Opinn fundur mánudaginn 19. maí: Mannréttindi og Evrópusambandið

Mánudagurinn 19. maí kl. 12:00-13:30 í Norræna húsinu 

Mannréttindi og Evrópusambandið

 Opinn fundur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Evrópustofu.

Fjallað verður um stöðu mannréttinda innan ríkja Evrópusambandsins í kjölfar efnahagsþrenginga undangenginna ára. Einnig verður fjallað um stefnu sambandsins í mannréttindamálum og hvernig hún nær yfir borgaraleg, pólitísk, efnahagsleg og félagsleg réttindi. Fjallað verður sérstaklega um réttindi hinsegin fólks, jafnrétti kynjanna og tjáningarfrelsi í þessu samhengi.  

Versnandi staða í mannréttindamálum í kjölfar efnahagsþrenginga

Evrópusambandið byggir á gildum er snúa að virðingu fyrir mannlegri reisn, frelsi, lýðræði, jafnrétti, réttarríkinu og virðingu fyrir mannréttindum. Nýlegir atburðir í sumum aðildarríkjum sambandsins hafa þó sýnt að þessi gildi eru að einhverju leyti í hættu, að hluta til vegna efnhagsþrenginga undangenginna ára. Hvernig getur Evrópusambandið eflt baráttu sína fyrir mannréttindum á hnattræna vísu ef það gengur ekki alltaf að framfylgja þeim innan sjálfra aðildarríkja sambandsins? Evrópusambandið þarf réttu tækin og tólin til að leysa þetta vandamál.

Kinga Göncz er Evrópuþingmaður, varaformaður nefndar Evrópuþingsins um borgaraleg réttindi, dóms- og innanríkismál, og fyrrverandi utanríkisráðherra Ungverjalands.

Stefna Evrópusambandsins í mannréttindamálum – mannréttindi um allan heim

Árið 2012 hleypti ESB í fyrsta sinn af stokkunum framkvæmdaáætlun um mannréttindi og lýðræði (e. Strategic Framework on Human Rights and Democracy) í þeim tilgangi að bæta árangur og samhæfingu í mannréttindastefnu sambandsins. Sama ár var sérlegur sendifulltrúi ESB í mannréttindamálum tilnefndur í fyrsta sinn til þess að auka sýnileika mannréttinda í utanríkisstefnu sambandsins. Í þessu erindi verður fjallað um hvernig Evrópusambandið vinnur að því að vernda og efla virðingu fyrir mannréttindum. Sjónum verður sérstaklega beint að réttindum hinsegin fólks, jafnrétti kynjanna og tjáningarfrelsi í þessu samhengi.    

Pauline Torehall er sérfræðingur hjá utanríkisþjónustu Evrópusambandsins (EEAS).

Fundarstjóri er Alyson Bailes, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Fundurinn fer fram á ensku. Allir velkomnir.