Jemen og Norðurskautið!

Alþjóðamálastofnun stóð fyrir tveimur fundum í vikunni um ólík málefni. Miðvikudaginn 30. mars sögðu fréttamennirnir, Sveinn H. Guðmarsson og Þórhildur Ólafsdóttir, fundargestum í Norræna húsinu frá reynslu sinni eftir nokkurra mánaða dvöl við hjálparstörf í Jemen. Fimmtudaginn 31. mars stóð stofnunin svo fyrir fundi ásamt Varðbergi og Nexus með Niklas Granholm frá FOI, sænsku varnarmálarannsóknarstofnuninni í Öskju. 

Á fundinum um Jemen lýsti Sveinn atburðarrás síðustu vikna, útskýrði stuttlega sögu landsins, gerði grein fyrir pólitíkin og mögulegum framtíðarhorfum í þessu fátæka landi á Arabíuskaganum. Þórhildur tók svo við og sagði fundarmönnum frá stefnumótum sínum við börnin í Jemen en staða þeirra er vægast sagt bágborin.

Niklas Granholm frá sænsku varnarmálarannsóknarstofnuninni, FOI, hélt erindi um öryggismál á Norðurslóðum. Granholm fjallaði um þau málefni sem efst eru á baugi varðandi Norðurskautið og þær breytingar sem ætla má að fylgi í kjölfar lofstlagsbreytinga – opnun siglingaleiða, aukin hernaðarvæðing á svæðinu, hættan á umhverfisslysum og mögulegt samstarf Norðurlanda í öryggis- og björgunarmálum.