Efst á heimskautsbaugi – alþjóðleg ráðstefna 28. og 29. október í Reykjavík

Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands stendur fyrir stórri alþjóðlegri ráðstefnu um málefni norðurslóða dagana 28. og 29. október á Center Hotel Plaza í Reykjavík. Ráðstefnan heitir Efst á heimskautsbaugi: Sjálfbærni, samstarf og stjórnarhættir eða The Trans-Arctic Agenda: Challenges of Sustainability, Cooperation and Governance. Hún er nú haldin í annað sinn en fór fyrst fram við stofnun rannsóknaseturins í mars 2013. Kastljósinu verður sérstaklega beint að stjórnarháttum á norðurslóðum síðustu misserin.

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, opna ráðstefnuna.

Mörg brýn málefni verða í forgrunni og þá sértaklega þær breytingar sem eiga sér óðfluga stað í kjölfar loftslagsbreytinga og aukins alþjóðlegs áhuga á norðurslóðum. Í þessum breytingum felast nýir möguleikar á nýtingu auðlinda, landsvæðis og í ferðaþjónustu en þær ógna einnig öryggi og lífvænlegu umhverfi allra íbúa í norðri. Skynsamleg, sjálfbær og samhent viðbrögð við þessum áskorunum skipta sköpum ef njóta skal ávinnings af breytingunum og lágmarka mögulegan skaða.

Sjónarhorn norðurslóðaríkja verður áberandi en sjónum verður einnig beint að félagasamtökum, hagsmunahópum, viðskiptalífinu og áheyrnaraðilum í Norðurskautsráðinu. Horft verður til fjölbreyttra viðhorfa þeirra og stefnumála, spurt hvernig skoðanamyndun á sér stað og hvaða raddir nái eyrum stefnumótunaraðila. Sérstaklega verður fjallað um samspil og togstreitu milli viðskipta og umhverfisverndar, lagalegar áskoranir og svæðisbundið samstarf. Þá munu færustu alþjóðlegu sérfræðingar fjalla um stjórnarformennsku Kanada í Norðurskautsráðinu sem er íða undir lok og hvers megi vænta þegar Bandaríkin taka við því hlutverki á næsta ári.

Ráðstefnan fer fram á ensku og er öllum opin. Áhugasamir geta skráð sig með því að senda tölvupóst á caps@hi.is með upplýsingum um nafn og starfsheiti.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér