TEPSA fundur og ráðstefna í Búdapest

Baldur Þórhallsson, stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar, heldur
erindi á ráðstefnu í Búdapest í dag, fimmtudaginn 2. desember.
Ráðstefnan er haldin á vegum Trans European Policy Studies Association
(TEPSA) en slíkar ráðstefnur halda samtökin í þeim löndum sem eru um
það bil að taka við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins á hálfs
árs fresti.

TEPSA samtökin eru samtök Evrópufræðasetra aðildar- og umsóknarríkja Evrópusambandsins. Samtökin voru stofnuð 1974 en einungis ein stofnun frá hverju landi getur fengið aðild. Á ráðstefnunni í Búdapest eru kynntar ráðleggingar samtakana til ungverskra stjórnvalda sem taka við formennsku í ráðherraráðinu í janúar.

Þá eru haldnar málstofur um þau málefni sem helst eru til umræðu innan sambandsins þessa stundina. Á málstofunni um stækkunarmál heldur Baldur Þórhallsson, stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar, erindi sem hann nefnir: Iceland´s integration Takeoff: An End to EU Scepticism?

Auk Baldurs sækir Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, ráðstefnuna í dag og aðalfund TEPSA á morgun.