Ritröð um smáríki: ‘Suður-Kákasus: Nagornó-Karabak, smáríki á umdeildu yfirráðasvæði’

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hefur hafið útgáfu á ritröð um smáríki þar sem nýjar rannsóknir fræðimanna í smáríkjafræðum eru kynntar á stuttan og hnitmiðaðan hátt. Smáritin eru ætluð blaðamönnum, embættismönnum, starfsmönnum sendiráða og öllum þeim sem vilja kynna sér það sem efst er á baugi í smáríkjarannsóknum.

South Caucasus: Nagorno-Karabakh Between a Contested Territory and a Small State eftir Urban Jaksa er eitt þeirra smárita sem Rannsóknasetur um smáríki hefur gefið út. Það fjallar um smáríkið Nagornó-Karabak sem hefur ekki verið viðurkennt sem sjálfstætt ríki af neinu aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Nágrannaríkin Armenía og Aserbaídsjan hafa bæði gert tilkall til ríkisins en þrátt fyrir spennu á svæðinu hefur ekki blossað upp stríð milli þeirra frá því átök brutust út um yfirráð yfir Nagornó-Karabak við lok 9. áratugarins.

Hér má nálgast smáritið í heild sinni.

Rannsóknasetur um smáríki hlaut öndvegisstyrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins árið 2013 og starfar nú sem Jean Monnet öndvegissetur (Jean Monnet Centre of Excellence). Í tengslum við styrkinn mun öndvegissetrið efla sýnileika þverfaglegra rannsókna um smáríki og stöðu þeirra í alþjóðasamfélaginu.