Breski sjálfstæðisflokkurinn, Íhaldsflokkurinn og viðhorf til Evrópusamrunans í Bretlandi

Miðvikudaginn 3. júlí kl. 12:00-13:15 í Lögbergi 101:

Í Bretlandi hafa efasemdir um aðild að Evrópusambandinu löngum verið meiri en í öðrum aðildarríkjum. Efasemdaraddirnar eru nú svo háværar að sá möguleiki virðist vera fyrir hendi að umtalsverðar breytingar verði á sambandi Bretlands við Evrópusambandið. Í fyrirlestrinum verður fjallað um vaxandi efasemdir í garð Evrópusambandsins í breskum stjórnmálum og í því sambandi einblínt á Breska sjálfstæðisflokkinn (UKIP) og Íhaldsflokkinn. Breski sjálfstæðisflokkurinn, sem leggur mikla áherslu á að ýta undir efasemdir um Evrópusambandsaðild Bretlands og vill að Bretland segi sig úr sambandinu, hefur aukið fylgi sitt gríðarlega undanfarið og því er spáð að flokkurinn fái flest atkvæði í kosningunum til Evrópuþingsins í Bretlandi á næsta ári. Íhaldsflokkurinn er klofinn í afstöðu sinni til Evrópusambandsins og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur lofað því að ef Íhaldsflokkurinn verður kosinn til valda árið 2015 muni ríkisstjórnin endursemja við Evrópusambandið og í framhaldi af því setja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í fyrirlestrinum verður farið yfir viðhorf almennings í Bretlandi til Evrópusamrunans og spurt – ef haldin verður þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Bretlands að Evrópusambandinu, hver verður niðurstaðan? Að lokum verður efni fyrirlestrarins sett í samhengi við íslensk stjórnmál í dag.           

Dr. Philip Lynch er dósent í stjórnmálafræði við háskólann í Leicester og dr. Richard Whitaker er lektor í stjórnmálafræði við sama skóla.  

Fundarstjóri er dr. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Fundurinn er hluti af fundaröð Alþjóðamálastofnunar Evrópusamræður 2012-2013. A lþjóðamálastofnun Háskóla Íslands heldur tíu málstofur um Evrópusamrunann. Stofnunin hlaut styrki frá Evrópustofu og úr Jean Monnet sjóði ESB til að stuðla að upplýstri umræðu um Evrópumál á Íslandi.