Öryggi á norðurslóðum: Ný sjónarhorn

Málstofa á vegum Rannsóknaseturs um norðurslóðir

í samstarfi við EDDU – öndvegissetur

Tími: 28. maí kl 11:00–13:00

Staður: Oddi 101 Háskóli Íslands

Í ljósi stjórnmálaþróunar á norðurslóðum hafa spurningar vaknað um svæðisbundið öryggi. Fræðimenn og stefnumótunaraðilar eru ekki á eitt sáttir um eðli og þróun öryggismála á svæðinu. . Eftir að kalda stríðinu lauk hefur aukin áhersla verið lögð á „samfélagslegt öryggi“ í stað hernaðarlegs. Margir hafa varað við hervæðingu norðurslóða, þótt sum norðurslóðaríki hafi þegar aukið viðbúnað sinn þar í nafni fullveldisréttar.   Í því samhengi vaknar sú spurning hvaða öryggisþættir skuli vera efstir á baugi og hvað sé hlutverk umhverfis-, efnahags-, menningar- og/eða samfélagsöryggis á norðurslóðum.

Þá hefur Úkraínudeilan verið í sviðsljósinu og óttast er að togstreitan á milli austurs og vesturs hafi áhrif á samvinnu norðurskautsríkjanna. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkur ótti vaknar og skemmst er að minnast þess þegar Rússar reistu fánann á botni norðurskautsins árið 2007. Þó má einnig greina samstarfsvilja eins og undirritun Ilulissat-yfirlýsingarinnar árið 2008 ber vitni um. Þar lýstu þau fimm ríki  sem gera tilkall til landgrunnsréttinda í Norður-Íshafi   því yfir að öll deilumál verði leyst á friðsamlegan máta og í samræmi við hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Fleiri öryggismál hafa verið á dagskrá norðurskautsríkjanna svo sem umhverfismál, mengun, leit og björgun og áhrif loftslagsbreytinga á samfélög. Þar sem þessi mál eru nátengd er áríðandi að hafa í huga að öryggisógn á einu sviði getur haft áhrif á öðru. Á málþinginu verður fjallað um öryggismál á norðurslóðum í víðu samhengi. Fyrirlesarar og þátttakendur í pallborðsumræðum munu nálgast efnið frá ólíkum hliðum og leitast við að setja það í svæðisbundið og alþjóðlegt samhengi.

Fundarstjóri: Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands