum fyrirlestri Thorvalds Stoltenberg, fyrrum utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs. Stoltenberg kynnti þar efni nýútkominnar skýrslu sinnar um norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála sem hann vann fyrir utanríkisráðherra Norðurlandanna. Í henni er meðal annars að finna tillögur að nánara samstarfi á sviði öryggismála og þá sérstaklega með tilliti til þeirra breytinga sem eru að verða á Norðurslóðum, sem og leiðir til aukins samstarfs í friðargæslu víða um heim.

Ein af tillögum Stoltenberg er skipulagning sameiginlegs þjálfunarnámskeiðs fyrir öll Norðurlöndin fimm, þar sem bæði borgaralegir og hernaðarlegir sérfræðingar kæmu saman til að ræða áskoranir og lausnir á sviði öryggis- og varnarmála. Alþjóðamálastofnun gefur nú út ítarlega skýrslu um þá tillögu, eftir Alyson Bailes, gestakennara við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Í skýrslunni er farið yfir röksemdir tillögunnar og svipuð námskeið sem hafa verið haldin á Norðurlöndunum eru skoðuð. Þá eru ræddar hugsanlegar leiðir til að koma tillögum Stoltenberg í framkvæmd, bæði fyrir öll Norðurlöndin og innan Íslands. Rannsóknin var styrkt af sænsku Alþjóðamálastofnuninni (UI) og sænska varnarmálaskólanum (SNDC), sem hluti af rannsóknarritröð um samfélagslegt öryggi á Norðurslóðum.

Hér má finna skýrslu Alyson Bailes sem ber heitið: Societal Security in Norden: Building Cross-Sectoral Communities