Evrópuvæðing – miklu meira en vínmenningarvæðing!

Íslendingar hafa innleitt flestar tilskipanir Evrópusambandsins, líka þær sem þeim eru ógeðfelldar eða óþægilegar! Ekki hafa Íslendingar möglunarlaust meðtekið allar tilskipanirnar heldur stundum reynt, og jafnvel tekist, að hafa áhrif á löggjöfina. Þetta var meðal þess sem kom fram í vel sóttum hádegisfyrirlestri Jóhönnu Jónsdóttur doktorsnema í stjórnmálafræði við Háskólann í Cambridge sl. föstudag í Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn, sem er byggður á doktorsritgerð hennar, var hluti vikulegrar hádegisfundaraðar Alþjóðamálastofnunar HÍ sem kallast Evrópa – Samræður við fræðimenn.

 

Jóhanna Jónsdóttir

Jóhanna velti fyrir sér hugtakinu Evrópuvæðing, enda var yfirskrift fyrirlestursins – Evrópuvæðing á Íslandi: Getur Ísland haft áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins og hvernig er stefnum ESB framfylgt á Íslandi?

„Fyrir um tuttugu árum komst hugtakið Evrópuvæðing í tísku ásamt ýmsum öðrum væðingum“, sagði Jóhanna. Merkingin var óljós, t.d. notuð um samskipti stórvelda Evrópu við gömlu nýlendurnar, einnig um aukna samkennd fólks í mismundandi ríkjum Evrópu. Jafnvel var talað um Evrópuvæðingu vínmenningar hérlendis og þá vísað til aukinna vinsælda víns og bjórs í stað hressilegrar brennivínsdrykkju um helgar! Að lokum urðu flestir fræðimenn samhljóma og nú vísar hugtakið Evrópuvæðing til áhrifa Evrópusambandsins á einstök ríki.

Hlaða upp skoðunum og hlaða niður tilskipunum
Rannsóknir á Evrópuvæðingu fjalla gjarnan um ósamræmi milli stefnumála Evrópusambandsins og þess sem tíðkast innan ákveðinna aðildarríkja. Aðildarríkin reyna þá að hafa áhrif á stefnuna til að koma í veg fyrir löghelgun og innleiðingu óþægilegra mála. Jóhanna notaði líkingamáli úr heimi tölvusamskipta máli sínu til stuðnings: „Ríkin reyna að „hlaða upp“ skoðunum sínum til að þufa ekki að „hlaða niður“ óþægilegum tilskipunum“. Ef það ekki tekst hunsa ríkin stundum tilskipanirnar sem getur leitt til málaferla og sektargreiðslu. Ríkið metur það þá þannig að ódýrara sé að greiða sekt en að breyta innanlandslöggjöf. Jóhanna sagði umsóknarríki um aðild oftast innleiða stefnu ESB þar sen gulrótin sé metin of gómsæt. Nágrannaríki Evrópusambandsins, t.d. Úkraína og Hvíta Rússland eru einnig hvött til að innleiða tilskipanir ESB. Hvatinn, sem felst nánari viðskiptatengslum, virðist þó ekki nægur til að lögfesta óþægilegar breytingar á skjön við það sem tíðkast hefur í landinu.

Ísland – mitt á milli
Rannsóknartilgáta Jóhönnu er að staða Íslands sé á milli þess að vera aðildarríki og umsóknarríki. Hún spyr líka hvort og hvernig ríki sem ekki eru beinir aðilar ESB geti haft áhrif á stefnumótun. Þetta sé mikilvægt að skoða þar sem fleiri og fleiri ríki utan ESB taki upp stefnu sambandsins og því sé þetta spurning tengd lýðræðishalla.
Ísland innleiðir stóran hluta löggjafar ESB í gegnum EES samninginn. Í samningnum er ákvæði, sem kallast grein 102 sem kveður á um að ef aðildarríki samningsins neitar að taka upp löggjöf þá sé hægt að fella niður eða fresta framkvæmd ákveðins hluta EES samningsins. EES ríkin eru mjög háð innri markaði ESB og því sé hvatinn til að innleiða löggjöf sterkur.

Jóhanna segir að þrátt fyrir að vera ekki aðildarríki þá reyni Ísland stundum að hafa áhrif á stefnumótun ESB t.d. í gegnum nefndarstörf, stundum gegnum þingmenn Evrópuþingsins og reyna að afla málum fylgis meðal grannþjóða. Það sem reynst hafi Íslandi notadrýgst sé sú staðreynd að löggjöf ESB verður ekki sjálfkrafa hluti af EES samningi heldur þarf að semja um það í hinni svokölluðu sameiginlegu EES nefnd. Í máli Jóhönnu kom fram að það hafi komið á óvart hve oft Íslandi takist að fá undanþágur og aðlaganir á þessum síðustu metrum.

Rafmagnað loft
Í rannsókn sinni skoðaði Jóhanna nokkrar tilskipanir sem Íslendingar hafa verið ósáttir við. Þannig olli raforkutilskipunin, sem gekk út á markaðsvæðingu á sölu rafmagns, nokkrum straumhvörfum og þótti ekki eiga við hér á landi. Samið var um að Íslandi gæfist kostur á að beiðast undanþágu frá ýmsum þáttum tilskipunarinnar. Það var að vísu ekki nýtt og segir Jóhanna líklegustu skýringu þess vera að markaðsvæðing rímaði vel við stefnu stjórnvalda á þeim tíma.

Það gustaði verulega á fundum um tilskipun ESB um losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Ísland var með alþjóðlegan sérsamning sem veitti leyfi til umframlosunar og var tregt til að samþykkja tilskipunin. Verulegar áhyggjur vöknuðu svo hér þegar í ljós kom að herða ætti löggjöf um losun gróðurhúsaloftegunda frá flugvélum. Rök Íslands í þessu máli voru að Ísland væri einangrað og háð flugi. Reynt var að hafa áhrif með tillögum um að undanþágu fyrir jaðarsvæði sem ekki tókst. Ekki hefur verið reynt að koma í veg fyrir að þetta færi inn í EES samninginn líklega vegna breyttrar stjórnarstefnu hérlendis. Þá olli svokölluð Borgaratilskipun nokkru fjaðrafoki innan nefndarinnar sem leiddi til þess að ESB nýtti sér grein 102 og þá var fátt til ráða annað en að semja.

Í lok erindis síns fjallaði Jóhanna um tregðu Íslands við að taka upp matvælalöggjöf ESB. Eftir mikið japl og fuður var löggjöfin loks innleidd en vísvitandi ranglega og með fyrirvörum. Í þessu máli hegðaði Ísland sér líkt og aðildarríki og hafnaði óþægilegri tilskipun. Afleiðingar þessa eru enn ófyrirséðar.

Svanbjörg H. Einarsdóttir
she2@hi.is

Þessi fundur var annar fundurinn í
fundaröð Alþjóðamálastofnunar Evrópa: Samræður við fræðimenn. Næsti fundur fer fram næsta föstudag á sama stað og tíma en þá mun Alyson Bailes, aðjunkt við stjórnmálafræðideild, halda erindi sem hún nefnir „Is the EU and will it ever be a Defence Alliance?“.