Viðburðir ársins 2009

30. nóvember: Gerald J. Austin

Gerald J. Austin, pólitískur ráðgjafi frá Bandaríkjunum, hélt opinn fyrirlestur á vegum Alþjóðamálastofnunar og viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands sem bar heitið „The Obama Presidency A Review of his Historic Campaign and Evaluation of his First Year as President“. Gerald J. Austin á langan feril að baki sem pólitískur ráðgjafi í Bandaríkjunum. Hann hefur starfað fyrir Jimmy Carter, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, þingmennina Gary Hart, Paul Tsongas, Carol Moseley Braun, Jesse Jackson og Barack Obama, svo að eitthvað sé nefnt. Hann var kosningastjóri fyrir Jesse Jackson í forsetakosningunum 1988 og einn af aðalráðgjöfum Paul Tsongas í prófkjöri Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 1992. Austin hefur einnig starfað utan Bandaríkjanna, m.a. í kosningaeftirliti á Filippseyjum, sem ráðgjafi á Norður-Írlandi og í Ungverjalandi, og í eftirlitsstörfum í Chile við þjóðaratkvæðagreiðslu Pinochet.

Upptaka af fyrirlestri Austin 

 

20. nóvember: Dagur ungra fræðimanna í Evrópumálum

Ár hvert standa Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Samtök iðnaðarins fyrir viðburði sem nefndur er Dagur ungra fræðimanna. Tilgangur þessa er að skapa vettvang fyrir unga fræðimenn að kynna rannsóknir sínar á sviði Evrópufræða. Meistara- eða doktorsnemar, nýútskrifaðir eða þeir sem eru um það bil að útskrifast kynna rannsóknir sínar í stuttum fyrirlestrum og svara fyrirspurnum í lok ráðstefnunnar.

Að þessu sinni voru þátttakendur frá þremur háskólum á sviði Evrópufræða, alþjóðasamskipta, lögfræði og stjórnsýslufræða. Umfjöllunarefnin innan þessa ramma voru margvísleg en sem dæmi má nefna öryggis- og varnarmál Evrópusambandsins (ESB), samskipti Evrópu og Bandaríkjanna, réttur til aðgangs gagna í vörslu ESB, innflytjenda- og hælisstefna ESB, Evrópuvæðing íslenskra sveitarfélaga og úttekt á stefnum og stofnunum upplýsinga- og þekkingarsamfélagsins innan ESB, svo eitthvað sé nefnt. Fundarstjóri var Högni S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu.

Dagskrá:

13:00 Málþing opnað
Fundarstjóri Högni S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu

13:05 Ávarp
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

13:10 Hversu Evrópuvædd eru íslensk sveitarfélög?
Jóhanna Logadóttir, meistaranemi í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands með áherslu á Evrópufræði

13:30 Rétturinn til aðgangs að gögnum hjá Evrópusambandinu
Vigdís Eva Líndal, lögfræðingur

13:50 Stefnur og stofnanir upplýsinga- og þekkingarsamfélagsins í ESB-löndunum og Íslandi
Bergljót Gunnlaugsdóttir, MA í Evrópufræðum frá Háskólanum á Bifröst, forstöðumaður bókasafns Flensborgarskóla

14:10 Kaffihlé – bóksala Alþjóðamálastofnunar

14:40 Vestræn samvinna og öryggis- og varnarmálastefna ESB
Vilborg Ása Guðjónsdóttir, MA í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands. verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun

15:00 Evrópuvæðing utanríkis-, öryggis- og varnarmála
Margrét Cela, doktorsnemi í alþjóðasamskiptum við Háskólann í Lapplandi

15:20 Umræður – frummælendur svara fyrirspurnum úr sal

15:50 Evrópustyrkir Samtaka iðnaðarins og Alþjóðamálastofnunar
Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar

16:00 Málþingi slitið 


12. nóvember: Utanríkisstefna Færeyja

Beinta i Jákupstovu, dósent í stjórnmálafræði við Fróðskaparsetur Færeyja og stundakennari við Molde háskóla í Noregi, hélt erindi sem bar beitið ‘Latest developments in Faroese foreign affairs: a non-sovereign state in the international arena’. Beinta fjallaði um nýlega þróun í utanríkismálum Færeyja, þar á meðal nýstofnaða nefnd sem skoðar hugsanlegar breytingar á samskiptum Færeyja við Evrópusambandið. Fundarstjóri var Alyson JK Bailes.

11. nóvember: Hádegisfundur með Vladimir Spidla

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og fastanefnd Evrópusambandsins gagnvart Íslandi boðuðu til fundar með Vladimir Spidla, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins í atvinnu-, félags- og jafnréttismálum. Spidla fjallaði um aðgerðir Evrópusambandsins í atvinnumálum og hvaða úrræði sambandið ætlar að beita í baráttunni gegn atvinnuleysi.

Fundarstjóri var Steinunn Halldórsdóttir, verkefnisstjóri á skrifstofu ráðherra félags- og tryggingamála.

Ræða Vladimir Spidla

4. nóvember: Andrew Cottey, University College Cork

Andrew Cottey, kennari í stjórnmálafræði við University College Cork flutti erindi sem bar heitið “Benefits and Costs of EU membership: A Perspective from Ireland and the UK”.

30. október: Þjóðarspegill

Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetur um smáríki voru með tvær málstofur á Þjóðarspegli Félagsvísindasviðs þetta árið. Sú fyrri var á vegum Alþjóðamálastofnunar og EDDA öndvegisseturs og bar heitið „Öryggi hverra? Femínískar nálganir í samtímastjórnmálum“. Síðari málstofan var á vegum Rannsóknaseturs um smáríki og bar heitið „Ísland og Evrópusamvinnan“.

Dagskráin var svohljóðandi:

EDDA öndvegissetur og AMS: Öryggi hverra? Femínískar nálganir í
samtímastjórnmálum. Háskólatorg 102, 11-13.

Silja Bára Ómarsdóttir
Upplýst feminísk utanríkisstefna: Áhrif kvennahreyfinga á utanríkisstefnu Íslands

Birna Þórarinsdóttir
Women and Human Security – How Women Helped Bring About the Human Security Agenda

Auður H. Ingólfsdóttir
Climate Change and Human Security in the Arctic: The Role of Gender

Rannsóknarsetur um smáríki – Ísland og Evrópusamvinnan. Háskólatorg 102, 15-17.

Eiríkur Bergmann
Er Ísland fullvalda?

Jóhanna Jónsdóttir
Can the EFTA states say “no”? Article 102 and the incorporation of the Citizenship Directive into the EEA Agreement

Maria Elvira Mendez Pinedo
Iceland at crossroads: A dilemma in the European integration

Sjá dagskrá Þjóðarspegils í heild sinni: Þjóðarspegill X

 

27. október: Malta og ESB: Væntingar og reynsla

Rannsóknasetur um smáríki og Evrópusamtökin buðu til hádegisfundar með Dr. Simon Busuttil, Evrópuþingmanni frá Möltu, og Dr. Roderick Pace, stjórnmálafræðiprófessor við Möltuháskóla. Þeir fluttu erindi um möguleg áhrif smáríkja innan Evrópusambandsins og hvaða þekkingu megi draga af reynslu Möltubúa af samstarfinu í Evrópusambandinu. Erindi Busuttils nefndist “The Influence of a Small New EU Member State” og að því loknu flutti Pace erindi sem hann kallaði “Adapting to the EU: The Case of Malta”. Hanna Katrín Friðriksson, MBA, stjórnaði fundinum.

Dr. Simon Busuttil er lögfræðingur að mennt. Hann var í forsvari fyrir Evrópumiðstöð Möltu og starfaði einnig í samninganefnd Möltu í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Busuttil situr núna á Evrópuþinginu. Prófessor Roderick Pace er stjórnmálafræðiprófessor við Möltuháskóla og jafnframt formaður Evrópusamtaka Möltu. Líkt og Busuttil starfaði hann líka í samninganefnd Möltu á sínum tíma.

16. október: Afmælisráðstefna Evrópuráðsins og Mannréttindadómstólsins

Ráðstefna í tilefni af 60 ára afmæli Evrópuráðsins og 50 ára afmæli Mannréttindadómstólsins, á vegum Alþjóðamálastofnunar, Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, Alþingis, utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins.

Dagskrá var svohljóðandi:

13:30 Ráðstefnan sett
Fundarstjóri Björg Thorarensen, prófessor og forseti lagadeildar HÍ

13:35 Mannréttindasáttmáli Evrópu
Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindaráðherra

13:45 Hlutverk Evrópuráðsþingsins á sviði mannréttinda: Frá orðum til athafna. Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins

14:00 Hlutverk ráðherranefndar Evrópuráðsins
Hörður H. Bjarnason, sendiherra

14:15 Vandi Mannréttindadómstóls Evrópu: Fórnarlamb eigin velgengni. Davíð Þór Björgvinsson, dómari Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu

14:45 Fyrirspurnir og umræður

15.00 Kaffihlé

15:30 CPT – Nefnd um varnir gegn pyndingum. Er þörf á eftirliti hér?
Pétur Hauksson, fulltrúi Íslands í nefndinni og annar varaforseti

15:45 Baráttan gegn kynþáttamisrétti!
Baldur Kristjánsson, B.A. Soc, Th. M., fulltrúi Íslands í sérfræðinganefnd Evrópuráðsins

16:00 Framlag Íslands í réttindamálum barna
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu

16:15 Að byggja lönd með lögum.
Hjörtur Torfason, fulltrúi Íslands í Feneyjarnefndinni

16:30 Fyrirspurnir og umræður

16:45 Ráðstefnu slitið

 

14. október: Lögmaður Færeyja

Miðvikudaginn 14. október hélt lögmaður Færeyja, Kaj Leo Johannesen, fyrirlestur sem bar heitið „The Faroes in a globalized world – opportunities and challenges“. Rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, flutti upphafsorð og stýrði umræðum.

 

29. september: Christopher Coker, prófessor við London School of Economics og Valur Ingimundarson, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands

Christopher Coker, prófessor í alþjóðasamskiptum við London School of Economics, flutti erindi um samskipti Bandaríkjanna og Evrópu, og stjórnartíð Barack Obama. Þá flutti Valur Ingimundarson, prófessor við Sagnfræðideild Háskóla Íslands, erindi sem bar heitið The „Scramble of the Arctic“ and „Ideologies of the Return“.

10. september: Harald Dovland, samningamaður fyrir Kyoto bókuninni

Harald Dovland, einn af aðalsamningamönnum fyrir Kyoto bókuninni um loftlagsbreytingar, og Richard B. Howarth, prófessor við Dartmouth College í Bandaríkjunum og ritstjóri Ecological Economics, héldu erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar, Stofnunar Sæmundar fróða og utanríkisráðuneytisins.

Harald Dovland, varaformaður vinnuhóps Kýótó-bókunarinnar um framtíð tölulegra skuldbindinga undir bókuninni, hélt erindi sem hann nefndi „On a steep and bumpy road to Copenhagen: Status in the International Climate Change negotiations“. Richard B. Howarth, prófessor við Dartmouth College í New Hampshire og ritstjóri Ecological Economics, hélt erindi sem bar heitið „Uncertainty, Ethics and the Economics of Climate Change“.

Harald Dovland er aðstoðarframkvæmdastjóri [e. Deputy Director General] í norska umhverfisráðuneytinu. Hann hefur starfað innan ráðuneytisins frá árinu 1995 og var formaður norsku sendinefndarinnar í samningaviðræðum um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar (UNFCCC) þar til í september 2007 þegar hann hóf störf við ECON-Pöyry, alþjóðlegt ráðgjafa- og verkfræðifyrirtæki. Hann snéri aftur til umhverfisráðuneytisins árið 2008 eftir að hafa verið kosinn formaður sérstaks vinnuhóps sem hefur það hlutverk að vinna að frekari skuldbindingum við viðauka 1 við Kyoto bókunina [e. The Ad Hoc Working Group on Further Commitments for Annex I Parties under the Kyoto Protocol (AWG-KP)]. Hann starfaði sem formaður vinnuhópsins þar til í apríl sl. þegar hann var kosinn varaformaður hópsins.

 

9. september: Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins

Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála hjá Evrópusambandinu, hélt erindi um viðhorf Evrópu til Íslands í tengslum við aðildarumsóknina. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, opnaði fundinn og fundarstjóri var Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðiprófessor og stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar.

Upptaka af fundinum

 

31. ágúst: Svartbók kommúnismans

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Stofnun stjórnmála og stjórnsýslu í Háskóla Íslands og SVS, Samtök um vestræna samvinnu, héldu fund í fundarsal Þjóðminjasafnsins í hádeginu mánudaginn 31. ágúst 2009 í tilefni þess, að Háskólaútgáfan hefur gefið út bókina Svartbók kommúnismans eftir nokkra franska fræðimenn í þýðingu dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors. Þessi bók er mikil að vöxtum, 820 bls., og hefur komið út á öllum heimstungunum og hvarvetna vakið fjörugar umræður.

Sænski þingmaðurinn Göran Lindblad hafði framsögu á fundinum, en hann var aðalflutningsmaður tillögu, sem Evrópuráðið samþykkti í janúar 2006, þar sem ódæði kommúnistastjórna um allan heim voru fordæmd og hvatt til þess, að fórnarlamba kommúnismans væri minnst. Var ályktun Evrópuráðsins gerð í beinu framhaldi af Svartbók kommúnismans. Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, brugðust við framsöguerindi Lindblad. Björn Bjarnason, formaður SVS, var fundarstjóri.

12. júní 2009: Lord William Wallace

Þann 12. júní hélt Lord William Wallace, prófessor í stjórnmálafræði við London School of Economics, erindi sem bar yfirskriftina „Europe from the Atlantic to the Black Sea: How does Iceland fit in?“ Fyrirlesturinn evarhaldinn í samstarfi við Félag enskumælandi á Íslandi (The English Speaking Union of Iceland).

Glærur Lord William Wallace

 

27. maí 2009: Thorvald Stoltenberg

Miðvikudaginn 27. maí hélt Thorvald Stoltenberg, fyrrum utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs, fyrirlestur um skýrslu sína „Nordic Cooperation on Foreign and Security Policy“, sem kom út í febrúar sl. Í skýrslunni leggur Stoltenberg meðal annars til að Norðurlöndin axli sameiginlega ábyrgð á loftrýmisgæslu við Ísland. Þá mælir Stoltenberg fyrir nánara samstarfi Norðurlandanna, m.a. á sviði öryggis- og varnarmála, við friðaruppbyggingu og friðarumleitanir, öryggismál á Norðurslóðum, loftrýmis- og landhelgisgæslu, og með samvinnu í rekstri sendiráða. Að loknu erindi Stoltenberg deildu Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og Alyson Bailes, gestakennari við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, sinni sýn á efni skýrslunnar.

Fundarstjóri var Bogi Ágústsson, fréttamaður.

 

14. maí: Staða smáríkja í alþjóðasamfélaginu

Níundi og jafnframt lokafundur fundaraðar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki um framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna fór fram fimmtudaginn 14. maí undir heitinu „Staða smáríkja í alþjóðasamfélaginu“. Fundurinn stóð yfir frá kl. 13 til 16. Fyrirlesarar lokafundarins voru Herman Schwartz, prófessor við stjórnmálafræðideild Virginíu háskóla í Bandaríkjunum, Graham Avery, heiðursfélagi St. Antonys College við Oxford háskóla og heiðursframkvæmdastjóri framkvæmdastjórnar ESB, Alyson JK Bailes, gestakennari við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Peadar Kirby, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Limerick háskóla í Írlandi, og Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík.

Staða smáríkja í alþjóðasamfélaginu

13:00 Opnun fundar

13:05 American Power, Housing Finance, and the Small States

Herman Schwartz, prófessor við stjórnmálafræðideild Virginiu háskóla í Bandaríkjunum

13:25 Membership of the European Union: What to expect from Brussels

Graham Avery, heiðursfélagi St. Antonys College við Oxford háskóla og heiðursframkvæmdastjóri framkvæmdastjórnar ESB

13:45 The EU as a Strategic Shelter for Small States?

Alyson JK Bailes, gestakennari við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

14:05 Kaffihlé

14:25 The Collapse of the Celtic Tiger: Probing the Weaknesses of Ireland’s Development Model

Peadar Kirby, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Limerick háskóla á Írlandi

14:45 Economic policy in Iceland: Where do we go from here?

Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík

15:05 Pallborðsumræður

Allir ræðumenn og Baldur Þórhallsson, formaður stjórnar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki

15:50 Lokaorð

Pia Hansson,forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki

16:00 Móttaka

Fundarstjóri: Kristín A. Árnadóttir, sendiherra og skrifstofustjóri yfirstjórnar utanríkisráðuneytisins

 

7. maí 2009: Hvað er framundan í öryggis- og varnarmálum?

Áttundi fundur fundaraðar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki um framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna fór fram fimmtudaginn 7. maí undir heitinu „Hvað er framundan í öryggis- og varnarmálum?“. Fyrirlesarar voru Anders Wivel, dósent í stjórnmálafræði við Kaupmannahafnarháskóla, og Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Silja Bára fór yfir hugmyndir fræðimanna um öryggissamfélag Norðurlandanna og spurði hvort það sé í raun og veru til. Þá ræddi hún ólík viðhorf Norðurlandanna til aukins norræns samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála og hvaða áhrif það gæti haft á Ísland. Anders Wivel ræddi um áskoranir og tækifæri smáríkja á sviði öryggis- og varnamála innan Evrópusambandsins, með sérstaka áherslu á þær leiðir sem eru áhrifaríkastar til að hafa áhrif á öryggis- og varnarmálastefnu sambandsins.

 

30. apríl: Þarf að sækja strax um aðild að ESB?

 
Sjöundi fundur fundaraðar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki um framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna fer fram fimmtudaginn 30. apríl, undir heitinu „Þarf að sækja strax um aðild að ESB?“. Fundurinn fer fram í stofu 132 í Öskju en ekki í HT104 eins og fyrri fundir í fundaröð.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um mikilvægi þess að sækja strax um aðild að ESB, þar sem að erfiðara gæti verið fyrir Ísland að ná góðum samningi og jafnvel að komast inn á síðari tímapunkti. Á hinn bóginn halda margir því fram að ESB aðild sé engin skyndilausn, í ljósi þess að bæði aðildarviðræður og upptaka evrunnar taki langan tíma á meðan að vandi Íslands sé bráður. Á málþinginu munu fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi takast á um þessi mál eftir að Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), og Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins (SI) hafa haldið stutta framsögu. Í pallborði verða Lilja Skaftadóttir fyrir Borgarahreyfinguna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrir
Framsóknarflokkinn, Árni Páll Árnason fyrir Samfylkinguna, Guðfríður
Lilja Grétarsdóttir fyrir Vinstrihreyfinguna- grænt framboð, og Illugi
Gunnarson fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Fundarstjóri er Ólafur Þ. Harðarson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Fyrirhugaður fundur um sjávarútvegsstefnu ESB sem átti að fara fram á umræddum degi frestast um óákveðinn tíma af óviðráðanlegum ástæðum.

 

16. apríl 2009: Áhrif Evrópusambandsaðildar á landbúnaðar- og byggðamál

Sjötti fundur fundaraðar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki um framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna fór fram fimmtudaginn 16. apríl undir heitinu „Áhrif Evrópusambandsaðildar á landbúnaðar- og byggðamál“. Fyrirlesarar voru John Bensted-Smith, framkvæmdastjóri landbúnaðarmála hjá Evrópusambandinu, og Yves Madre, landbúnaðarfulltrúi frönsku fastanefndarinnar gagnvart ESB. John Bensted-Smith ræddi um landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins (CAP), og hvaða ferli tilvonandi aðildarríki ESB fara í gegnum áður en þau verða hluti af henni. Yves Madre fjallaði um reynslu Frakklands og þær áskoranir sem felast í sameiginlegri landbúnaðarstefnu.

Efni frá fundinum má finna á heimasíðu fundaraðarinnar

 


2. apríl 2009: Reynsla Finnlands af myntsamstarfi ESB: Að koma á stöðugleika í litlu hagkerfi

Fimmtudaginn 2. apríl hélt Ilka Mytty, fjármálaráðgjafi í finnska fjármálaráðuneytinu, fyrirlestur um reynslu Finnlands af myntsamstarfi Evrópusambandsins. Finnland glímdi við erfiða efnahagskreppu á tíunda áratug síðustu aldar og ákváðu stjórnvöld í kjölfarið að sækja um aðild að ESB. Árið 1995 gekk Finnland inn í Evrópusambandið og í upphafi árs 2002 tók landið upp evruna sem þjóðargjaldmiðil. Ilkka Mytty mun fara yfir þróun efnahags- og myntmála í Finnlandi frá upphafi 20. aldar til dagsins í dag, með sérstaka áherslu á hvernig myntsamstarfið við ESB hefur reynst Finnlandi í viðleitni landsins til að koma á efnahagslegum stöðugleika.

Glærur frá fundinum: The case of Finland and the EMU: Stabilizing a Small Economy

 


26. mars 2009: Nú erum við að tala saman! Samningatækni og samningahegðun ríkja

Fimmti fundur fundaraðar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki um framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna fór fram fimmtudaginn 26. mars undir heitinu „Nú erum við að tala saman! Samningatækni og samningahegðun ríkja“. Fyrirlesarar voru Pavel Telicka sem var aðalsamningamaður Tékklands í aðildarviðræðum við ESB og vinnur nú sem ráðgjafi í Brussel, og Silja Bára Ómarsdóttir, aðjunkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Silja Bára Ómarsdóttir fjallaði fyrst um áætlanagerð og markmiðasetningu fyrir vel heppnaðar samningaviðræður og svo tók Pavel Telicka við og ræddi um reynslu sína í aðildarviðræðum við ESB, bæði frá sjónarhorni tilvonandi aðildarríkis og Evrópusambandsins.

Efni fundarsins má finna á heimasíðu fundaraðar


12. mars 2009: Sveitafélögin og ESB: Felast tækifæri í Evrópusambandsaðild?

Fjórði fundur fundaraðar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki um framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna fór fram fimmtudaginn 12. mars undir heitinu „Sveitarfélögin og ESB: Felast tækifæri í Evrópusambandsaðild?“. Fyrirlesarar voru þær Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Anna Karlsdóttir, lektor í landfræði og ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Anna Guðrún ræddi um áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenska sveitarstjórnarstigið, og Anna Karlsdóttir um áhrif sveitarfélaga á atvinnuþróunarmál í Evrópusambandinu, með áherslu á reynslu danskra sveitarfélaga.

Efni fundarsins má finna á heimasíðu fundaraðar


6.mars 2009: Möguleikar fyrir smáríki á sviði varnar- og öryggismála

Föstudaginn 6. mars hélt Dr. Jean-Marc Rickli, fræðimaður við Háskólann í Genf, hádegisfyrirlestur í Lögbergi 101 sem bar yfirskriftina „Security options for small states“.

Jean-Marc Rickli hefur nýlokið doktorsnámi við Háskólann í Genf. Í doktorsritgerð sinni tók hann fyrir möguleika smáríkja í Evrópu á sviði varnar- og öryggismála eftir kalda stríðið, með sérstaka áherslu á Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Sviss. Fyrirlesturinn byggist á efni ritgerðarinnar, en Dr. Rickli mun meðal annars færa rök fyrir því að hefðbundnir möguleikar á sviði öryggismála fyrir smáríki í Evrópu séu nú takmarkaðri en áður þó að svigrúm til aðgerða hafi aukist.

Efni frá fundinum:

Upptaka Jean-Marc Rickli
Glærur Jean-Marc Rickli


26. febrúar 2009: Efnahagslegt öryggi smáríkja

Þriðji fundur fundaraðar Alþjóðamálastofnunar og Rannsóknaseturs um smáríki um framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna fór fram fimmtudaginn 26. febrúar undir heitinu „Efnahagslegt öryggi smáríkja“. Fyrirlesarar voru Rainer Kattel, stjórnmálafræðiprófessor við Tallinn University of Technology í Eistlandi, Gylfi Zoёga, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands, og Jónas H. Haralz, hagfræðingur og fyrrverandi bankastjóri. Rainer Kattel fjallaði um fjárhagslega veikleika smáríkja, Jónas H. Haralz um aðild Íslands að alþjóðlegum viðskipta- og fjármálasamtökum, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og tengsl við Evrópusambandið svo eitthvað sé nefnt. Gylfi Zoёga fjallaði um reynslu Íslendinga af sjálfstæðri peningamálastefnu í erindi sem hann nefnir „Hagkerfi bíður skipbrot“.

Efni fundarsins má finna á heimasíðu fundaraðar


12. febrúar 2009: Norðurlandasamstarf og samvinna Norðurlanda á alþjóðavettvangi

Annar fundur fundaraðar Alþjóðamálastofnunar um framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna fór fram fimmtudaginn 12. febrúar undir heitinu „Norðurlandasamstarf og samvinna Norðurlanda á alþjóðavettvangi“. Fyrirlesarar voru þær Alyson Bailes, gestakennari við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Gunnhildur Lilý Magnúsdóttir, stundakennari og doktorsnemi við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og gestafræðimaður við Háskólann í Lundi, og Elisabeth Johansson-Nogués, fræðimaður við Institut Universitari d’Estudis Europeus á Spáni og Utrikespolitiska Institutet í Stokkhólmi. Alyson Bailes ræddi um Norðurlandasamvinnu og samstarfið við Evrópu, Gunnhildur Lillý Magnúsdóttir tók fyrir áhrif Norðurlandanna innan ESB, og Elisabeth Johansson-Nogués fjallaði um „The Northern Dimension Policy“, sem er samstarfsvettvangur ESB, Íslands, Noregs og Rússlands um málefni norðurslóða.

Efni fundarsins má finna á heimasíðu fundaraðar


4. febrúar 2009: President Obama and Congress in 2009″

Miðvikudaginn 4. febrúar hélt Dr. James A. Thurber, prófessor og forstöðumaður Center for Congressional and Presidential Studies við American University í Washington, DC, fyrirlestur undir yfirskriftinni “President Obama and Congress in 2009”. Fyrirlesturinn var haldinn á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Dr. James A. Thurber hefur starfað við American University frá árinu 1974 og var heiðraður sem fræðimaður/ kennari ársins árið 1996. Hann er fellow í the National Academy of Public Administration. Dr. Thurber hefur skrifað fjölda bóka og yfir 80 greinar og kafla um bandaríska þingið, sambandið milli þingsins og forseta Bandaríkjanna, endurbætur innan þingsins, fjármál þess, hagsmunahópa, siðferði, kosningaherferðir og kosningar.

Þar á meðal má nefna; Rivals for Power: Presidential-Congressional Relations (2009, 4th Ed.), Campaigns and Elections, American Style (með Candice Nelson, 2009, 3rd Ed.) Congress and the Internet (með Colton Campbell, 2002), The Battle for Congress: Consultants, Candidates, and Voters (2001), Crowded Airwaves: Campaign Advertising in Elections (með Candice J. Nelson og David A. Dulio, 2000), Campaign Warriors: Political Consultants in Elections (2000), Remaking Congress: The Politics of Congressional Stability and Change (með Roger Davidson, 1995), Divided Democracy: Cooperation and Conflict Between Presidents and Congress (1991), and Setting Course: A Congressional Management Guide (með Chaleff, Loomis and Serota, first three editions starting in 1988). He co-produced three BBC-TV documentaries on the U.S. Congress and elections.

Glærur frá fundinum: Glærur Dr. Thurber


29. janúar 2009: Opnun á fundaröð Alþjóðamálastofnunar vor 2009. Fyrsti fundur: Staða smáríkja í Evrópu

Fimmtudaginn 29. janúar nk. hófst vordagskrá Alþjóðamálastofnunar með opnun á fundaröð sem bar yfirskriftina „Framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna“. Fundirnir verða alls tíu talsins og fara fram hálfsmánaðarlega. „Framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna“ er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og allra háskóla landsins. Verkefninu er ætlað að styrkja umræðu um alþjóðamál sem varða velferð og hag þjóðarinnar. Boðið verður upp á fundaraðir og einstaka viðburði í öllum háskólum landsins sem lýkur síðan með sameiginlegri alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík 14. maí.

Fyrsti fundur fundaraðar Alþjóðamálastofnunar bar heitið „Staða smáríkja í Evrópu“ og fyrirlesarar voru þeir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, og Clive Archer, prófessor í stjórnmálafræði við Manchester Metropolitan University í Englandi. Baldur ræddi um möguleika smáríkja til áhrifa innan Evrópusambandsins, og Clive mun fjallaði um viðbrögð smáríkja við áföllum, með sérstakri áherslu á Ísland.

Efni fundarsins má finna á heimasíðu fundaraðar