Rannsóknasetur um smáríki hlýtur stóran Erasmus+ styrk

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hlaut nýverið styrk úr nýrri menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. Styrkurinn hljóðar upp á samtals 36 milljónir íslenskra króna. Um er að ræða tveggja ára stefnumiðað samstarfsverkefni á háskólastigi. Háskóli Íslands leiðir verkefnið en fimm aðrir háskólar taka þátt í því: Kaupmannahafnarháskóli, Háskólinn í St. Andrews í Skotlandi, Háskólinn í Vilnius, Háskólinn í Tallinn og Háskólinn á Möltu. Rannsóknasetur um smáríki heyrir undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Pia Hansson forstöðumaður Rannsóknaseturs um smáríki, Jón Gunnar Ólafsson, verkefnisstjóri hjá Rannsóknasetri um smáríki og Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, þróuðu verkefnið og vinna að því fyrir hönd Háskóla Íslands í samvinnu við fræðimenn í háskólunum fimm. Fyrsti vinnufundur var haldinn í Kaupmannahafnarháskóla föstudaginn 19. september. Á næstu tveimur árum munu skólarnir sex vinna að því að þróa nánara samstarf á sviði smáríkjafræða. Fjármunir verða nýttir til að halda sumarskóla, ráðstefnur, standa að stúdentaskiptum og þróa samstarf í kennslu.

Erasmus+ styrkurinn er mikil viðurkenning á starfi smáríkjasetursins sem hefur sérhæft sig í stöðu smáríkja í Evrópu. Árið 2013  hlaut setrið öndvegissetursstyrk frá menntaáætlun Evrópusambandsins og starfar nú sem Jean Monnet Centre of Excellence. Stofnun öndvegissetursins var framhald á fyrri viðurkenningum sem setrið hefur hlotið en þar má helst telja styrkveitingar til reksturs sumarskóla um smáríki síðastliðin tólf ár og styrki til kennsluþróunar í Evrópufræðum, í samstarfi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.