Haustdagskrá Alþjóðamálastofnunar að taka á sig mynd

Það er margt spennandi framundan hjá Alþjóðamálastofnun og Rannsóknarsetri um smáríki. Stofnunin hefur hlotið styrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins kennt við Jean Monnet til að halda áfram að bjóða upp á fræðandi fyrirlestra og upplýsta umræðu um Evrópusamrunann á Íslandi. Fundirnir verða haldnir í hádeginu á föstudögum en í stað þess að bjóða bara upp á einn fyrirlesara hverju sinni verða fundirnir nú í formi málstofa með tveimur frummælendum. Þá fáum við íslenska fræðimenn til að taka þátt sömuleiðis og veita frummælendum andsvar.

Nú sem fyrr munu stofnanirnar líka standa fyrir margs konar öðrum málstofum og fundum en sem dæmi má nefna opna fyrirlestra um bandarísku kosningarnar, áframhaldandi umfjöllun um ástandið í Mið-Austurlöndum, afvopnunarmál. málefni Norðurslóða, og svo mætti lengi telja.