Viðburðir vorönn 2010

13. apríl: Leið Eistlands inn í Evrópusambandið: frá aðildarumsókn til aðildar

Marten Kokk, frá eistneska utanríkisráðuneytinu hélt erindi um reynslu Eislands af aðildarferlinu að Evrópusambandinu.

8. apríl: Hvað er að gerast í Úkraínu?

Arkady Moshes, rússneskur fræðimaður við Alþjóðamálastofnun Finnlands, hélt erindi um ástandið í Úkraínu í kjölfar nýafstaðinna kosninga.

23. mars: Timo Summa, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi

Dr.Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi flutti vel sótt erindi um
stækkunarstefnu Evrópusambandsins og aðildarferli Íslands á vegum
Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Dr. Summa hefur starfað innan Evrópusambandsins síðan 1995 og hefur verið framkvæmdastjóri á sviði stækkunarmála síðan 2005. Starfsferil sinn hóf hann í fræðasamfélaginu en hann er með doktorspróf í hagfræði. Á árunum 2007 til 2008 var hann við fræðastörf hjá Weatherhead Center of International Affairs við Harvard háskóla og gaf í framhaldinu út skýrsluna The European Union´s 5th Enlargement – Lessons Learned. Hann hefur gefið út fjöldan allan af fræðigreinum og bókum. Dr. Summa var settur í embætti sendiherra ESB á Íslandi í janúar síðast liðnum.

17. mars: Umhverfis- og öryggismál á Norðurslóðum

Lassi Heininen frá háskólanum í Rovianemi hélt erindi á vegum
Alþjóðamálastofnunar og the English Speaking Union. Heininen fjallaði um
umhverfis- og öryggismál á Norðurslóðum.

Rannsóknarsvið Heininen spannar víðtæk málefni í alþjóðastjórnmálum, öryggi, samspili stjórnmála og landafræði auk evrópskra-, rússneskra- og norrænna fræða. Hann er stjórnarformaður International Steering Committee for the Northern Research Forum og gegnir stöðu aðjúnkts hjá Frost Center for Canadian Studies í Trent háskóla í Kananda og Landafræðideild Háskólans í Oulu í Finnlandi. Hann hefur verið reglulegur gestur hér á landi sem gestakennari við Háskóla Íslands.

18. febrúar: Diana Wallis, Evrópuþingmaður og varaforseti Evrópuþingsins

Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, hélt erindi á vegum
Alþjóðamálastofnunnar. Wallis fjallaði um Icesave, Ísland og
Evrópusambandið.

Diana Wallis hefur setið á Evrópuþinginu frá því árið 1999 og verið varaforseti þingsins frá því í desember 2006. Wallis hefur lengi haft mikinn áhuga á málefnum Norðurlandanna og var kosin forseti fastanefndar Evrópuþingsins gagnvart Íslandi, Noregi og Sviss í
september 2004. Þá var hún einnig kosin forseti sameiginlegu EES
þingnefndarinnar í september 2004 og þeirri stöðu gegndi hún í þrjú ár.

Wallis skrifaði bókina ,,Forgotten Enlargement: Future EU Relations with
Iceland, Switzerland and Norway“ ásamt Stewart Arnold and Ben Idris
Jones. Bókin seldist mjög vel og var endurútgefin í október 2004.

Wallis hefur verið fulltrúi Evrópuþingsins á fundum Norðurlandaráðsins,
þingmannaráðs landa við eystrasalt (the Baltic Sea Parliamentarians
Conference), og fastanefnd þingmanna í Norðurskautslöndum.

15. febrúar: Michael T. Corgan, dósent við Boston háskóla

Michael T. Corgan, dósent í alþjóðasamskiptum við Boston University, flutti
erindi á vegum stjórnmálafræðideildar og Alþjóðamálastofnunar Háskóla
Íslands undir yfirskriftinni „What Does the US Mean When It Says
„Security“?“ Corgan fjallaði m.a. um útvíkkun öryggishugtaksins, nýtt
stigveldi ógnana, sem og stöðu Íslands gagnvart Bandaríkjunum.

Michael T. Corgan er dósent í alþjóðasamskiptum við Boston University og
sérhæfir sig m.a. í alþjóðlegum öryggismálum. Corgan hefur oft á tíðum
haldið fyrirlestra við Háskóla Íslands og verið stundakennari við
stjórnmálafræðideild HÍ.

21. janúar: Hlutverk Sameinuðu þjóðanna í valdaskiptum heimi

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, kanadíska sendiráðið á Íslandi og English-Speaking Union of Iceland boðuðu til fundar með Patrick Whittman, yfirmanni málefna Sameinuðu þjóðanna í utanríkisráðuneyti Kanada. Wittman fjallaði um hlutverk Sameinuðu þjóðanna í valdaskiptum heimi. Fundarstjóri var Alan Bones, sendiherra Kanada á Íslandi.

Patrick Wittman hefur starfað í utanríkisþjónustu Kanada frá árinu 1995, og sem yfirmaður málefna Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006. Þar áður starfaði hann meðal annars í Mósambík fyrir Sameinuðu þjóðirnar, fyrir kanadísku þróunarsamvinnustofnunina (CIDA) og fyrir Alþjóðasamvinnuráð Kanada (CCIC). Patrick lauk BA gráðu frá Toronto háskóla og MA gráðu í
alþjóðasamskiptum frá Oxford háskóla.

 20. janúar: Kynningarfundur um Norræna þróunarsjóðinn

Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Land- og ferðamálafræðistofa og
Alþjóðamálastofnun boða til kynningarfundar um Norræna þróunarsjóðinn,
sem tekst meðal annars á við loftslagsbreytingar í fátækustu löndum
heims.

Helge Semb, framkvæmastjóri sjóðsins fjallar um sjóðinn og
nýju áherslurnar á kynningarfundi miðvikudaginn 20. janúar frá kl. 16
til 17 í fundarherbergi á 3. hæð í Öskju.

Vakin er athygli á því að frestur til að sækja um styrk úr sjóðnum fyrir verkefni árið 2010 rennur út 29. janúar næst komandi.

Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta.

 19. janúar: Ulf Dinkelspiel, fyrrverandi Evrópumálaráðherra Svíþjóðar

Ulf Dinkelspiel, fyrrverandi Evrópumálaráðherra og aðalsamningamaður
Svíþjóðar í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, hélt fyrirlestur á
vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sænska sendiráðsins.
Dinkelspiel er höfundur bókarinnar, Den motvillige europén, sem kom út á
síðasta ári en í henni gerir hann grein fyrir ferli sínum og einstakri
reynslu af Evrópumálum.

Ulf Dinkelspiel hefur gegnt lykilhlutverki í samningamálum Svíþjóðar á löngum ferli sínum sem embættis- og stjórnmálamaður. Reynsla hans í þeim efnum er meiri en nokkur annar getur státað af þarlendis og jafnvel má segja að hún sé einstök í Evrópu. Hann vann að samningaviðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma en þá var hann ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneyti Svíþjóðar. Dinkelspiel sinnti síðan embætti Evrópumálaráðherra frá árinu 1990 til 1993. Aðildarviðræðurnar við
Evrópusambandið stóðu síðan yfir frá 1992 til 1994 en Dinkelspiel var
aðalsamningamaður Svíþjóðar enda Evrópumálaráðherra og síðar einnig
viðskiptaráðherra á þessum tíma. Þá var hann í forsvari fyrir
Evrópuhreyfinguna í landinu þegar að þjóðaratkvæðagreiðslunni kom
haustið 1994. Dinkelspiel hefur að auki nær fjögurra áratuga reynslu í
sænsku utanríkisþjónustunni.

18. janúar: Utanríkisstefna Rússlands og samskipti NATO og Rússlands

Dr.
Tatyana Parkhalina
, forstöðumaður Rannsóknaseturs um öryggismál Evrópu í Moskvu, flutti fyrirlestur á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Dr. Parhalina fjallaði um utanríkisstefnu Rússlands og samskiptin við NATO sérstaklega. Fyrirlesturinn fór fram á ensku og bar heitið „Russian Foreign Policy and NATO-Russia Relations“.

Dr. Tatyana Parkhalina er rússneskur sérfræðingur um evrópsk öryggismál, samskipti NATO og Rússlands og utanríkisstefnu Rússa. Hún er með doktorspróf frá Alþjóðasamskiptastofnuninni í Moskvu (Moscow Institute of International Relations) og skrifaði um samskipti Frakka og Bandaríkjamanna á Miðjarðarhafssvæðinu. Starfsferil sinn hóf hún í Æðri menntastofnun stjórnarerindreka og síðan í Rússnesku vísindaakademíunni. Hún var yfirmaður Vestur-Evrópudeildar félagsvísindastofnunar akademíunnar og er nú varaforstöðumaður stofnunarinnar.

Dr. Parkhalina hefur ritað fjölda bóka og greina um ofangreind efni. 1998 beitti hún sér fyrir því, að komið var á fót gagnamiðstöð um málefni NATO í Moskvu og varð hún árið 2001 að Miðstöð um evrópskt öryggi undir stjórn hennar. Hún er í stjórn Rússlandsdeildar alþjóðlegu Pugwash-hreyfingarinnar og árið 2004 varð dr. Parkhalina varaforseti Samtaka Rússlands um samstarf Evrópu og Atlantshafsríkja. Frá árinu 2006 til 2009 sat hún í framkvæmdastjórn Alþjóðasamtaka stjórnmálafræðinga (IPSA). Hún er aðalritstjóri tímaritsins European Security.

Fundarstjóri: Björn Bjarnason, formaður Samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál.