Hvernig velur maður flóttafólk?

Í tilefni af útkomu bókarinnar Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur standa Alþjóðamálastofnun og Forlagið fyrir fundaröð um Málefni flóttamanna og stöðuna í Mið-Austurlöndum, á miðvikudögum í Odda 101, frá kl.12:25-13:20.

Miðvikudaginn 21. september fjallaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir um störf sín með friðarsamtökum ísraelskra og palestínskra kvenna og hvort mögulegt væri að semja um frið í Palestínu. Það var troðið út fyrir dyr, enda mjög vel heppnaður fundur sem fjallaði um efni sem er á vörum allra í dag. Tímasetningin var sérstaklega góð þessa vikuna þar sem Palestína afhenti umsókn sína til Sameinuðu Þjóðanna föstudaginn 23. september.

Hvernig velur maður flóttafólk?

Við höldum áfram að fjalla um málefni flóttamanna og stöðuna í Mið-Austurlöndum og í þetta skipti verður farið nánar út í það hvernig flóttafólk er valið og hverjir fá að flytja úr flóttamannabúðum til að búa í framandi landi, hvort sem það eru eldri hjón eða kona með 3 börn. Ingibjörg Broddadóttir, varaformaður flóttamannanefndar, segir frá ferðum sínum með íslensku sendinefndinni sem fer á vettvang og tekur viðtöl við flóttamenn. Kristján Sturluson, framkvæmdarstjóri Rauða Kross Íslands, fjallar um flóttafólk og í hvaða stöðu þau eru sem eiga engin skilríki.

Fundarstjóri er Ragna Árnadóttir, fyrrum dóms-og mannréttindamálaráðherra.