Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki 2015

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands stendur fyrir sumarskóla um smáríki og stöðu þeirra í Evrópu dagana 22. júní – 4. júlí. Þetta er í þrettánda sinn sem setrið skipuleggur sumarskóla af þessu tagi. Framúrskarandi nemendur frá sex háskólum í Evrópu taka þátt í skólanum að þessu sinni Sumarskólinn er hluti af stærra Erasmus+ stefnumiðuðu samstarfsverkefni á háskólastigi. Háskóli Íslands leiðir verkefnið en fimm aðrir háskólar taka þátt í því: Kaupmannahafnarháskóli, Háskólinn í St. Andrews í Skotlandi, Háskólinn í Vilnius, Háskólinn í Tallinn og Háskólinn á Möltu. Skólarnir sex vinna nú að því að þróa nánara samstarf á sviði smáríkjafræða. Fjármunir verða nýttir til að halda sumarskóla, ráðstefnur, standa að stúdentaskiptum og þróa samstarf í kennslu. Háskólinn á Möltu, í samstarfi við Rannsóknasetur um smáríki, skipulagði fyrstu ráðstefnuna í maí síðastliðnum. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, Pia Hansson, forstöðumaður Rannsóknaseturs um smáríki og Jón Gunnar Ólafsson, verkefnisstjóri hjá Rannsóknasetri um smáríki sóttu hana fyrir hönd Háskóla Íslands. Setrið heyrir undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Rannsóknasetur um smáríki hóf árið 2014 útgáfu á ritröð um smáríki þar sem nýjar rannsóknir fræðimanna í smáríkjafræðum eru kynntar á stuttan og hnitmiðaðan hátt. Smáritin eru ætluð blaðamönnum, embættismönnum, starfsmönnum sendiráða og öllum þeim sem vilja kynna sér það sem efst er á baugi í smáríkjarannsóknum. Setrið hlaut öndvegisstyrk frá Menntaáætlun Evrópusambandsins árið 2013 og starfar eftir það sem Jean Monnet öndvegissetur (Jean Monnet Centre of Excellence). Í tengslum við styrkinn hefur öndvegissetrið eflt sýnileika þverfaglegra rannsókna um smáríki og stöðu þeirra í alþjóðasamfélaginu. Sex fyrstu smáritin eru nú aðgengileg á vef Rannsóknaseturs um smáríki, www.csss.hi.is, undir útgáfa. Fyrrum nemandi sumarskóla Rannsóknaseturs um smáríki árið 2013, Urban Jaksa, er höfundar nýjasta smáritsins sem ber heitið South Caucasus: Nagorno-Karabakh Between a Contested Territory and a Small State. Hann stundar nú doktorsnám við Háskólann í York.