Úkraína: Staðan í dag í sögulegu samhengi

Opinn fundur Alþjóðamálastofnunar í samstarfi við Norræna húsið, mánudaginn 24. mars  kl. 12 til 13:15, í fundarsal Norræna hússins


ukraina-netaugl

Atburðir liðinna vikna á Krímskaga kalla á ítarlega umfjöllun og skoðun á því hvað býr að baki. Jón Ólafsson, heimspekiprófessor og Sverrir Jakobsson, lektor í sagnfræði, þekkja vel til í þessum heimshluta. Á opnum fundi Alþjóðamálastofnunar ræða þeir söguna og hina pólitísku stöðu sem upp er komin í Úkraínu. Allir velkomnir.

Var innlimunin óumflýjanleg? Jeltsín, Pútín, Rússar og Krím

Þegar Boris Jeltsín, Stanislav Shuskevítsj og Leonid Kravtsjúk stofnuðu Samveldi sjálfstæðra ríkja í desember 1991 virtust þeir halda að auðvelt yrði að leysa ýmis ágreiningsefni sem kynnu að koma upp á milli nýsjálfstæðra fyrrverandi sovétlýðvelda. Krímskagi var eitt slíkt. Ýmsum sögum fer af samtölum Jeltsíns og Kravtsjúks um framtíð skagans. Samkvæmt einni á Jeltsín að hafa sagt „æ taktu hann bara“, samkvæmt annarri – „það mál ræðum við síðar“. Í fyrirlestrinum er fjallað um hvernig rússnesk viðhorf til Krím hafa komið fram í innanlandsumræðu síðan Sovétríkin voru leyst upp.
Jón Ólafsson er prófessor í heimspeki og aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst.

Humpty Dumpty og heimsmálin: Úkraína og stórveldin

Í þessu erindi verður litið yfir sögu Úkraínu frá 1991 og greindir þeir þættir sem leiddu til valdatöku stjórnarandstöðunnar í febrúar og sjálfstæðisyfirlýsingu Krímhéraðs í mars. Leitað verður svara við því hvers vegna Úkraína er orðin bitbein stórvelda og hvers vegna kosningar um sjálfstæði í Krímhéraði setja Vesturlönd í vanda.
Sverrir Jakobsson er lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Fundarstjóri: Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands

Iuliana Kalenikova, meistaranemi í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, opnar fundinn