Þróun sjávarútvegsstefnu ESB – reynsla Dana

Föstudaginn 14. júní kl. 12:00-13:00 heldur Ole Poulsen, einn helsti sérfræðingur Dana í sjávarútvegsmálum og fyrrverandi sviðsstjóri sjávarútvegsmála í landbúnaðar-, sjávarútvegs- og matvælaráðuneyti Danmerkur, erindi um sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB í sögulegu ljósi.

Sjávarútvegsstefnan á upphaf sitt að rekja til stækkunar íslenskrar landhelgi og þorskastríðanna í hafinu umhverfis Ísland. Frá því að sameiginlega sjávarútvegsstefna aðildarríkja ESB var sett á laggirnar árið 1982 hefur hún verið endurskoðuð á tíu ára fresti. Nýverið komu ráðherraráð ESB og Evrópuþingið sér saman um breytingar á henni. Rætt verður um mikilvægustu breytingarnar sem gerðar hafa verið á stefnunni og þær settar í samhengi við íslensk lög þar sem það á við.

Fundurinn er hluti af fundaröð Alþjóðamálastofnunar Evrópusamræður 2012-2013

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands heldur tíu málstofur um Evrópusamrunann. Stofnunin hlaut styrki frá Evrópustofu og úr Jean Monnet sjóði ESB til að stuðla að upplýstri umræðu um Evrópumál á Íslandi.