Evrópskir þjóðardýrlingar: hugleiðing um helgifestu

Jón Karl Helgason

Föstudaginn 1. október hélt Jón Karl Helgason dósent við íslensku-
og menningardeild Háskóla Íslands, erindi um evrópska þjóðardýrlinga.
Var erindið hluti af fundaröð Alþjóðamálastofnunnar Háskólans og
nefndist: Evrópskir þjóðardýrlingar: Hugleiðing um helgifestu.

Á nýöld, ekki síst 19. öldinni, léku tilteknir evrópskir
einstaklingar lykilhlutverk í að móta þjóðarvitund landa sinna, ýmist
með afskiptum af stjórnmálum eða starfsemi á vettvangi menningar og
lista. Í þessum hópi voru meðal annars málfræðingar, textafræðingar,
þjóðfræðingar, ljóðskáld, rithöfundar, málarar og tónskáld. Eftir
dauðann hafa margir þessara manna (konur heyrðu til undantekninga)
verið teknir í eins konar dýrlingatölu í heimalöndum sínum og orðið að
holdgerðum táknmyndum viðkomandi þjóðernis.

Jón Karl hefur skoðað félagslegt hlutverk þessara einstaklinga með hliðsjón af því hlutverki sem kóngafólk og dýrlingar hafa löngum leikið í Evrópu, en ekki síður í ljósi þeirrar félagslegu og pólitísku togstreitu sem oft skapast í kringum helgifestu þeirra.

Í fyrirlestrinum ræddi Jón Karl um þær formgerðir og þá siði sem mótast hafa í kringum nöfn og minningu þessara einstaklinga, sem og félagslegt hlutverk þeirra á síðari tímum. Þegar hugað er að þessum þáttum koma í ljós svo margar hliðstæður við kristna dýrlingahefð og að vart er um tilviljun að ræða.

Rakti Jón þá helstu staðla eða táknmyndir sem eru birtingarform þjóðardýrlinga. Það eru: 1) Líkneski í formi stytta, höggmynda eða málverka. 2) Íkonar, en það eru t.d. myndir á peningaseðlum og myntum, hálsmen eða merki. 3) Skírn (helgun), það er þegar götur eða staðir eru nefndir einhverjum ákveðnum aðilum. Nefndi Jón Karl einnig helgidóma og pílagrímstaði, sem tengjast dýrlingum, hvort sem það eru staðir sem menn störfuðu á, einhverjir táknrænir atburðir áttu sér stað eða þar sem jarðneskar líkamsleifar eru grafnar.

Þetta eru margar ólíkar myndir af því hvernig þjóðardýrlingar geta sett mynd sína í margskonar samfélögum, þjóðernum og menningum. En allt á þetta rætur sínar að rekja til kristnar dýrlingahefðar og þá sérstaklega hjá kaþólskum þjóðum, og hvernig hefðirnar og myndirnar hafa teygt anga sína lengra og víðar. Frá kirkjulegri hefð til menningarlegrar og allt til pólitískra gilda.

Minntist Jón Karl á það hvernig styttur og höggmyndir af kaþólskum trúardýrlingum tóku form sitt í listamönnum, skáldum, konungum, þjóðarhetjum og byltingarleiðtogum. Og hvernig staðir og götunöfn fóru að bera nöfn þjóðardýrlinga en ekki eingöngu nöfn tengd trúnni. Nefndi hann sem dæmi að þegar franska byltingin var gerð að þá á sömu stundu voru götuheitum kristinna dýrlinga í París skipt út fyrir konungleg nöfn og þjóðarleiðtogum byltingarinnar. Menningarleg þjóðernishyggja fór að taka á sig nýja mynd með ræktun þjóðmenningar í breyttum tíðaranda í sögu evrópskra þjóða.

Íslenskir þjóðardýrlingar
Íslendingar hafa ekki komist hjá því að eignast sína eigin þjóðardýrlinga. Hafa þeir sérstaklega komið fram í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á 19. öld sem og skáldum og rithöfundum. Voru reistir minnisvarðar af ráðamönnum og skáldum, eins og af Jóni Sigurðssyni, Jónasi Hallgrímssyni og fleirum. Auk þess sem margar götur í Reykjavík fóru að bera nöfn þekktra stjórnmálamanna og annarra framamanna í íslensku samfélagi. En einnig af landnámsmönnum eins og Ingólfi Arnarsyni og svo Leifi Eríkssyni og reystir minnisvarðar af þeim og götum gefin nöfn eftir þeim. Var meira að segja flugstöðin í Keflavík nefnt eftir Leifi Eiríkssyni. Jón Karl gerði könnun ekki alls fyrir löngu þar sem hann athugaði hverjir Íslendingar telji vera helstu þjóðardýrlinga Íslands. Jón Sigurðsson var fyrst og fremst nefndur og fyllti öll form til að geta talist til þjóðardýrlings, en einnig nefndu menn mikið Ingólf Arnarsson, Leif Eiríksson, Jónas Hallgrímsson og kom Snorri Sturlusson þar skammt á eftir. Ýmsir einstaklingar hafa ratað á íslenska peningaseðla í gegnum árin og ýmsir staðir hafa verið opnaðir með sínum þjóðardýlingaeinkennum, eins og Jónshús, Gljúfrasteinn og margir fleiri. Einnig eru sérstakir dagar tilleinkaðir ákveðnum mönnum, eins og 16. nóvember sem ákveðið var að gera að degi íslenskrar tungu, en það er einmitt fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar.

Um ýmislegt var rætt á fyrirlestrinum og að honum loknum voru margar fyrirspurnir lagðar fram. Var m.a. talað um að það hefði komið upp sú hugmynd að gera fæðingardag Ómars Ragnarssonar að degi íslenskrar náttúru. Athyglisverð þróun hefur átt sér stað í formi þjóðardýrlinga í Evrópu í gegnum aldirnar og verður fróðlegt að sjá hvernig munstur eða form verður á þjóðardýrlingum í komandi framtíð, með allri sinni alþjóðavæðingu með breyttri heimsmynd og breytingum á sögu þjóða í Evrópu, hvort sem er félagsleg, menningarleg eða pólitísk.

Eiríkur Einarsson
eie5@hi.is