Sjálfstætt Skotland? Nýtt smáríki í Norður-Evrópu

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands í samstarfi við Norræna húsið, Nexus og Kjarnann boðar til fundar um sjálfstæðismál Skotlands, þriðjudaginn 22. október, frá kl. 12:00 til 14:00 í Norræna húsinu.

Sjálfstætt Skotland? Nýtt smáríki í Norður-Evrópu

Angus Robertson, þingmaður skoska þjóðarflokksins
Staða Skotlands í ljósi mögulegs sjálfstæðis

Angus Robertson mun fjalla um það hlutverk sem sjálfstætt Skotland myndi leika á svæðinu með því að skilgreina utanríkis- og varnarstefnu þess. Robertson mun einnig fjalla um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands almennt og ræða atburði sem leiddu til hins sögulega Edinborgar samkomulags. Hann mun jafnframt setja málið í samhengi við áskoranir og tækifæri sem snerta Skotland og nágranna þess.   

Colin Fleming, fræðimaður við háskólann í Edinborg
Skosk varnarstefna: Innleiðing á norrænu módeli í sjálfstæðu Skotlandi?

Sjálfstætt Skotland yrði skilgreint sem smáríki í Norður-Evrópu og myndi þar af leiðandi vera í gjörólíkri stöðu en Bretland þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Í erindinu mun Colin Fleming fjalla um hvað þarf til þess að afmarka öryggisstefnu fyrir smáríki í Norður-Evrópu og skoða reynslu Norðurlandanna varðandi það hvernig hægt er að byggja upp nútímalegan her í smáríki. Erindi hans byggir á grein sem hann skrifaði ásamt Mikkel Vedby Rasmussen.

Að erindum þeirra loknum taka við pallborðsumræður  ásamt Stefáni Pálssyni, sagnfræðingi, Kötlu Kjartansdóttur, MSc í þjóðernisfræðum og Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóra Kjarnans, en þau hafa öll stundað nám í Skotlandi.