Þorskastríðin endurskoðuð – hljóðupptaka frá fyrirlestri Ingo Heidbrink

Haustdagskrá Alþjóðamálastofnunar hófst föstudaginn 24. ágúst með fyrirlestri Ingo Heidbrink, prófessors við Old Dominion University í Norfolk í Bandaríkjunum. Rannsóknir á sögu þorskastríðanna hafa liðið fyrir það að gögn um átökin í skjalasafni Atlantshafsbandalagsins hafa ekki verið aðgengileg. Á síðustu árum hefur hins vegar orðið breyting á: Fræðimönnum hefur verið leyft að skoða ýmsar heimildir um þessa sögu og hafa þeir því endurskoðað fyrri sjónarmið um hana. Í fyrirlestrinum var vikið að þessari nýju sýn og vakið máls á því hvort hinar nýju heimildir kalli á heildarendurskoðun á sögu þorskastríðanna, eða hvort þær fylli aðeins inn í þá mynd sem hefur verið löngum verið dregin upp af átökunum.  

Hljóðupptaka frá fundinum. 

Ingo Heidbrink er sagnfræðingur með útvegssögu að sérsviði. Frá árinu 2008 hefur hann verið prófessor á því sviði við Old Dominion University í Norfolk í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Heidbrink nam félags- og hagsögu við Hamborgarháskóla og vann við ýmis sjóminjasöfn í Þýskalandi uns hann hóf kennslu á háskólastigi við háskólann í Bremen árið 2000. Hann hefur sérhæft sig í sögu fiskveiðnideilna og úthafsveiða, Meðal margra verka hans má telj ítarlegasta yfirlit sem samið hefur verið um fiskveiðar Þjóðverja hér við land og hlutdeild þeirra í þorskastríðunum og öðrum landhelgisdeilum. Ingo Heidbrink er meðforseti North Atlantic Fisheries History Association og framkvæmdastjóri International Commission for Maritime History.