Áhugaverður fundur um dýravelferð

Alþjóðamálastofnun, í samstarfi við Evrópustofu og Matvælastofnun, stóð fyrir opnum fundi þann 3. mars um dýravelferð á Íslandi og í Evrópu.

Terence Cassidy frá matvælastofnun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fjallaði um þróun dýraverndarlöggjafar í Evrópusambandinu og hvaða aðferðum væri beitt til að fá aðildarríkin til að taka upp nýja stefnu í þessum málum. Hér má nálgast glærurnar frá framsögu hans.

Þóra Jóhanna Jónasdóttir flutti síðan erindi þar sem hún kynnti nýja löggjöf á Íslandi í dýravelferðarmálum ásamt því að bera saman að hvaða leyti íslensk lög eru frábrugðin lögum Evrópusambandsins í málaflokknum. Hér má nálgast glærurnar frá framsögu hennar.

Að erindum loknum voru pallborðsumræður þar sem Erna Bjarnadóttir frá Bændasamtökunum, Dominique Plédel Jónsson frá Neytendasamtökunum og Sif Traustadóttir frá Dýraverndarsambandi Íslands stilltu fram sjónarmiðum sinna samtaka og gerðu athugasemdir við erindin.

Á fundinum kom fram að miklar breytingar hafi orðið á dýraverndarlöggjöf á undanförnum árum og að velferð dýra sé í síauknum mæli höfð að leiðarljósi við framleiðslu og flutning á dýrum. Einnig kom fram að Ísland stendur nokkuð framarlega í dýravelferðarmálum og að hin nýja löggjöf sem tók gildi árið 2014 hafi verið stórt skref fram á við í þessum málum. Engu að síður eru málaflokkar þar sem Ísland þyrfti að gera betur, eins og í aðbúnaði varphæna.

Það var einróma álit allra sem töluðu á fundinum að almenningur þyrfti að vera betur upplýstur um líf skepna og að hinn almenni neytandi þyrfti að hafa betri vitneskju um hvað fer fram inni í sláturhúsum, á sveitabýlum og við flutning á dýrum. Neytendur gætu þannig áttað sig betur á mikilvægi dýravelferðar en sömuleiðis verið tilbúnir að leggja einhvern kostnað í hana.