Hefur kynjajafnrétti stuðlað að auknum Evrópusamruna?

Föstudaginn 21. júní kl. 12:00-13:00 heldur Agnes Hubert fyrirlestur um kynjajafnrétti og Evrópusamrunann. Fyrirlesturinn fer fram í Norræna húsinu. Flestir eru sammála um að ESB hafi haft mikil áhrif á þróun jafnréttismála í aðildarríkjum ESB. Krafan um launajafnrétti hefur verið til staðar í sáttmálum sambandsins frá árinu 1958 og frá þeim tíma hefur ESB markvisst þróað stefnu um jafnréttismál kynjanna. Kynjajafnrétti er nú eitt af grundvallaratriðum Evrópusamrunans og þarf að samþætta það inn í öll stefnumarkmið ESB. Jafnréttisstefnan er heildstæð og samanstendur af löggjöf, áætlunum og verkefnum. Í erindinu verður fjallað um hvernig áhrif frá stofnunum, ýmsum þátttakendum og háskólasamfélaginu hafa mótað stefnuna, helstu skref sem hafa verið tekin innan hennar og árangurinn metinn. Í framhaldinu verður sjónarhorninu beint að kynjajafnrétti og áhrifum þess á ESB. Agnés Hubert heldur því fram að kynjajafnrétti hafi verið mikilvægur þáttur í samruna Evrópu og jafnvel enn mikilvægari nú en áður ef horft er til þeirra efnahagslegu, félagslegu og pólitísku áskorana sem ESB stendur frammi fyrir.

Agnes Hubert er hagfræðingur og stjórnmálafræðingur og starfar við stefnumótun í Evrópumálum hjá framkvæmdastjórn ESB. Hún hefur einnig starfað sem sérfræðingur hjá Evrópuþinginu og sem blaðamaður með efnahagsmál sem sérsvið.   

Fundurinn er hluti af fundaröð Alþjóðamálastofnunar Evrópusamræður 2012-2013

 Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands heldur tíu málstofur um Evrópusamrunann. Stofnunin hlaut styrki frá Evrópustofu og úr Jean Monnet sjóði ESB til að stuðla að upplýstri umræðu um Evrópumál á Íslandi.