Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki og opið málþing um smáríki og stjórnsýslu

Rannsóknasetur um smáríki stendur fyrir árlegum sumarskóla um smáríki og stöðu þeirra í alþjóðakerfinu í tólfta sinn dagana 23. júní – 5. júlí. Framúrskarandi nemendur frá sautján háskólum í Evrópu taka þátt í skólanum ásamt erlendum fræðimönnum sem taka að sér kennslu. Í ár verður jafnframt haldið opið málþing um stjórnsýslu og stjórnarhætti í smáríkjum þar sem erlendir og innlendir fræðimenn fjalla um smáríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins. Sérstök áhersla verður lögð á stöðu Íslands eftir hrunið. Málþingið er haldið á vegum Rannsóknaseturs um smáríki og Evrópustofu, í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og fer fram miðvikudaginn 25. júní kl. 13-16:30 í Öskju 132. Nánari upplýsingar um málþingið má nálgast á vef smáríkjasetursins, www.csss.hi.is.

Rannsóknasetur um smáríki hóf nýverið útgáfu á ritröð um smáríki þar sem nýjar rannsóknir fræðimanna í smáríkjafræðum eru kynntar á stuttan og hnitmiðaðan hátt. Smáritin eru ætluð blaðamönnum, embættismönnum, starfsmönnum sendiráða og öllum þeim sem vilja kynna sér það sem efst er á baugi í smáríkjarannsóknum. Setrið hlaut öndvegisstyrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins árið 2013 og starfar nú sem Jean Monnet öndvegissetur (Jean Monnet Centre of Excellence). Í tengslum við styrkinn mun öndvegissetrið efla sýnileika þverfaglegra rannsókna um smáríki og stöðu þeirra í alþjóðasamfélaginu.

Þrjú fyrstu smáritin eru nú aðgengileg á vef Rannsóknaseturs um smáríki undir útgáfa. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, er höfundur smáritsins Europe: Iceland Prefers Partial Engagement in European Integration og Alyson Bailes, aðjúnkt í stjórnmálafræði, er höfundar smáritanna Nordic Cooperation in Civil Emergencies og Nordic and Arctic Affairs: Why is ‘West Nordic’ Cooperation in Fashion? Fleiri smárit eru væntanleg á næstu vikum og mánuðum.