Viðburðir haustönn 2011

Þriðjudaginn 11. október hélt Henrik Lax, finnskur stjórnmálamaður og sérfræðingur í rússneskum stjórnmálum, erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar, Varðbergs og English Speaking Union á Íslandi í sal Þjóðminjasafnsins, frá kl. 12 til 13. Lax fjallaði um þær áskoranir sem Rússland stendur frammi fyrir inn á við og í samskiptum við aðrar þjóðir.

Hér má finna fyrirlestur Henrik Lax

Miðvikudaginn 12. október, var Bjarni Már Magnússon, doktorsnemi í þjóðarrétti með erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar og NEXUS, rannsóknarvettvangs fyrir öryggis-og varnarmál í Öskju stofu 132, frá kl.12:25-13:20. Í erindi sínu fjallaði Bjarni Már um hvernig ákvæði þeirra frumvarpa sem lögð hafa verið fyrir Alþingi á síðustu árum um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum fara í bága við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.

Hér má finna fyrirlestur Bjarna

 

Alþjóðamálastofnun stóð fyrir málstofu um jafnréttismál í Evrópu, föstudaginn 4. nóvember í Norræna húsinu frá kl. 13:30 til 15:00. Rachel Silvera, prófessor við París X háskólann, hélt erindi um afleiðingar fjármálakrísunnar á kynjajafnrétti í Evrópu, og Sigurður Jóhannesson, aðjunkt við hagfræðideild HÍ, fjallaði um afleiðingar kreppunnar hér á landi á konur og karla. Lilja Mósesdóttir, þingkona og hagfræðingur, veitti andsvar. Málstofan er liður í dagskrá afmælisráðstefnu Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og er jafnframt styrkt af franska sendiráðinu. Dagskrá ráðstefnunnar var mjög yfirgripsmikil og viðfangsefnin eftir því fjölbreytt, eins og t.d. Dominique Strauss-Kahn málið, uppgjörið við hrunið, konur í skáldskap karla, Tobba Marinós og bókmenntastofnunin, hernámssögur og ástandskonur,  ítalskir kvenfútúristar, kynjajafnrétti í Kína, eldhúsið sem pólitískt rými, villimenn og víkingar, konur í friðargæslunni, eiginkonur föðurlandssvikara, og sögur 13 rauðsokka. Hér má nálgast dagskrá ráðstefnunnar í heild sinni.

Sama dag kynntum við þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna og þróunarsamvinnusvið utanríkisráðuneytisins, frá kl. 12 til 13 í Norræna húsinu. Kalid Mhalik, framkvæmdastjóri þróunarskýrslusviðs Sameinuðu þjóðanna, kom sérstaklega til landsins til að kynna skýrsluna í ár.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um fundinn.

 

 

SMÁRÍKI Í NORÐRI OG VIÐ EYSTRASALTIÐ: ÁSKORANIR Í EFNAHAGSMÁLUM

Málþing
á vegum Alþjóðamálastofnunar HáskólaÍslands í samstarfi við
rannsóknasetur og háskóla á Norðurlöndum og við Eystrasaltið.
Viðfangsefni málþingsins er að varpa ljósi á þær leiðir sem þessi
smáríki hafa valið til að bregðast við áskorunum alþjóðasamfélagsins á
sviði efnahagsmála.

Framsögumenn eru Gylfi Zoëga, prófessor við hagfræðideild HÍ og Baldur Þórhallsson, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ.
Að auki verða fyrirlesarar frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Færeyjum og Grænlandi.

Þátttaka
í málþinginu er öllum opin en vinsamlegast skráið ykkur til þátttöku
með því að senda tölvupóst á netfang Alþjóðamálastofnunar ams@hi.is

Málþingið
markar upphaf tveggja ára rannsóknarverkefnis, styrkt af norrænum
rannsóknarsjóði á sviði hugvísinda og félagsvísinda (NOS-HS).

Dagskrá málþingsins má finna hér: