Opinn fundur í Norræna húsinu 10. september: Valkostir Skota: Sjálfstæði eða ríkjasamband?

OPINN FUNDUR Í NORRÆNA HÚSINU MIÐVIKUDAGINN 10. SEPTEMBER KL. 12:00-13:00  

Þann 18. september kjósa íbúar Skotlands um það hvort ríkið öðlist sjálfstæði, en atkvæðagreiðslan varð að veruleika eftir baráttu Skoska þjóðarflokksins. Kjósi Skotar sjálfstæði verður til nýtt ríki með um 5 milljónir íbúa. Það verður þá eitt af ríkjum Norður-Evrópu sem kalla má smáríki, ásamt Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Sjálfstætt Skotland yrði að leita eftir náinni samvinnu við nágrannaríki og móta sína eigin utanríkisstefnu til þess að geta tekið virkan þátt í alþjóðasamstarfi. Auk þess yrði Skotland að endurskilgreina tengsl sín við NATO, Evrópusambandið og aðrar stofnanir. Forysta Skoska þjóðarflokksins hefur heitið því að vinna náið með Norðurlöndunum og nýta sér þeirra reynslu af virkri þátttöku í alþjóðasamfélaginu.

Skoðanakannarnir í Skotlandi sýna að fleiri ætla sér að kjósa nei og vilja halda áfram að vera hluti af Bretlandi. En ekkert er öruggt í þessum efnum og já- og nei-sinnar leggja sig nú alla fram og reyna að sannfæra kjósendur. Á þessum fundi mun Alyson Bailes, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, útskýra bakgrunn umræðunnar um sjálfstæði Skotlands og fjalla um helstu málefni kosningabaráttunnar og möguleg úrslit atkvæðagreiðslunnar. Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, mun fjalla um Skotland sem mögulegt nýtt smáríki, stöðu þess í Evrópu og ræða um mikilvægar ákvarðanir í utanríkismálum sem sjálfstætt Skotland yrði að taka ef sjálfstæðissinnar bera sigur úr býtum.

Greinin „Scotland as an Independent Small State: Where would it seek Shelter,“ eftir Alyson Bailes, Baldur Þórhallsson og Rachael Lorna Johnstone kom út í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla í fyrra. Baldur mun fjalla um hana í sínu erindi og má nálgast hana hér: http://www.irpa.is/article/viewFile/910/pdf_56

Fundarstjóri: Stefán Pálsson, sagnfræðingur.

Alþjóðamálastofnun á Facebook: www.facebook.com/althjodamalastofnun

Fundurinn fer fram á ensku og er öllum opinn. Að honum standa Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Edinborgarfélagið og Norðurlönd í fókus