Sterkari staða íslenskunnar við inngöngu í ESB

Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræði við íslensku- og
menningardeild Háskóla Íslands, hélt erindi um málstefnu ESB og áhrif
hennar á tungu smáþjóða. Margt fróðlegt kom fram í máli Gauta á
velsóttum fundi í fundaröð Alþjóðamálastofnunar Evrópa: Samræður við fræðimenn. 

Gauti Kristmannsson

Umsögn nemenda um fundinn:

Hádegisfundarröð Alþjóðamálastofnunnar Háskóla Íslands hélt áfram föstudaginn 24. september, en þetta var fjórða málstefnan í röð vikulegra funda um evrópumál undir heitinu Evrópa: Samræður við fræðimenn. Yfirskrift fundarins að þessu sinni var Málstefna Evrópusambandsins og áhrif hennar á tungu smáþjóða og var það Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingarfræði við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, sem flutti erindi að þessu sinni og var fundurinn mjög vel sóttur.

Innganga styrkir tungumálið
Gauti Kristmannsson velti fyrir sér spurningunni um hvaða áhrif innganga myndi hafa á íslenska tungumálið, og var hann harður á þeirri skoðun að það myndi hafa mjög jákvæð áhrif í för með sér. Eins og staðan er í dag þá eru þýðingar á lögum, reglugerðum og sáttmálum gerðar á okkar kostnað, en með inngöngu í ESB þá myndi sá kostnaður færast yfir á sambandið. Þetta myndi hafa í för með sér að mun fleira efni yrði þýtt yfir á íslensku sem myndi gefa landsmönnum mun betri skilning á því sem er að gerast í kringum okkur. Innganga myndi einnig veita okkur aðgang að fleiri fræðimönnum til landsins og reglugerðum sem myndu styrkja menntakerfið. Gauti minntist á mikilvægi þess að fá fleiri þýðingar til landsins og fullyrti að þjóðtungan væri hornsteinn hvers svæðis. Gauti kom einnig að máli um að ekkert væri gefið í þessum efnum, og að það væri alfarið undir okkar komið hvernig okkur myndi ganga í þeim, það væri þátttaka okkar og vilji til að samþykkja breytingar sem myndu styrkja tungumálið.

Stúdentspróf í ensku ekki nóg
Gauti Kristmannson dósent hóf mál sitt með því að vitna í tvö kvæði eftir Matthías Jochumsson og velti í kjölfarið fyrir sér hvaða þýðingu móðurmálið hefði fyrir landið. Eins og áður hefur komið fram talar hann um þjóðtunguna sem hornstein lands, og einnig talaði hann um einingu lands, þjóðar og tungu og talar hann um að þjóðernishyggjan spili sig sterklega inn í mikilvægi móðurmálsins. Gauti vitnar í Max Weinreich, rússneskan tungumálafræðimann á 20. Öld, máli sínu til stuðnings, sem talaði um tungumál sem mállýsku með her og flota. Einnig talaði hann um að ekki gætu öll ríki notað eigið tungumál á opinberum vettfangi, og spilar hlutverk túlka í ESB mikilvægt hlutverk. Gauti minntist enn fremur á að framfara væri þörf varðandi túlka, og að ekki væri nóg að hafa stúdentspróf í ensku til að geta spjarað sig sem túlkur. Túlkur þyrfti að búa yfir afbragðskunnáttu á eigin tungu ásamt að minnsta kosti tveimur öðrum tungumálum. Mikið reynir á túlka innan ESB en í dag eru 23 opinber tungumál innan sambandsins og er mögulegt að fá túlka fyrir öll málin sé þess óskað. Innganga í ESB gæti leitt til þess að meiri áhersla yrði lögð á tungumálakennslu í efri námsstigum og gæti hún einnig leitt það af sér að fleiri einstaklingar myndu nýta sér þannig nám sökum fleiri aðstæðna sem krefðust þess að einstaklingar væru vel að sér í fleiri tungumálum.

Gauti Kristmannsson svaraði spurningum viðstaddra að loknu erindi sínu, og meðal spurninga sem lagðar voru fyrir hann var varðandi blindraletur og táknmál og útskýrði hann það að reglugerðir væru innan sambandsins varðandi stuðning þess efnis. Fyrirlesturinn var sem áður segir sá fjórði í röð vikulegra málfunda um evrópumál og heldur dagskráin áfram föstudaginn 1.október þegar Jón Karl Helgason, dósent við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands flytur erindi sitt sem ber heitið Evrópskir þjóðardýrlingar.

Rúnar Örn Sævarsson
ros4@hi.is

Við minnum á erindi Jón Karls Helgasonar, föstudaginn 1. október, um evrópska þjóðardýrðlinga. Nánari upplýsingar um fundaröðina í heild sinni má finna hér á vefsíðu Alþjóðamálastofnunar.