Allar leiðir liggja til Damaskus

Opinn fundur á vegum Alþjóðamálastofnunar um Sýrland haldinn í Odda 101 fimmtudaginn 23. febrúar.

Staðan í Sýrlandi versnar dag frá degi en hernaður stjórnvalda gegn eigin borgurum hefur leitt af sér fordæmingu alþjóðasamfélagsins, bæði á vettvangi Arababandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Tildrög atburðanna í Sýrlandi tengjast án nokkurs vafa arabíska vorinu svonefnda en óstöðugleiki í Sýrlandi nú bergmálar á svæðinu öllu, vestur yfir til Líbanons en einnig austur til Íraks og áfram til Írans, þar sem Assad Sýrlandsforseti á helst bandamenn. Þræðir átakanna í Sýrlandi liggja víðar, þá má rekja til klofningsins innan íslam en jafnframt hangir á spýtunni deilan um kjarnorkuáætlanir Írana. Vaxandi líkur eru á því að til tíðinda muni draga í þeim efnum.

 

Davíð Logi Sigurðsson hefur undanfarin fjögur ár verið á vettvangi þeirra atburða sem hér er vísað til. Hann starfaði hjá Sameinuðu þjóðunum í Líbanon og um hríð í Jerúsalem en er nú sérfræðingur í utanríkisráðuneytinu. Davíð Logi fjallaði meðal annars um sambandið milli Sýrlands og Líbanons, stöðuna eins og hún er nú og velti fyrir sér þróun mála á næstunni.