Ísland í NATO og NATO á Íslandi: Tengsl Íslands og NATO árið 2013

Tengsl Íslands og NATO árið 2013
Málþing í Þjóðminjasafninu 27. september kl. 15.30-18.05
 
Föstudaginn 27. september klukkan 15.30 efna NEXUS, Rannsóknarvettvangur á sviði öryggis- og varnarmála, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, til málþings um tengsl Íslands og NATO árið 2013. Málþingið er opið öllum og verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu frá kl. 15.30 til 18.05.

Flutt verða stutt erindi og efnt til pallborðsumræðna.
Alyson Bailes, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir og Françoise Perret, starfsmenn NATO í Brussel, fjalla almennt um varnarstefnu NATO og stöðu Íslands innan hennar og taka síðan þátt í pallborðsumræðum undir stjórn Björns Bjarnasonar, formanns Varðbergs.

Á síðari hluta málþingsins fjalla Martin Sövang um Landhelgisgæslu Íslands og Jón B. Guðnason um íslenska loftrýmiseftirlitið með tilliti til NATO-samstarfsins. Þá ræðir Björn Karlsson, prófessor við Háskóla Íslands, um NATO-mannvirki á Íslandi og eignarhald á þeim. Þeir taka síðan þátt í pallborðsumræðum undir stjórn Gustavs Péturssonar, doktorsnema og stjórnarmanns í NEXUS.

Málþingið fer fram á ensku.

Birna Þórarinsdóttir, stjórnmálafræðingur, verður fundarstjóri.