Er ESB, eða getur það orðið, varnarbandalag?

Alyson Bailes, aðjunkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, flutti  hádegisfyrirlestur á Háskólatorgi síðastliðinn föstudag (17. september 2010) undir yfirskriftinni:  Is the Eu and will it ever be a Defence Alliance? Fyrirlesturinn var vel sóttur og er sá þriðji í fundaröð sem ber heitið: Evrópa – Samræður við fræðimenn, sem haldin er á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Rannsóknarseturs um smáríki.

Sameiginlegur her Evrópu

Bailes fjallaði um Evrópusambandið og hvort það væri, eða gæti mögulega orðið, varnarbandalag. Hún byrjaði umfjöllun sína um hugmynd af sameiginlegum evrópskum her, sem kviknaði stuttu eftir seinni heimstyrjöldina. Þessum her var ætlað að viðhalda friði í Evrópu, þ.e.a.s. að koma í veg fyrir innbyrðis átök á milli Evrópuþjóða.

Bailes benti á að þessi herhugmynd hafi í raun og veru verið óþörf þar sem að NATO sæi um þetta hernaðarhlutverk. Að loknu stíðinu á Balkanskaga var rætt um þá hugmynd að nýju að stofna umræddan Evrópuher. Þá áttaði Evrópusambandið sig á hlutverki sínu, sem var, að það gæti stuðlað að friði, ýmist með því að senda hjálparsveitir og/eða friðargæsluliða á þau svæði sem þess þurfti.

Evrópusambandið og NATO

Talsverður munur er á NATO og Evrópusambandinu en samkvæmt Bailes hefur Evrópusambandið ekki neinar sérstakar herstöðvar fyrir heri sína ólíkt NATO sem hefur höfuðstöðvar í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Þess vegna, telur Bailes að það sé mun erfiðara fyrir Evrópusambandið að fara út í hernað. NATO er með stærra og reyndara herlið sem er vel tiltækt, á meðan Evrópusambandið hefur aðeins litla bardagahópa í mörgum löndum. Vert er þó að benda á að samkvæmt Bailes, þá getur Evrópusambandið samt sem áður komið í veg fyrir að styrjaldir og erjur breiðist út í löndum Evrópu með því að beita efnahags- og/eða pólitískum aðgerðum (t.d. í formi friðargæslu og uppbyggingarstarfs). Að mati Bailes hefur Evrópusambandinu tekist að viðhalda ákveðinni friðarímynd. Það er vegna þess að þær aðgerðir sem sambandið hefur farið út í eru ekki taldar mjög hættulegar og lítið hefur verið um dauðsföll.

Lissabon-sáttmálinn, grein 222

Bailes fjallaði um grein 222 í Lissabon- sáttmálanum. En samkvæmt þeirri grein segir m.a. að ef eitthvert land innan Evrópusambandins verði fyrir t.d. náttúruhamförum eða hryðjuverkaárásum,  munu hin aðildarríki sambandsins koma því landi til hjálpar, hvort sem það væri í formi fjármagns eða hers. En Bailes tók það sérstaklega fram að það væri hvergi nefnt innan þessarar umræddu greinar hvort að hjálpin mætti vera í formi hers eða ekki. Þannig getur herinn reynst sem hjálparsveit í stað árásaraðila, hann væri aðeins sendur til aðstoðar.

Evrópuher er óþarfur

Bailes tók það einnig fram að ef einhver árás væri gerð á ríki í Evrópu væri því þannig forgangsraðað að herlið NATO væri ætíð fyrst á vettvang, en þetta á sérstaklega við um þau ríki sem tilheyra NATO. Evrópusambandið hefur ekki leyfi til þess að koma á svæðið og yfirtaka hervald NATO, það eru ekki til nein lög eða reglugerðir um það. Þess vegna, fullyrðir Bailes, að það sé svo margt sem hindrar það að þessi hugmynd um Evrópuherinn verði að raunveruleika. Það yrði alltof mikið ósætti á milli landa ef önnur ríki færu að skipta sér af stjórnun þess hers sem væri í því heimalandi.

Einnig nefnir Bailes sem dæmi að í seinni heimstyrjöldinni og í kalda stríðinu hefði verið full ástæða til þess að reyna að gera þessa hugmynd um Evrópuherinn að veruleika. Það var hins vegar aldrei reynt t.d. vegna pólitísks ósættis o.s.frv. Þess vegna telur Bailes að það sé mjög ólíklegt að þess konar her verði skapaður nú  á 21. öld. Auk þess eru herir innan Evrópu svo misstórir og ólíkir, að erfitt gæti verið að sameina þá í einn stóran her. Til viðbótar myndi þetta kosta gríðarlegar fjárhæðir og gæti reynst hrein peningasóun fyrir sum ríki. Bailes bendir jafnframt á að þessi hugmynd eigi líklegast aldrei eftir að verða að raunveruleika þar sem NATO sér í raun um þessi hernaðarlegu atriði. Að hennar mati væri hægt að nota frekar þennan sameiginlega, evrópska her í gáfulegri tilgangi s.s til hjálpar, friðar eða umhverfisaðstoðar og gæslu líkt og fyrr var getið.

Helga Mjöll Stefánsdóttir, hms6@hi.is