Vel sóttur fundur um Finnland í Norræna húsinu

Finnland telur um fimm og hálfa milljón íbúa og telst því enn til smærri ríkja Evrópu. Landið hefur löngum þurft að glíma við margvísleg vandamál, allt frá blóðugum átökum til efnahagslegs skipbrots. Finnska þjóðin hefur þó ætíð sýnt mikla þrautseigju og hefur oftar en ekki náð að yfirstíga gífurlegt mótlæti sem hefur áunnið henni ómælda virðingu samstarfsríkja innan Evrópusambandsins. En hvaða máli skiptir skýr stefnumótun þegar kemur að því að yfirstíga hindranir sem þjóðir standa frammi fyrir? Geta önnur smáríki, Ísland þar með talið, lært eitthvað af reynslu Finnlands?

Dr. Jyrki Iivonen hefur lengi haft mikil áhrif á stefnumörkun Finnlands í öryggis-og varnarmálum, auk þess að vera virtur fræðimaður, rithöfundur og kennari. Á fundinum ræddi hann ekki aðeins öryggis-og varnarmál heldur einnig pólitíska og efnahagslega þætti öryggis, bæði í fortíð og nútíð.

Kristrún Heimisdóttir, lögræðingur, opnaði umræðurnar að loknu erindi Iivonen en fundarstjóri var Alyson Bailes, aðjunkt við stjórnmálafræðideild HÍ.