Öndvegissetur í smáríkjafræðum, vel heppnuð ráðstefna um norðurslóðir, fjölbreyttir opnir viðburðir og rannsóknasamstarf erlendis

Það var mikið um að vera hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands árið 2013.

Öndvegissetur í smáríkjafræðum

Rannsóknasetur um smáríki, sem heyrir undir stofnunina, hlaut öndvegisstyrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins og mun því næstu þrjú árin starfa sem Jean Monnet öndvegissetur (Jean Monnet Centre of Excellence).

Í tengslum við styrkinn mun rannsóknasetrið leggja áherslu á þrjá tiltekna þætti.

Í fyrsta lagi að efla þverfaglegar rannsóknir og kennslu um Evrópusamrunann, Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Í öðru lagi að stofna alþjóðlegan skóla um smáríki, stjórnsýslu þeirra og stöðu innan Evrópusambandsins. Í þriðja lagi að gefa út kennslubók ætlaða framhalds- og háskólanemum á íslensku um Evrópusamrunann. Að auki mun setrið eftir sem áður standa fyrir margvíslegum fundum og ráðstefnum, og útgáfu um Evrópumál.

Öndvegisstyrkurinn er mikil viðurkenning á starfi Smáríkjasetursins sem hefur sérhæft sig í stöðu smáríkja í Evrópu. Stofnun öndvegisseturs er framhald á fyrri viðurkenningum sem setrið hefur hlotið en þar má helst telja styrkveitingar úr Menntaáætlun ESB til reksturs sumarskóla um smáríki síðastliðin tólf ár og styrki til kennsluþróunar í Evrópufræðum undir forystu Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði, í samstarfi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Að umsókninni stóðu, auk Baldurs, Pia Hansson, forstöðumaður Rannsóknaseturs um smáríki, Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, Ómar H. Kristmundsson, prófessor í opinberri stjórnsýslu, Alyson Bailes, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild, og Maximilian Conrad, lektor við Stjórnmálafræðideild.

Að auki hlaut setrið sérstakan styrk til að halda alþjóðlega ráðstefnu um hvernig best má tryggja góða stjórnsýsluhætti í smáríkjum og takast á við þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir í alþjóðasamfélaginu.

Rannsóknasetur um norðurslóðir – Centre for Arctic Policy Studies (CAPS)

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands opnaði nýtt rannsóknasetur um norðurslóðir með því að bjóða til alþjóðlegrar ráðstefnu um áskoranir og tækifæri á norðurslóðum á Hótel Sögu 18.-19. mars 2013. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, opnaði ráðstefnuna ásamt Össuri Skarphéðinssyni.

Hér má sjá upptöku frá opnunni: http://www.youtube.com/watch?v=nDs1HaFDY4s

Ráðstefnan var vel sótt og mikið fjallað um hana í fjölmiðlum. Meðal annars var rætt um umhverfismál, efnahagsmál, öryggismál og Norðurlöndin. Hér má lesa helstu niðurstöður frá ráðstefnunni: /wp-content/uploads/old/summary_report_trans_arctic_a5.pdf

Nýja rannsóknasetrið um norðurslóðir er vettvangur fyrir þverfaglegt samstarf á sviði norðurslóðarannsókna með áherslu á hlutverk og stefnu ríkja, stofnana og óopinbera aðila í stjórnarháttum, menningu og samfélagi á norðurslóðum. Setrið hefur nú þegar staðið fyrir opnum viðburðum og annarri ráðstefnu um norðurslóðir. Sjá nánar á www.caps.hi.is

Opnir viðburðir

Evrópufundaröð Alþjóðamálastofnunar (Europe Dialogues) lauk á fyrri hluta ársins með sjö opnum fundum:

8. mars – Peter Katzenstein

Skuldakreppan: Stórveldi og smáríki innan Evrópusambandsins

3. apríl –Vivien Pertusot

Evrópusambandið: Breytilegur samruni eða ein leið fyrir alla?

5. apríl – Guillaume Xavier-Bender

Verndarstefna eða frjálshyggja? Evrópski markaðurinn og staða Evrópusambandsins í alþjóðastjórnmálum

12. apríl – Peadar Kirby

Smáríki á evrusvæðinu í krísu: Lærdómar frá Írlandi

14. júní – Ole Poulsen

Þróun sjávarútvegsstefnu ESB – reynsla Dana

21. júní – Agnes Hubert

Hefur kynjajafnrétti stuðlað að auknum Evrópusamruna?

3. júlí – Philip Lynch og Richard Whitaker

Breski sjálfstæðisflokkurinn, Íhaldsflokkurinn og viðhorf til Evrópusamrunans í Bretlandi

Auk þess stóð Alþjóðamálastofnun fyrir fjölbreyttum opnum viðburðum á árinu, í samstarfi við ýmsa aðila:

10. apríl – Kosningafundur um norræn málefni 

Fulltrúar stjórnmálaflokka ræddu um norræna samvinnu og helstu málefnin sem henni tengjast, eins og norðurslóðamál, sameiginleg varnarmál, Norðurlandasamstarf, ESB og fleira.

23. ágúst – Mart Nutt og Pawel Ukielski

Örlög Eistlands og Póllands

26. ágúst – Patricia Cochran

Viðhorf frumbyggja til loftslagsbreytinga í hnattrænu samhengi

4. september – Kosningar í Noregi

Umræður um þingkosningarnar í Noregi

6. september – Robert Wade

Hvers vegna ójöfn tekjuskipting skapar hættu fyrir lýðræðið – og loftslag í heiminum

10. september – NEI! Uppreisning gegn Pinochet

Umræðufundur og kvikmyndasýning um valdarán Pinochet í Chile

13. september – Catherine de Wenden

Hnattvæðing fólksflutninga í ljósi stöðu suðlægra ríkja

18. september – Marc Lanteigne

Hvað vill Peking? Næstu skref í utanríkisstefnu Kína

19. september – Knud Bartels

Nútíð og framtíð Atlantshafsbandalagsins: Aðgerðir og verkefni

4. október – Ráðstefna á vegum Rannsóknaseturs um norðurslóðir

Tilkall til norðursins:  Vestnorræn norðurslóðavæðing

7. október – Umræðufundur

Fimm ár frá hruni – heyra skattaskjól sögunni til?

23. október –  Angus Robertson, Colin Fleming, Stefán Pálsson, Katla Kjartansdóttir og Þórður Snær Júlíusson

Sjálfstætt Skotland? Nýtt smáríki í Norður-Evrópu

25. október – Kristinn Schram, Katla Kjartansdóttir, Margrét Cela, Bjarni Már Magnússon og Sumarliði Ísleifsson

Norðrið nálgast: Smáþjóðir og áskoranir norðurslóða

13. nóvember – Gunnhildur Lily Magnúsdóttir

Græn og jafnréttissinnuð Norðurlönd: Kynjuð loftslagsstefna?

20. nóvember – Andrew Cottey

Frá Afganistan til Sýrlands: Heyra hernaðaríhlutanir sögunni til?

22. nóvember – Eygló Harðardóttir

„Gróska og lífskraftur“: Áætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2014

27. nóvember – Camilla Gunell

Álandseyjar – Herlaust svæði á nýjum tímum í öryggismálum

Útgáfa

Ný útgáfa í ritröð rannsóknaseturs um smáríki 2013, sem heyrir undir Alþjóðamálastofnun:

Defence and Security for the Small: Perspectives from the Baltic States

Höfundar:  Raimonds Rublovskis, Margarita Šešelgyte og Riina Kaljurand

Aðgengileg rafrænt hér:  /wp-content/uploads/old/defence_and_security_-_layout3.pdf

Sovereign Liechtenstein The Soft Power Projection of a Very Small State

Höfundar: Kevin D. Stringer

Aðgengileg rafrænt hér:  /wp-content/uploads/old/liechtenstein_layout_final.pdf

Rannsóknasamstarf erlendis

Starfsfólk Alþjóðamálastofnunar og rannsóknaseturs um norðurslóðir fór í vinnuferð til Noregs í ágúst 2013. Þar var fundað með starfsfólki norska utanríkisráðuneytisins, fræðimönnum við háskólann í Osló og ýmsum sérfræðingum sem vinna að norðurslóðamálum hjá rannsóknastofnunum. Stefnt er að því að vinna í sameiningu að fjölbreyttum verkefnum á sviði norðurslóðarannsókna og alþjóðasamskipta  á komandi mánuðum.

Í desember 2013 fór starfsfólk  Alþjóðamálastofnunar og rannsóknaseturs um norðurslóðir, ásamt fulltrúum frá Háskólanum í Reykjavík og Bifröst, í vinnuferð til Washington DC og Alaska. Hópurinn fundaði með sérfræðingum úr bandaríska utanríkisráðuneytinu, fræðimönnum við háskólann í Alaska í Anchorage og Fairbanks og fjölda sérfræðinga sem starfa við rannsóknastofnanir í Washington DC og Alaska. Lagður var grunnur að öflugu samstarfi á sviði norðurslóðarannsókna og menntunar sem tengist málefnum norðurslóða.    

 

Við þökkum kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári og hlökkum til að samstarfs á nýju ári.  

Fylgist með:

Vefsíða Alþjóðamálastofnunar: www.ams.hi.is

Vefsíða Rannsóknaseturs um norðurslóðir: www.caps.hi.is

Alþjóðamálastofnun á Facebook: www.facebook.com/althjodamalastofnun

 

Nánari upplýsingar:

Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar: ams@hi.is / sími: 693-9064

Jón Gunnar Ólafsson, verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun: jgo@hi.is / sími: 694-6624