Frá Afganistan til Sýrlands: Heyra hernaðaríhlutanir sögunni til?

OPINN FUNDUR MIÐVIKUDAGINN 20. NÓVEMBER KL. 12-13 Í NORRÆNA HÚSINU

Frá Afganistan til Sýrlands:

Heyra hernaðaríhlutanir sögunni til?

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um hernaðaríhlutanir í samhengi við átökin í Sýrlandi og yfirvofandi brottför herliðs NATO frá Afganistan. Færð verða rök fyrir því að reynsla vestrænna ríkja, sérstaklega Bandaríkjanna, í Írak og Afganistan leiði til þess að þau muni síður taka þátt í stórtækum hernaðaríhlutunum í framtíðinni. Þar með er ekki sagt að þau taki ekki þátt í smærri íhlutunum, eins og að nota fjarstýrðar sprengjuflaugar (dróna) eða senda hermenn á átakasvæði í stuttan tíma. Friðargæsla eins og hún mótaðist hjá Sameinuðu þjóðunum mun jafnframt halda áfram, en stórtækar íhlutanir, þar sem tugþúsundir hermanna koma við sögu, verða að öllum líkindum sjaldgjæfar. Afleiðingarnar verða mögulega þær að komið verður í veg fyrir misheppnaðar íhlutanir (næstu „Sómalíu“ eða „Írak“), en einnig að ekki verður lagt í nauðsynlegar íhlutanir (næsta „Rúanda“). Færð verða rök fyrir því að ólíklegt sé að hættuleg ríki notfæri sér það að hernaðaríhlutanir verði að öllum líkindum sjaldgæfari í framtíðinni.      

Andrew Cottey er dósent og deildarforseti Stjórnmálafræðideildar háskólans í Cork á Írlandi. Hann gaf nýverið út bókina Security in 21st Century Europe, 2nd ed. (Palgrave Macmillan, 2013).

Fundarstjóri: Alyson Bailes, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Fundurinn er á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í samstarf við Norræna húsið.