Reynsla Svíþjóðar: Frá EES til ESB

Ulf Dinkelspiel, fyrrverandi Evrópumálaráðherra og aðalsamningamaður
Svíþjóðar í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, heldur fyrirlestur á
vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sænska sendiráðsins,
þriðjudaginn 19. janúar kl. 12 í Norræna húsinu. Ulf Dinkelspiel er
höfundur bókarinnar, Den motvillige europén, sem kom út á síðasta ári
en í henni gerir hann grein fyrir ferli sínum og einstakri reynslu af
Evrópumálum. Að erindinu loknu fjallar Birgir Hermannsson, aðjúnkt í
stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, stuttlega um bók Dinkelspiels,
en Birgir lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Stokkhólmsháskóla
2005 og þekkir því vel til sænskra stjórnmála. Fundarstjóri er Bogi Ágústsson, fréttamaður. 

Ulf Dinkelspiel hefur gegnt lykilhlutverki í samningamálum Svíþjóðar á
löngum ferli sínum sem embættis- og stjórnmálamaður. Reynsla hans í
þeim efnum er meiri en nokkur annar getur státað af þarlendis og
jafnvel má segja að hún sé einstök í Evrópu. Hann vann að
samningaviðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma en þá var
hann ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneyti Svíþjóðar. Dinkelspiel
sinnti síðan embætti Evrópumálaráðherra frá árinu 1990 til 1993.
Aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið stóðu síðan yfir frá 1992 til
1994 en Dinkelspiel var aðalsamningamaður Svíþjóðar enda
Evrópumálaráðherra og síðar einnig viðskiptaráðherra á þessum tíma. Þá
var hann í forsvari fyrir Evrópuhreyfinguna í landinu þegar að
þjóðaratkvæðagreiðslunni kom haustið 1994. Dinkelspiel hefur að auki
nær fjögurra áratuga reynslu í sænsku utanríkisþjónustunni.

Málstofan fer fram á ensku. Allir velkomnir.