Utanríkisráðherra Palestínu á fundi á vegum Alþjóðamálastofnunar

Utanríkisráðherra Palestínu, Dr. Riyad al-Maliki, hélt erindi í Norræna húsinu, fimmtudaginn 15. desember, á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins, en nú eru rúmar tvær vikur síðan Alþingi Íslendinga samþykkti viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu.

Dr. Riyad al-Maliki, utanríkisráðherra Palestínu, heimsótti Ísland dagana 14. til 16. desember í boði Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra. Á meðan á dvölinni stóð átti ráðherrann fundi með forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Hann heimsótti líka Alþingi og fundaði með utanríkismálanefnd og hitti Jón Gnarr borgarstjóra. Þess má geta að fimmtudaginn 15. desember var haldin athöfn í Þjóðmenningarhúsinu þar sem Össur Skarphéðinsson afhenti Dr. Maliki viðurkenningaskjal Íslands fyrir Palestínu og brutust út fagnaðarlæti. Þetta var merkur viðburður og markaði þetta ákveðin tímamót þar sem Palestína hefur verið viðurkennt sem sjálfstætt ríki af fyrsta vestræna ríkinu, Íslandi.