Alþjóðlegur sumarskóli Rannsóknarseturs um smáríki

Um fjórir tugir nemenda og kennara frá 16 löndum taka þátt í
smáríkjaskóla Rannsóknaseturs um smáríki við Háskóla Íslands.
Heimsþekktir erlendir fræðimenn á sviði smáríkjarannsókna og
Evrópufræða sinna kennslu á námskeiðinu, sem er fjármagnað af
ERASMUS-styrk frá Evrópusambandinu. Þetta er í þriðja sinn sem
Smáríkjasetrið hlýtur þennan þriggja ára styrk til að reka sumarskóla
um smáríki og Evrópusamrunann. Þetta er fyrsta árið af þremur þar sem
umfjöllunarefni sumarskólans eru smáríki og öryggismál. Skólinn, sem er
starfræktur frá 22. júní til 4. júlí, er haldinn í samstarfi við
fjórtán erlenda háskóla og er opinn bæði fyrir innlenda og erlenda
nemendur á B.A. og M.A. stigi.

Sumarskólinn er einstakt tækifæri fyrir nemendur til að sækja sér
þekkingu til bestu fræðimanna heims á þessu sviði. Meðal kennara í
sumar verða Alyson Bailes, gestakennari við stjórnmálafræðideild
Háskóla Íslands, Clive Archer frá Manchester Metropolitan háskólanum,
Richard Griffiths frá Háskólanum í Leiden í Hollandi, Edward
Moxon-Browne, Jean Monnet prófessor við háskólann í Limerick á Írlandi,
Jean-Marc Rickli frá Genf, Archie Simpson frá St. Andrews háskóla á
Bretlandi, Annica Kronsell frá háskólanum í Lundi, Lino Briguglio,
forstöðumaður Islands and Small States Institute á Möltu og Mindaugas
Jurkynas frá háskólanum í Tallinn.

Sumarskólinn er þegar orðinn vel þekktur meðal háskólasamfélagsins í
Evrópu sem marka má af því að á hverju ári sækja mun fleiri um inngöngu
en pláss er fyrir, bæði kennarar og nemendur. Auk þess að sitja
fyrirlestra sækja nemendur ýmis embætti, samtök og stofnanir heim, m.a.
forseta Íslands, utanríkisráðuneytið, Alþingi og Varnarmálastofnun.