Lýðræðishalli innan Evrópusambandsins?

Föstudaginn 3. september hófst hádegisfundaröð Alþjóðamálastofnunnar H.Í., en stofnunin stendur fyrir vikulegum fundum sem bera yfirskriftina ,,Evrópa: Samræður við fræðimenn” þar sem fræðimenn við Háskóla Íslands kynna rannsóknir sínar, sem tvinna saman Ísland og Evrópu í víðu samhengi. Fundurinn var mjög vel sóttur.

Fyrstur til að ríða á vaðið var Maximilian Conrad, nýráðinn lektor í Evrópufræðum við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Erindi hans bar yfirskriftina ,,The missing link in EU Democracy?” eða lýðræðishallinn innan Evrópusambandsins? Maximilian Conrad er með meistaragráðu í stjórnmálafræðum og Evrópufræðum frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð og doktorsgráðu í stjórnmálafræðum frá sama skóla.

Conrad velti upp þeirri spurningu, hvort ástæðan fyrir hugsanlegum lýðræðishalla innan ESB væri skortur á samkennd meðal Evrópubúa. Þeir líta á sig sem Frakka, Þjóðverja o.s.frv. en ekki sem Evrópubúa. Allar ákvarðanir um málefni aðildarríkja eru teknar af stofnunum Evrópusambandsins, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Ráðherraráðinu, en sjálft Evrópuþingið hefur takmörkuð völd. Umbætur á stofnunum ESB gæti verið ein leið til að auka lýðræðið, en Conrad telur ólíklegt, að það dugi til eitt og sér. Hér á árum áður töldu menn að styrking Evrópuþingsins væri lausnin á lýðræðisvandanum, en á síðari árum hefur tilhneigingin verið sú að auka vægi þjóðþinga aðildarlanda við ákvarðanatöku ESB t.d. með ákvæði í Lissabon sáttmálanum frá 2009 um ,,appelsínugula spjaldið” þar sem einstaka þjóðþing getur ákveðið að bregðast við ákveðnu máli innanlands frekar en að vera samstíga Evrópusambandinu. Vandamálið er, að mati Conrad, að hugtakið ,,ESB lýðræði” hefur ekki verið skilgreint og verður ef til vill aldrei skilgreint m.a. vegna ólíkra skoðana á því, hvernig ESB mun og/eða ætti að þróast á næstu árum og áratugum. Conrad benti á, að í stað þess að einblína á einstaka stofnanir ESB og málefni þeirra, þurfi að ræða spurninguna um það, hvort til sé einhverskonar Evrópusál, sameiginlegur grundvöllur fyrir skoðanaskipti um evrópsk málefni. Conrad telur svo ekki vera og bendir á, að öll umræða um ESB og ákvarðanatöku sambandsins fari fram í hverju landi fyrir sig, en umræðan komist aldrei á einhvern samevrópskan stall.

Conrad vitnaði í John Dewey, sem sagði, að veikleika lýðræðisins mætti bæta með auknu lýðræði, en vandinn væri að fá dreifðan og síbreytilegan fjöldann til að átta sig á, hvað hann á sameiginlegt og hvar hagsmunir hans liggja. Conrad bætir við, að aðeins ef evrópsk samkennd, einhverskonar Evrópusál, verður til af sjálfu sér, gæti hún þjónað sem einhvers konar mótvægi við stofnanir hins pólitíska kerfis Evrópusambandsins. Efasemdarmenn hafa bent á, að umræða um Evrópusambandið, þvert á aðildarlönd þess, geti aldrei orðið – einfaldlega vegna tungumálaörðguleika. Fjölmörg og ólík tungumál eru töluð í hinum ólíku löndum ESB og til þess að einhver vitræn umræða geti farið fram, þurfa menn að geta talað saman og skilið sama tungumálið. Aðrir benda á, að slík umræða fari nú þegar fram í útbreiddum fjölmiðlum, en þegar betur er að gáð, kemur í ljós, að aðeins er um að ræða fáa vandaða fjölmiðla með takmarkaða útbreiðslu.

Conrad bar saman umfjöllun sænskra dagblaða annars vegar og þýskra hins vegar og komst að því, að töluverður samhljómur var í umfjöllun þessara blaða um ESB. Í raun var meiri áherslumunur milli blaða eftir því, hvort þau töldust frjálslynd, róttæk eða íhaldssöm, en þýsk eða sænsk. Fjölmargir áheyrendur voru mættir til að hlýða á Maximilian Conrad, sem svaraði fyrirspurnum úr sal að loknu erindi sínu.

Sigurður Snæberg Jónsson (ssj7@hi.is)