Kynning á úttekt Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður Íslands við ESB

Á mánudaginn, 7. apríl, fer fram kynning á úttekt Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. Úttektin var unnin fyrir Alþýðusamband ÍslandsFélag atvinnurekendaSamtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands. Fundurinn fer fram á Grand Hótel Reykjavík klukkan 8.15-11.30. Hann verður sýndur í beinni vefútsendingu á Vísi.is og RÚV.is.

Á fundinum munu höfundar úttektarinnar kynna efni hennar og helstu niðurstöður. Að þeim kynningum loknum fara fram pallborðsumræður, þar sem höfundarnir sitja fyrir svörum. Fundarstjóri verður Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

Opnunarávarp
Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins

Kynning á úttekt Alþjóðamálastofnunar
Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands

Efnahags- og peningamál
Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og lektor við Háskóla Íslands

Sjávarútvegsmál
Bjarni Már Magnússon, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík

Landbúnaður og byggðamál
Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands

Pallborðsumræður
Höfundar skýrslunnar sitja fyrir svörum

Samantekt
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands


Um höfunda
Höfundar úttektar Alþjóðamálastofnunar eru Auðunn Arnórsson, Bjarni Már Magnússson, Ásgeir Jónsson, Daði Már Kristófersson, Pia Hansson, Jóna Sólveig Elínardóttir, Jón Gunnar Ólafsson, Tómas Joensen og Vilborg Ása Guðjónsdóttir. Ágrip af náms- og starfsferli þeirra má finna hér að neðan.

Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veitir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands í síma 525-5262 eða í tölvupósti á netfanginu ams@hi.is.

 

Nánar um höfunda

Auðunn Arnórsson er Evrópustjórnmálafræðingur frá Evrópuháskólanum í Brugge í Belgíu og MA í sagnfræði og stjórnmálafræði frá Freiburgarháskóla í Þýskalandi. Meðfram störfum sem blaðamaður (á Morgunblaðinu 1995-2004 og á Fréttablaðinu 2004-2009) og nú síðustu ár sem starfsmaður breska sendiráðsins á Íslandi hefur hann sinnt rannsóknum og háskólakennslu á sviði Evrópumála. Árið 2009 gaf Alþjóðamálastofnun út eftir Auðun bókina „Inni eða úti? Aðildarviðræður við Evrópusambandið.“

Ásgeir Jónsson hóf starfsferilinn sem hagfræðingur hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1994 og var ritstjóri Vísbendingar árið 1995. Árið 2000 hóf hann störf á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands  og varð lektor hjá Hagfræðideild HÍ árið 2004. Ásgeir tók við starfi sem aðalhagfræðingur Kaupþings árið 2004 og forstöðumaður Greiningardeildar Kaupþings 2006 (síðar Arion Banki). Árið 2011 fór hann aftur í fulla stöðu sem lektor við HÍ samhliða því að vera efnahagsráðgjafi hjá GAMMA. Ásgeir vann ýmsar viðurkenningar  á námsferli sínum og hefur skrifað greinar og bækur um ýmis mál tengd hagfræði, hagsögu og bókmenntum. Nýjasta bók Ásgeirs „Why Iceland“ var gefin út af McGraw-Hill í Bandaríkjunum árið 2009.

Bjarni Már Magnússson er lögfræðingur og MA í alþjóðasamskiptum frá HÍ, LL.M í haf- og strandarétti frá Miami háskóla í Bandaríkjunum og Ph.D í þjóðarétti frá Edinborgarháskóla í Skotlandi. Bjarni er lektor við lagadeild HR þar sem kann kennir og sinnir rannsóknum á sviði þjóða- og hafréttar. Bjarni vinnur að bók á sviði hafréttar sem gefin verður út af alþjóðlegu forlagi í byrjun árs 2015.

Daði Már Kristófersson er dósent í hagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands. Daði lauk M.Sc. prófi í umhverfis og auðlindahagfræði frá norska lífvísinda og umhverfisháskólanum (NMBU) og síðar PhD í hagfræði frá sama skóla. Rannsóknir Daða hafa verið á sviði umhverfis- og auðlindahagfræði og landbúnaðarhagfræði. Daði gegnir nú starfi sviðsforseta Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Pia Hansson er forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Pia er með BA í fjölmiðlun frá University of Minnesota og MA í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands. Hún stundaði einnig meistaranám í sjónvarpsdagskrárgerð við City University of New York. Pia starfaði lengi vel sem upptöku- og útsendingastjóri í sjónvarpi, bæði hér heima og erlendis, en var síðan upplýsingafulltrúi sendiráðs Bandaríkjanna frá árinu 2000 til 2005. Veturinn 2007-2008 var hún fjölmiðlafulltrúi norrænnar vopnahléseftirlitssveitar á Sri Lanka á vegum utanríkisráðuneytisins.

Jóna Sólveig Elínardóttir er með MA í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands. Hún hefur áður sinnt verkefnisstjórn hjá Alþjóðamálastofnun HÍ en síðustu ár hefur hún m.a. starfað sem sérfræðingur hjá Particip GmbH og unnið úttekt fyrir framkvæmdastjórn ESB. Hún starfaði tímabundið hjá sendinefnd ESB á Íslandi og fyrir sendiráð Íslands í París. Þá hefur hún stýrt norrænu verkefni fyrir Krád Consulting og sinnt vefstjórn fyrir Evrópustofu. Jóna Sólveig hefur einnig stundað rannsóknir á sviði Evrópumála við Háskóla Íslands.

Jón Gunnar Ólafsson er verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild sama skóla. Hann lauk BA í fjölmiðla- og boðskiptafræðum frá Goldsmiths College, University of London árið 2005 og er auk þess með MA í alþjóðasamskiptum frá HÍ og hefur jafnframt lokið diplómagráðu í rannsóknaraðferðum félagsvísinda. Jón Gunnar hefur m.a. kennt námskeið um alþjóðastjórnmál, hnattvæðingu, kenningar í alþjóðasamskiptum, stjórnmál og fjölmiðla og leggur auk þess stund á rannsóknir á sviði alþjóðastjórnmála og fjölmiðlafræði.

Tómas Joensen er verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Hann er með BA í íslensku og MA í Evrópufræðum frá Háskóla Íslands. Tómas hefur einnig starfað sem aðstoðarmaður við rannsóknir við Háskóla Íslands frá árinu 2012 auk þess sem hann ritstýrir kennslubók fyrir framhaldsskóla um Evrópumál sem Alþjóðamálastofnun vinnur nú að.

Vilborg Ása Guðjónsdóttir starfaði sem verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Vilborg starfar nú hjá alþjóðadeild Alþingis. Hún er með MA í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands, en hún lauk ári af náminu við Miami-háskóla í Bandaríkjunum. Hún lauk BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005. Vilborg hefur áður starfað hjá Evrópuvefnum, Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), Evrópuþinginu og utanríkisráðuneyti Íslands.