Framtíðarsaga norðurslóða

Alþjóðamálastofnun ásamt English-Speaking Union of Iceland, stóð fyrir
opnum fyrirlestri með Charles Emmerson, höfundi bókarinnar „The Future
History of the Arctic“, í hátíðarsal Háskóla Íslands, þriðjudaginn 28.
september frá kl. 16 til 17:30.

Charles Emmerson og Ólafur Ragnar Grímsson

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði fundargesti í upphafi fundar. Að loknu erindi Emmersons fjallaði Jónas Gunnar Allansson, sérfræðingur í utanríkisráðuneytinu, um stefnumál Íslands varðandi norðurslóðir.

Fundurinn var vel sóttur og góðar umræður sköpuðust að honum loknum.

Hér má nálgast erindi Emmersons.

Umsögn nemenda um fundinn:

Framtíðarsaga norðurslóða: Gullæði eða nýtt kalt stríð?

Margvíslegar breytingar eru að eiga sér stað á Norðurheimskautssvæðinu, loftlagsbreytingar og bráðnun jökla hefur í för með sér betra aðgengi að auðlindum lands og sjávar, siglingaleiðir opnast og miklir hagsmunir eru í húfi. Áhugi ríkjanna sem tilheyra svæðinu vegna hugsanlegs ávinnings gæti valdið átökum. Aukin olíu og gas nýting verður óhjákvæmileg.  Það verða umhverfisspjöll af þessari nýtingu, en það er svigrúm til að draga úr þeim og lágmarka. Það verður hernaðarvæðing og samkeppni milli ríkja svæðisins en undirliggjandi er sterkur vilji til samvinnu. Þó er enn mikil hætta á samkeppni, átökum og misskilningi milli ríkja. Og jafnvel þó samkeppni um yfirráðasvæði yrði ekki til staðar væri gríðarleg áskorun framundan á sviði efnahagsþróunar og stjórnunar umhverfismála.  Þetta sagði Charles Emmerson, höfundur bókarinnar ,,The Future History of The Artctic” á fyrirlestri í Hátíðarsal Háskóla Íslands á þriðjudag.

Charles Emmerson er fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri World Economic Forum. Bókin, sem kom út á þessu ári, hefur nú þegar hlotið mikið lof fyrir að gefa hlutlausa og skýra mynd af stöðu mála á norðurslóðum. Hann býr í London og starfar sem rithöfundur og ráðgjafi um alþjóðamál.
Átta ríki eiga land á norðurskautssvæðinu, Rússland, Finnland, Svíþjóð, Noregur, Ísland, Danmörk (Grænland/Færeyjar), Kanada og Bandaríkin. Rússland er langvíðfeðmasta norðurslóðaríkið og hafa málefni norðurslóða mikið vægi í utanríkisstefnu Rússa. Ísland hefur þá sérstöðu að vera eina landið sem er allt innan norðurskautssvæðisins.
Grænlendingar sjá tækifæri til að öðlast sjálfstæði með aukinni auðlindanýtingu.

Þó svo að bókin sé um framtíðarsögu Norðurslóða segist Emmerson ekki geta sett fram einfalda mynd um hvernig svæðið muni líta út eftir 10 ár eða nokkra áratugi, enginn viti það nákvæmlega. Breytingarnar muni hafa gríðarlegar umhverfislegar afleiðingar, ekki bara á svæðinu sjálfu heldur langt út fyrir það. Þær hafi einnig landfræðipólitísk áhrif og efnahagslegar afleiðingar. Breytingar á alþjóðlegum valdatengslum og vaxandi ótta á auðlindaskorti gera norðurslóðir sífellt mikilvægari á alþjóðavettvangi. Áhuginn nær langt út fyrir  ríkin sem tilheyra svæðinu, til Kína, Indlands og víðar. Það sem gerist í norðurslóðum skiptir máli alþjóðlega.

Þó vitað sé að miklar auðlindir sé að finna á svæðinu ríkir mikil óvissa þær og hve mikið er hægt að nýta. Gasið sé líklega að mestu Rússlandsmegin á meðan olían sé við hluta Noregs, Kanada, Grænlands og Bandaríkjanna. Ef sambærilegt mengunarslys yrði á norðurslóðum og varð í Mexíkóflóa yrði hreinsunarstarf mun flóknara þar sem náttúrulegar aðstæður eru mun erfiðari.

Emmerson segir rödd Íslands ekki heyrast vel í umræðum um norðurslóðir. Tvennt veki strax eftirtekt. Í fyrsta lagi að þó svo Ísland sé á jaðri norðurheimskautsbaugsins, verður það óhjákvæmilega fyrir áhrifum af því sem gerist í norðrinu vegna landfræðilegrar legu, í miðju siglingaleiða til og frá svæðinu.  Í öðru lagi að Rússland á mikilla hagsmuna að gæta í framtíð norðurslóða. Það sem Rússland ákveður, mun líklega móta svæðið meira en ákvörðun nokkurs annars lands norðurslóða.

Emmersson segir að Íslendingar þurfi að huga að því hverjir bandamenn þeirra eru. Rödd Íslands þurfi að vera háværari á þeim alþjóðavettvangi sem hefur áhrif á málefni norðurslóða. Íslendingar verða að vera skynsamir í vali á hvaða efnahagslegu tækifæri þeir grípa og einnig hverjum þeir hafna.

Emmersson segir margt geta farið úrskeiðis. Olíumengunarslys sem yrði jafnvel óhugsandi að hreinsa upp eftir, skip strandað og valdið umhverfisspjöllum. Hernaðaruppbygging gæti aukist með auknu vantrausti milli norðurslóða ríkja. Aukinn ágreiningur um landsvæði sem ríki geta ekki leyst og hefði slæm áhrif á samskipti á norðurslóðum og víðar. Ný ríkisstjórn í Rússlandi gæti aukið hörkuna í umræðuna um svæðið. Kröfur um umhverfisvernd gætu lækkað eftir því sem efnhagslegur ávinningur verður sýnilegri, og eftir því sem skortur á náttúruauðlindum skerpist. Kínverjar gætu ákveðið að þeir þyrftu sterkari rödd varðandi málefni norðurslóða vegna þjóðarhagsmuna og farið fram á það. Sjálfstætt Grænland gæti orðið fyrirmynd góðrar ráðmennsku í umhverfisverndarmálum og fyrsta norðurslóðaríki innfæddra, en það gæti einnig orðið of náið stóru fyrirtækjunum sem fjármögnuðu sjálfstæði þeirra. Emmerson segir hægt að komast hjá þessu öllu. Hægt sé að vera með samstarf um fjölmörg mál. Til dæmis leitar og björgunarmál, umhverfismál og efnahagslega þróun.

Framtíðarsaga norðurslóða er óskrifað blað.  En það eru enn tækifæri til að móta framtíð þeirra.  Með því að ögra þeirri draumsýn sem við höfum um norðurlóðir og brjóta til mergjar hvað norðurslóðir eru í raun og veru.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ávarpaði gesti í upphafi fundarins og sagði meðal annars að bókin gæfi mjög áhugaverða sýn um norðurslóðir, hið pólitíska landslag og líf fólksins sem þar býr. Jónas  Gunnar Allansson, sérfræðingur í utanríkisráðuneytinu fjallað um stefnumál Íslands varðandi norðurslóðir, en um þau má lesa í skýrslunni ,,Ísland á  norðurslóðum” á vef utanríkisráðuneytisins.

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands ásamt English Speaking Uninon of Iceland stóðu fyrir fyrirlestrinum sem var haldinn í Hátíðarsal Háskóla Íslands þriðjudaginn 28. september. Fundarstjóri var Bogi Ágústsson, fréttamaður. Fundurinn var mjög vel sóttur og sköpuðust nokkrar umræður í lokin.
Sigríður G. Ásgeirsdóttir sga4@hi.is