Mannréttindi og lýðræði

Í tilefni af 60 ára afmæli Evrópuráðsins og 50 ára afmæli Mannréttindadómstóls Evrópu munu Alþingi, Alþjóðamálastofnun og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og utanríkisráðuneyti Íslands standa fyrir ráðstefnu þar sem ljósi verður varpað á stöðu mannréttinda, lýðræðis og þróun réttarríkisins í Evrópu og leiðandi hlutverk Evrópuráðsins á því sviði.

Ráðstefnan er haldin í sal 132 í Öskju, föstudaginn 16. október frá kl. 13:30 til 16:45.

Dagskrá ráðstefnunnar fylgir hér fyrir neðan. Sérstök athygli er vakin á erindi Davíðs Þórs Björgvinssonar, dómara Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu, en hann mun fjalla um stöðu dómstólsins og framlag hans til mannréttindaverndar í Evrópu. Hann mun einnig fjalla um tilvistarkreppu dómstólsins. Kærum til hans fjölgar stöðugt og eru þær nú í kringum 50 þúsund árlega en yfir 100 þúsund kærumál bíða afgreiðslu. Meirihluti þessara mála er um endurtekin álitaefni gegn örfáum aðildarríkjum. Það er mikilvægasta verkefni Evrópuráðsins á hálfrar aldar afmæli dómstólsins að finna úrræði til þess að auka skilvirkni dómstólsins. Fjölmörg önnur áhugaverð erindi verða flutt á ráðstefnunni auk sem dómsmála- og mannréttindaráðherra, Ragna Árnadóttir, opnar ráðstefnuna með ávarpi um Mannréttindasáttmála Evrópu.