Utanríkisstefna Rússlands og samskipti NATO og Rússlands

Dr.
Tatyana Parkhalina, forstöðumaður Rannsóknaseturs um öryggismál Evrópu
í Moskvu, flytur fyrirlestur á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og
alþjóðamál, Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands,
mánudaginn 18. janúar kl. 12 til 13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns
Íslands. Hún mun fjalla um utanríkisstefnu Rússlands og samskiptin við
NATO sérstaklega. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og ber heitið
"Russian Foreign Policy and NATO-Russia Relations".

Dr. Tatyana
Parkhalina er rússneskur sérfræðingur um evrópsk öryggismál, samskipti
NATO og Rússlands og utanríkisstefnu Rússa. Hún er með doktorspróf frá
Alþjóðasamskiptastofnuninni í Moskvu (Moscow Institute of International
Relations) og skrifaði um samskipti Frakka og Bandaríkjamanna á
Miðjarðarhafssvæðinu. Starfsferil sinn hóf hún í Æðri menntastofnun
stjórnarerindreka og síðan í Rússnesku vísindaakademíunni. Hún var
yfirmaður Vestur-Evrópudeildar félagsvísindastofnunar akademíunnar og
er nú varaforstöðumaður stofnunarinnar.

Dr. Parkhalina hefur
ritað fjölda bóka og greina um ofangreind efni. Árið 1998 beitti hún
sér fyrir því að komið væri á fót gagnamiðstöð um málefni NATO í Moskvu
sem varð árið 2001 að „Miðstöð um evrópskt öryggi“ undir stjórn hennar.
Dr. Parkhalina er í stjórn Rússlandsdeildar alþjóðlegu
Pugwash-hreyfingarinnar og árið 2004 varð hún varaforseti Samtaka
Rússlands um samstarf Evrópu og Atlantshafsríkja. Frá árinu 2006 til
2009 sat hún í framkvæmdastjórn Alþjóðasamtaka stjórnmálafræðinga
(IPSA). Hún er aðalritstjóri tímaritsins European Security.

Fundarstjóri: Björn Bjarnason, formaður Samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál

Allir velkomnir.