Magnaður fyrirlestur um Málefni flóttamanna og stöðuna í Mið-Austurlöndum

Fyrsti fundur af fjórum um Málefni flóttamanna og stöðuna í Mið-Austurlöndum var haldinn í gær 14.september í HÍ þar sem Sigríður Víðis kynnti bók sína „‘Ríkisfang: Ekkert“. Lína Mazar ein flóttakvennana sem býr í dag á Akranesi talaði um veru sína í flóttamannabúðunum í Írak og hörmungarnar sem fylgdu því.

Salurinn tók 150 manns og var fullt út að dyrum og var ekki fræðilegur möguleiki að koma fleirum inn.

Það var rafmagnað loftið í salnum þegar Lína Mazar byrjaði að tala, á íslensku, og mátti heyra saumnál detta, svo magnaður var fyrirlestur hennar. Aðdáun og virðing gagnvart þessari konu skein í andlitum gesta og var varla þurrt auga í salnum.

Sigríður kynnti síðan bók sína og það var augljóst að hún átti salinn. Hún fjallaði um bókina, ferilinn og ferðalögin sem fylgdu því að láta sögu þessara kvenna verða að veruleika og það má með sanni segja að þessi bók mun slá í gegn og fara á metsölulistann hjá bókasölum.

Fyrirlesturinn var frábær í alla staði og gestir voru svo ánægðir að eintök bókarinnar sem voru seld á staðnum seldust upp á mettíma. Hægt er að kaupa bókina í Eymundsson.

Það er nauðsynlegt að ræða málefni flóttamanna, enda kominn tími til og við mælum eindregið með að fara á alla fundina sem tengjast þessu málefni. Þeir verða allir auglýstir á nokkrum stöðum, þ.á.m. á FB, viðburði HÍ og á heimasíðu Alþjóðamálastofnun.