Grænland og Norðurslóðir, þriðjudaginn 13. september

Alþjóðamálastofnun og NEXUS, rannsóknarvettvangur fyrir öryggis- og varnarmál standa að málstofu um Grænland og Norðurslóðir þriðjudaginn
13. september. Málstofan er öllum opin og verður haldin í Háskóla Íslands, Lögbergi 101 og hefst klukkan 16:30-17:30.

Rasmus Bertelsen mun ræða um helstu áskoranir sem smáríkin Ísland, Færeyjar og Grænland glíma við þegar þau mynda sér öryggisstefnu. Mun hann fjalla um það í sögulegu samhengi og leggja áherslu á kerfislegar- umhverfislegar- og pólitískar áskoranir. Mun hann skoða Ísland sem fordæmi fyrir  sjálfsstjórn Grænlands og Færeyja í því samhengi.

Damien Degeorges mun fjalla um uppbyggingu Grænlenska ríkisins og leið landsins að sjálfstæði. Hann mun sérstaklega taka fyrir þær áskoranir sem fylgja uppbyggingu efnahags og mannauðs og setja það í samhengi við náttúruauðlindirnar sem þar er að finna, orkuöryggi og  landfræðilega- og pólitíska stöðu Grænlands á Norðurslóðum.