Af gefnu tilefni

Vegna spurninga stjórnarmanna í samtökunum Íslenskt þjóðráð í Mbl. 16. nóvember sl.

Inngangur Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands er rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun sem starfrækt er við Háskóla Íslands. Eins og aðrar rannsóknastofnanir við Háskóla Íslands er Alþjóðamálastofnun sjálfstæð akademísk stofnun. Forseti Félagsvísindasviðs, að höfðu samráði við forseta Hugvísindasviðs, skipar stofnuninni sjö manna stjórn til þriggja ára í senn. Í samræmi við reglur um Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands frá 15. júní 2010, tilnefnir stjórn Félagsvísindasviðs tvo stjórnarmenn, stjórn Hugvísindasviðs tvo, utanríkisráðuneytið einn, Alþýðusamband Íslands einn og Samtök iðnaðarins einn. Forseti Félagsvísindasviðs ákveður hver gegnir formannsstörfum. Meirihluti stjórnarmanna eru fræðimenn við Háskóla Íslands, og formaður og varaformaður stjórnar eru ávallt fræðimenn við Háskóla Íslands. Stjórnarformaður framfylgir ákvörðunum stjórnar og veitir forstöðumanni ráðgjöf við daglegan rekstur stofnunarinnar.

1.        Um styrki
Fjárframlög innlendra aðila til Alþjóðamálastofnunar árið 2012 eru fimm milljónir króna frá Háskóla Íslands (fast framlag til stofnunarinnar frá Félagsvísindasvið), tvær milljónir frá utanríkisráðuneytinu og fimm hundruð þúsund krónur frá Alþýðusambandi Íslands (samningurinn við ASÍ er núna útrunninn og tekin hefur verið ákvörðun um að endurnýja ekki samninginn að sinni). Þá hefur stofnunin sótt um og fengið norræna og evrópska rannsóknarstyrki sem tengjast verkefnum og rannsóknum á sviði stofnunarinnar.

2.        Um markmið
Markmið Alþjóðamálastofnunar er að standa fyrir upplýstri og fræðandi umræðu á sviði alþjóðamála og stuðla að rannsóknum og útgáfu á sama sviði. Stofnunin hefur lítil fjárráð sem takmarkar þau verkefni sem hún getur tekið að sér. Þegar leitað er til stofnunarinnar um samstarf er farið eftir verklagi sem stjórn Alþjóðamálastofnunar hefur ákveðið. Þar er gert ráð fyrir því að stofnunin taki ekki þátt í slíku samstarfi nema að stofnunin komi að skipulagningu viðburðarins og að um akademískan og fræðandi viðburð sé að ræða.

3.        Um skipan stjórnar
Það fer eftir eðli máls hverju sinni hvort aðrir en eingöngu fulltrúar innan háskólans sitji í stjórnum stofnana háskólans, en mikilvægt getur verið að fá sjónarmið utanaðkomandi aðila í stjórnir akademískra stofnana. Ávallt er við það miðað að meirihluti stjórnar sé skipaður fulltrúum akademískra starfsmanna.  Í tilviki Alþjóðamálastofnunar er meirihluti stjórnarmanna fræðimenn við Háskóla Íslands og formaður og varaformaður stjórnar eru fræðimenn við háskólann, sem fyrr greinir.

4.        Um áhrif á akademíska umfjöllun
Samtök eða félög, hverju nafni sem nefnast, sem veita fé til Háskóla Íslands, hafa ekki áhrif á akademíska umfjöllun.

5.        Um synjun stjórnar
Íslenskt þjóðráð leitaði eftir samstarfi við Alþjóðamálastofnun varðandi málstofu sem þegar var búið að skipuleggja og að auki barst erindið stofnuninni mjög seint, eða rétt um tveimur vikum fyrir ráðgerða málstofu. Forstöðumaður leitaði álits stjórnarmanna sem staðfestu að erindi Íslensks þjóðráðs uppfylltu ekki verklag stofnunarinnar. Á grundvelli þessa álits synjaði forstöðumaður erindi Íslensks þjóðráðs.