Rússland – áskoranir framtíðarinnar

Henrik Lax, finnskur stjórnmálamaður og sérfræðingur um rússnesk stjórnmál, mun halda fyrirlestur um þær áskoranir sem Rússland stendur frammi fyrir innanlands og á alþjóðavettvangi. Fyrirlesturinn er á vegum Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, og English Speaking Union á Íslandi, og verður haldinn þriðjudaginn 11. október í sal Þjóðminjasafnsins frá kl.12-13.

Rússland gegnir ekki sama hlutverki á alþjóðavettvangi og áður en lætur þó enn að sér kveða í evrópskum öryggismálum. Þróun rússneskra innanríkismála er að mörgu leyti önnur en almennt í lýðræðisríkjum og hlutur ríkisvaldsins á sviði efnahagsmála er mikill. Samstarf Rússa og annarra Evrópuþjóða hefur dafnað á ýmsum sviðum en einnig hefur komið til árekstra, til dæmis vegna kaupa á olíu og gasi. Rússar efla herafla sinn til dæmis í nágrenni við Finnland og þeir ætla að láta að sér kveða á norðurslóðum.

Henrik Lax er kunnur finnskur stjórnmálamaður og fyrrverandi ESB-þingmaður.  Hann hefur verið forsetaframbjóðandi fyrir flokk sinn, Sænska þjóðarflokkinn í Finnlandi. Þá hefur hann tekið virkan þátt í alþjóðasamstarfi einkum á norrænum og evrópskum vettvangi. Hann hefur jafnan verið talsmaður markvissrar stefnu í varnarmálum, þar á meðal vakið máls á aðild Finnlands að NATO.

Allir velkomnir